Skip to main content
28. mars 2018

Val á framhaldsskóla getur haft áhrif á heilsufar

„Menntunar- og félagslegt umhverfi ungmenna hefur mikil áhrif á heilsufar þeirra. Þegar við skoðum hreyfi- og svefnvenjur ungs fólks þá virðist t.d. skipta máli hvort þau velja fjölbrautaskóla eða framhaldsskóla með bekkjakerfi,“ segir Erlingur Jóhannsson, prófessor í íþrótta- og heilsufræði við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Þetta kemur fram í nýjustu gögnum rannsóknarinnar „Heilsuhegðun ungra Íslendinga“ sem er afar umfangsmikil langtímarannsókn. Erlingur hefur unnið að rannsókninni undanfarinn áratug ásamt samstarfsfólki sínu við námsbraut í íþrótta- og heilsufræði þar sem skoðaðar eru staða og langtímabreytingar á heilsufari og lifnaðarháttum einstaklinga.

„Þessir einstaklingar hafa verið kannaðir við sjö, níu, fimmtán og sautján ára aldur. Úrtakið er rúmlega 500 einstaklingar, eða um 15% allra Íslendinga sem fæddir eru árið 1999. Við fimmtán ára aldur kom í ljós að fleiri ungmenni voru of þung, hreyfing og þrek þeirra hafði minnkað töluvert miðað við þegar þau voru á níunda aldursári. Þá voru aðeins 20% ungmenna sem uppfylltu ráðleggingar um átta tíma svefn á sólarhring,“ lýsir Erlingur en áður hefur verið fjallað um svefnvenjur ungmenna hér á landi í tengslum við rannsóknina.

Að sögn Erlings eru ungmennin nú rannsökuð með skemmra millibili en áður vegna hraðra samfélagsbreytinga. „Vorið 2017 voru þessir sömu einstaklingar skoðaðir, þá sautján ára, og í ljós kom að mikilvægum heilsufarsþáttum þeirra hafði hrakað enn frekar, þ.e. þau voru þyngri, þrekminni og sváfu verr,“ bætir Erlingur við og bendir á að þrátt fyrir aukna heilsuvakningu í samfélaginu og sífellt meiri áherslu á fyrirbyggjandi aðgerðir og forvarnir er greinilegt að gera þarf enn betur.

Eins og fyrr sagði eru ákveðnar vísbendingar um að val á framhaldsskóla geti haft áhrif á heilsufar. „Þetta eru afar athyglisverðar niðurstöður sem vert er að kanna betur. Það er of snemmt að draga ályktanir en þetta varðar þætti sem tengjast bæði svefnlengd og hreyfingu. Skýringuna má mögulega rekja til meiri sveigjanleika í uppbyggingu náms í fjölbrautaskólum.“

Erlingur Jóhannsson 

Erlingur Jóhannsson er prófessor í íþrótta- og heilsufræði við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Hann lauk doktorsprófi í íþróttalífeðlisfræði frá Norska íþróttaháskólanum og starfaði sem nýdoktor við læknadeild Oslóarháskóla. Erlingur var settur skólastjóri Íþróttakennaraskóla Íslands og forstöðumaður íþróttafræðaseturs á Laugarvatni. Þá hefur hann stjórnað uppbyggingu á grunn- og meistaranámi í íþrótta- og heilsufræði við Háskóla Íslands. Erlingur hefur verið afkastamikill vísindamaður um árabil og snerta viðfangsefnin m.a. holdafar, hreyfingu, þrek, svefn, andlega og félagslega heilsu barna og ungmenna.

Aukin vísindaleg þekking á breytingum á atgervi og heilsufari barna og ungmenna á uppvaxtarárum þeirra er nauðsynleg í nútímaþjóðfélagi. „Langtímarannsóknir eru þeim gæðum búnar að þær geta sagt til um ákveðnar breytingar og þróun hjá einstaklingum og hópum. Hvernig heilsufarsþættir tengjast lifnaðarháttum ungmenna, og almennri virkni í daglegu lífi, veitir heilbrigðis- og menntayfirvöldum afar gagnlegar upplýsingar. Þannig er auðveldara að segja til um hvaða fyrirbyggjandi aðgerðir er æskilegt að grípa til hverju sinni.“

Rannsóknarverkefnið „Heilsuhegðun ungra Íslendinga“ er unnið í samstarfi við Skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar, Námsmatsstofnun, Hjartavernd, sex grunnskóla og fleiri aðila. Fjöldi meistara- og doktorsnema við Háskóla Íslands hefur komið að verkefninu sem styrkt er af Rannís.

Framsækin menntun fyrir farsælt samfélag

Fréttin er liður í myndbandsröð um rannsakendur á Menntavísindasviði sem ber yfirskriftina Framsækin menntun fyrir farsælt samfélag. 

Myndböndin eru aðgengileg á YouTube-rás Menntavísindasviðs. 

„Menntunar- og félagslegt umhverfi ungmenna hefur mikil áhrif á heilsufar þeirra. Þegar við skoðum hreyfi- og svefnvenjur ungs fólks þá virðist t.d. skipta máli hvort þau velja fjölbrautaskóla eða framhaldsskóla með bekkjakerfi,“ segir Erlingur Jóhannsson, prófessor í íþrótta- og heilsufræði við Menntavísindasvið Háskóla Íslands.