Skip to main content
4. október 2022

Úr sjálfstæðum og jafnréttissinnuðum í fullkomin og frábær börn

Úr sjálfstæðum og jafnréttissinnuðum í fullkomin og frábær börn - á vefsíðu Háskóla Íslands

Lýsingar mæðra á börnum sínum í opinberum viðtölum hafa breyst mikið á síðustu 50 árum og þau eru nú sögð hæfileikarík, fullkomin, hamingjusöm og andlega gefandi fyrir mæðurnar en voru áður sjálfstæð og jafnréttissinnuð. Þetta sýnir ný rannsókn Auðar Magdísar Auðardóttur, lektors á Menntavísindasviði, sem kynnt verður á ráðstefnunni Menntakviku sem fram fer í Stakkahlíð 6. og 7. október.

Erindið á Menntakviku kallar Auður „Fullkomin og frábær: Lýsingar mæðra á börnum sínum í opinberum viðtölum 1970-1979 samanborið við 2010-2019,“ en það byggist á greiningu á 130 viðtölum við mæður í prentmiðlum á þessum tveimur tímabilum.

„Móðurhlutverkið hefur breyst gríðarlega á undanförnum áratugum. Á Norðurlöndunum eru nú flestar mæður í fullri vinnu og hérlendis er atvinnuþátttaka kvenna með mesta móti. Á sama tíma eru æ auknar kröfur gerðar til mæðra sem uppaldenda. Þeim er ætlað að vera nokkurs konar frumkvöðlar sem sífellt þurfa að hafa í huga að hámarka getu barnsins á öllum sviðum lífsins,“ bendir Auður á en hún hefur rýnt í það með hvaða hætti hugmyndir okkar um móðurhlutverkið hafa breyst undanfarna áratugi. 

„Það er til talsvert af breskum og bandarískum rannsóknum sem sýna að kröfur okkar til mæðra hafa aukist mjög á undanförnum áratugum og okkur Önnudís Gretu Rúdólfsdóttur, dósent á Menntavísindasviði, langaði að kanna hvort við sæjum svipaðar hugmyndir hérlendis um móðurhlutverkið. Aðferðin sem við völdum  var að greina opinberar orðræður sem birtast í fjölmiðlaviðtölum við mæður yfir langt tímabil. Eitt af því sem vakti athygli mína þegar ég fór að lesa þessi mörg hundruð viðtöl sem ég safnaði var að ekki aðeins höfðu hugmyndir okkar um hlutverk móðurinnar breyst heldur einnig lýsingar mæðranna á börnunum sínum,“ segir Auður sem ákvað að vinna rannsókn þar sem hún einblíndi á þennan hluta gagnanna. Afrakstur rannsóknarinnar hefur þegar birst í grein í tímaritinu European Journal of Cultural Studies.

Áhrif ákafrar mæðrunar og nýfrjálshyggju

Auður segist hafa notað fræðilegan ramma ákafrar mæðrunar og hrifa í tengslum við nýfrjálshyggju í rannsókninni. Með ákafri mæðrun er átt við þær kröfur að mæður eigi að vera miklum tíma, orku og fjármunum í uppeldi á börnum sínum, en fræðimenn hafa í auknum mæli beint sjónum sínum að þessum kröfum í rannsóknum sínum. „Erlendar rannsóknir hafa sýnt að fjölmiðlar spila mjög stóran þátt í því að mála upp óraunhæfa glansímynd af hinni fullkomnu, hamingjusömu móður – en þessi ímynd er einnig nátengd stéttastöðu, hvítleika, gagnkynhneigð og því að vera ekki fötluð eða langveik. Menning okkar og hugmyndafræði ákafrar mæðrunar setur pressu á mæður að uppfylla þessa ímynd sem er fullkomlega óraunhæft markmið fyrir velflestar konur,“ segir hún.

Auður segir enn fremur að nýfrjálshyggja, sem sé ráðandi í vestrænum samfélögum, geri ráð fyrir að foreldrar, einkum mæður, vegi og meti alla mögulega kosti hvað varðar menntun, matarræði, tómstundir og aðra þætti í lífi barnsins og þar ráði sjónarmið markaðshyggju. „Þannig hefur móðurhlutverkið orðið mjög flókið og tímafrekt, það nægir ekki lengur að elska barnið og sjá því fyrir húsaskjóli og næringu. Þessi menning gerir það að verkum að foreldrar upplifa mikla streitu í foreldrahlutverkinu, einkum mæður,“ segir Auður enn fremur.

Hún bætir við að nýfrjálshyggjan hafi einnig áhrif á tilfinningar fólks, en samkvæmt henni þurfi fólk að vera „besta útgáfan af sjálfum sér“ eða „lifa sínu besta lífi“ í gegnum persónulegt val, neyslu, sjálfsvinnu og ýmiss konar samkeppni í einkalífinu. „Í þessu felst einnig að móta tilfinningar sínar, sýna seiglu andspænis mótlæti, vinna að hamingju og jákvæðni á meðan reiði, tilfinningalegar þarfir, þreyta og gagnrýni (neikvæðni) eru litnar hornauga. Þannig upplifir fólk að það þurfi að vera hamingjusamt, sýna seiglu og aðlögunarhæfni sama hversu erfiðar eða streituvaldandi aðstæður þess eru.“  

Að sögn Auðar hefur minna verið rannsakað hvaða áhrif áköf mæðrun og nýfrjálshyggja hefur á það með hvaða augum við lítum börn og barnæsku og hvernig sú sýn hefur breyst undanfarin 50 ár og úr því vildi hún bæta í rannsókninni.

„Móðurhlutverkið hefur breyst gríðarlega á undanförnum áratugum. Á Norðurlöndunum eru nú flestar mæður í fullri vinnu og hérlendis er atvinnuþátttaka kvenna með mesta móti. Á sama tíma eru æ auknar kröfur gerðar til mæðra sem uppaldenda. Þeim er ætlað að vera nokkurskonar frumkvöðlar sem sífellt þurfa að hafa í huga að hámarka getu barnsins á öllum sviðum lífsins,“ segir Auður.

Lýsingar mæðra á börnum sínum breyst mikið á 50 árum

Sem fyrr segir náði rannsóknin til 130 viðtala við mæður í prentmiðlum á tveimur árabilum, 1970-1979 og 2010-2019. „Lýsingar mæðra á börnum sínum hafa breyst mjög mikið á milli þessara tímabila sem eru til skoðunar. Lýsingarnar á fyrra tímabilinu voru styttri og óalgengari heldur en á seinna tímabilinu sem er áhugaverð staðreynd út af fyrir sig,“ bendir hún á.

Í greiningarvinnunni varð Auður vör við ákveðin þemu og á fyrra tímibilinu var það sem hún kallar þemað um sjálfstæðu og jafnréttissinnuðu börnin. „Við sjáum hvernig lýsingarnar á börnunum taka mið af því að á þessum tíma eru konur að fara í auknum mæli í nám eftir barneignir eða út á vinnumarkaðinn. Það voru ákveðnir vaxtaverkir í þjóðfélaginu samhliða þessu og talsvert tekist á um það hvort þetta væri til góða eða ekki. Þarna kom til dæmis fram ímyndin um hið vanrækta lyklabarn sem kemur að tómu heimili eftir skóla af því mamma er úti að vinna. Sem einhvers konar andsvar við þessu eru lýsingar mæðranna á börnunum mjög í þá átt að þau séu sjálfstæð og jafnréttissinnuð – þess vegna verði þeim ekki meint af því að mæður þeirra séu úti á vinnumarkaðnum. Þvert á móti þá græði þau á því, þau verði sjálfstæðari og jafnréttissinnaðri fyrir vikið,“ segir Auður.

Barnið verður andlegu leiðtogi móður sinnar

Á síðara tímabilinu greindi Auður þrjú þemu: Náttúrulega hæfileikaríka barnið, fullkomna og skemmtilega barnið og barnið sem andlegur leiðtogi móður sinnar. „Börnunum var mjög gjarnan lýst sem hæfileikaríkum en yfirleitt var hér ekki vísað í hefðbundið bóknám eða tómstundir heldur óformlegt nám og sköpun sem á sér ekki síst stað með virkri en óformlegri örvun heima fyrir. Í takti við tilfinningareglur nýfrjálshyggjunnar er svo lögð mikil áhersla á að móðurhlutverkið og barnæskan séu sveipuð hamingjuljóma, börnin eru skemmtilegir gleðigjafar og fullkomin. Slíkar lýsingar er ekki að finna á fyrra tímabilinu,“ segir Auður enn fremur. 

Í þemanu um barnið sem andlegan leiðtoga er börnunum lýst sem kennurum mæðra sinna að sögn Auðar. „Þetta minnir á tilfinningareglur nýfrjálshyggjunnar þar sem orðræða þakklætis og andlegrar uppvakningar, sem sé persónuleg ábyrgð hvers og eins, er ríkjandi en getan til að sjá kerfisbundið óréttlæti eða meðtaka og vinna úr neikvæðum tilfinningum er skert. Þannig eru börnin látin bera þær byrðar að vera kennarar foreldra sinna,“ segir Auður og undirstrikar að með þessum lýsingum á börnum sínum séu mæðurnar að tala inn í orðræður nýfrjálshyggjunnar sem segja þeim að keppast um að vera sem næst fullkomnun. 

Að sögn Auðar kemur á óvart hversu skörp breytingin er í orðræðunni á þessu árabili sem sýnir að á seinna tímabilinu liti hugmyndafræði einstaklingshyggju, ákafar mæðrunar og samkeppni sýn okkar á börn og barnæsku. „Börn virðast nú vera orðin leið fyrir foreldra til að öðlast andlega vakningu og að því marki að skapa sem fullkomnast fjölskyldulíf þar sem hamingja og hæfileikar eru til sýnis fyrir annað fólk í gegnum fjölmiðlaorðræður,“ segir Auður. Hún vonast til þess að niðurstöður rannsóknarinnar nýtist fólki til að skilja betur samband foreldra við börnin sín og með hvaða hætti andrúmsloftið í samfélaginu litar samskipti innan fjölskyldna og þær kröfur sem við gerum til foreldra og barna.

Auður kynnir rannsóknina nánar á málstofunni Mæður og feður á Menntakviku en málstofan fer fram föstudaginn 7. október kl. 14.30-16.  Hægt er að kynna sér málstofuna og allar aðrar málstofur á ráðstefnunni á vefsvæði Menntakviku.

Auður Magndís Auðardóttir