Undur vísindanna í HÍ kynnt á Vísindavöku | Háskóli Íslands Skip to main content
24. september 2019

Undur vísindanna í HÍ kynnt á Vísindavöku

""

Íslenski haförninn, sandkassatilraunir með eldfjöll og jarðskorpuhreyfingar, árangur Íslendinga í fótbolta á alþjóðavísu, örverur að störfum í matvælum, gott mataræði, lýðræðisleg stjórnarskrárgerð, áhrif snjalltækninnar á íslenska tungu, aukin sjálfbærni og endurnýting í textílmennt og fæðuöryggi í heiminum er meðal þeirra viðfangsefna sem vísindamenn og nemendur við Háskóla Íslands kynna á Vísindavöku Rannís í Laugardalshöll á laugardaginn kemur, 28. september, kl. 15-20. Vakan er opin öllum áhugasömum og ókeypis er inn.

Vísindavaka hefur um árabil verið haldin í helstu borgum Evrópu í lok septembermánaðar en markmiðið með henni er að færa vísindin nær almenningi, kynna manneskjurnar á bak við vísindin og vekja fólk til umhugsunar um mikilvægi rannsókna- og vísindastarfs í nútímasamfélagi. Vísindavakan var endurvakin hér á landi í fyrra eftir nokkurra ára hlé en þá komu þúsundir í Laugardalshöll að hitta fulltrúa háskóla, vísindastofnana og fyrirtækja sem kynntu þar forvitnilega starfsemi sína. 

Á Vísindavöku er lögð mikil áhersla á miðlun rannsókna og verkefna til allra aldurshópa á lifandi og gagnvirkan hátt og nú sem fyrr ættu allir að finna eitthvað við sitt hæfi á básum og stöðvum Háskólans í Laugardalshöll. 

Hin geysivinsæla Vísindasmiðja verður með sín skemmtilegu tæki, tól og smiðjur að ógleymdum dularfullum efnablöndum sem Sprengju-Kata kynnir af alkunnri snilld í efnafræðibásnum.

Auk ofangreindra viðfangsefna og verkefna innan Háskóla Íslands geta gestir Vísindavöku kynnt sér rannsóknir á sjálfsmyndarsköpun á Íslandi í útrás og hruni, hvernig sebrafiskar eru nýttir til að rannsaka sjúkdóma í mönnum, svefn- og heilsuvenjur ungmenna á Íslandi, loftmengun í íbúahverfum og á almenningssvæðum, örtækni og betri röðun skurðaðgerða. Þá býðst gestum að giska á það hver sé ráðlagður dagskammtur af grænmeti og ávöxtum, læra undirstöðuatriði hjartahnoðs og skyndihjálpar, segja frá uppáhaldshlutnum sínum í rituðu máli eða á myndbandi, kynna sér aftökur á Íslandi og skapandi skólastarf, nýta snjallsímann sinn til að greina epli og bangsa og fræðast um menningarsögu kvenna í sögu og bókmenntum. Þá verður Vísindavefurinn með skemmtilegar þrautir á staðnum og hin geysivinsæla Vísindasmiðja með sín skemmtilegu tæki, tól og smiðjur að ógleymdum dularfullum efnablöndum sem Sprengju-Kata kynnir af alkunnri snilld í efnafræðibásnum.

Auk þess taka fræðimenn skólans þátt í Vísindakaffi sem fram fer í aðdraganda Vísindavökunnar bæði í höfuðborginni og úti á landi. Þar verða kynntar rannsóknir yfir rjúkandi heitum kaffibolla sem tengjast menningararfi í myndum, áhrifum umhverfisbreytinga á ferðir þorskseiða og svokölluð rökræðukönnun við endurskoðun íslensku stjórnarskrárinnar. Nánari upplýsingar um Vísindakaffið í vikunni má finna á vefsíðu Vísindavöku.

Á vefsíðu Háskólans er enn fremur að finna yfirlit yfir kynningar vísindamanna skólans á Vísindavöku.

frá Vísindavöku 2018