Skip to main content
21. júní 2019

Tvö framúrskarandi verkefni á sviði kennslu fengu viðurkenningu

""

Tvö framúrskarandi lokaverkefni til bakkalárprófs við Menntavísindasvið Háskóla Íslands fengu viðurkenningu úr Minningarsjóði Ásgeirs S. Björnssonar. Höfundar verkefnanna eru kennaranemar við Deild faggreinakennslu. Önnur ritgerðin fjallar um málfræðikennslu í grunnskóla og hin snýr að textílkennslu á unglingastigi þar sem íslensk þjóðbúningagerð er í aðalhlutverki.

Fróði Frímann Kristjánsson og Hjalti Freyr Magnússon hlutu viðurkenningu fyrir verkefnið „Nú vandast málið“ og nutu þeir leiðsagnar Ásgríms Angantýssonar, prófessors á Hugvísindasviði.

Í umsögn dómnefndar segir: „Ritgerð þeirra Fróða Frímanns og Hjalta Freys er afar vel samin og skipulögð. Efnið er skýrt og vel afmarkað og höfundar hafa gott auga fyrir því sem er áhugavert í niðurstöðunum. Heimildir eru notaðar á markvissan hátt og höfundar tengja eigin niðurstöður og athuganir við fyrri þekkingu og það sem aðrir hafa skrifað með sjálfstæðum og frumlegum hætti. Flæði og samhengi er almennt gott; röksemdir eru afmarkaðar, skynsamlegar og traustar.“
 
Í annað sinn voru jafnframt veitt hvatningarverðlaun fyrir framúrskarandi ritgerð. Höfundur hennar er Sigrún Óskarsdóttir og ber ritgerðin heitið „Þjóðlegar gersemar – þjóðbúningagerð fyrir unglingastigið“. Verkefnahefti fylgir ritgerð og það nefnist Þjóðlegar gersemar – Verkefnahefti í þjóðbúningagerð fyrir nemendur unglingastigs í grunnskóla. Leiðbeinandi hennar var Ásdís Ósk Jóelsdóttir lektor á Menntavísindasviði.

Í umsögn dómnefndar segir: „Verkefni Sigrúnar er einkar áhugavert þar sem sýnt er hvernig unnt er að tvinna saman þjóðlegum fróðleik og handverki. Höfundur hafði jafnrétti kynja að leiðarljósi og sannreyndi með tilraunum að efnið er hvetjandi. Myndefnið hæfir vel texta. Ritgerðin er samin á vönduðu máli og frágangur allur er til fyrirmyndar.“

Alls voru fimm ritgerðir tilnefndar.

Viðurkenningarnar voru afhentar við hátíðlega athöfn þann 20. júní í Háskóla Íslands. 
Myndir frá athöfninni.
 
Um Minningarsjóð Ásgeirs S. Björnssonar
Minningarsjóður Ásgeirs S. Björnssonar var stofnaður til minningar um Ásgeir sem var lektor í íslensku við Kennaraháskólann um árabil. Hann lést langt fyrir aldur fram árið 1989. Markmið sjóðsins er að efla ritsmíð við Menntavísindasvið Háskóla Íslands með því að veita viðurkenningu fyrir framúrskarandi B.Ed.-, BS- og BA-verkefni. Stjórn sjóðsins skipa: Halldóra Jónsdóttir verkefnisstjóri, Kristín Lilliendahl lektor, Kristján Jóhann Jónsson dósent og Sigurður Konráðsson prófessor sem jafnframt er formaður stjórnar.

Við athöfnina þann 20. júní. Frá vinstri: Fróði Frímann Kristjánsson, Sigrún Óskarsdóttir og Hjalti Freyr Magnússon. MYND/Kristinn Ingvarsson.