Tíu prósent 15 ára ungmenna fá nægan svefn á virkum dögum | Háskóli Íslands Skip to main content
25. febrúar 2020

Tíu prósent 15 ára ungmenna fá nægan svefn á virkum dögum

""

Einungis tíu prósent 15 ára ungmenna ná átta klukkustunda viðmiðunarsvefni á virkum dögum og óregla í svefnlengd hópsins tengist hærri fituprósentu og hærra hlutfalli á kviðfitu. Þá eru þau ungmenni sem verja minni tíma en jafnaldrar við tölvu- og símaskjái og hreyfa sig oftar ólíklegri til að greina frá einkennum um andlega vanlíðan. Þetta er meðal þess sem hin viðamikla langtímarannsókn Heilsuhegðun ungra Íslendinga leiðir í ljós. Aðstandendur rannsóknarinnar úr hópi vísindamanna og doktorsnema í íþrótta- og heilsufræði við Menntavísindasvið Háskóla Íslands kynna helstu niðurstöður hennar á fundi í Bratta í Stakkahlíð fimmtudaginn 27. febrúar.

Rannsóknin er framhald rannsóknarinnar „Lífsstíll 7 og 9 ára íslenskra barna – íhlutunarrannsókn til bættrar heilsu“, sem fram fór á árunum 2006 og 2008 meðal stórs hóps barna fæddra 1999. Sömu börnum var boðið að taka þátt í framhaldsrannsókninni við 15 og 17 ára aldur og hafa alls um 500 nemendur tekið þátt í rannsóknunum tveimur sem samanlagt spanna nærri áratug í lífi nemendahópsins. 

Markmiðið með rannsóknunum er að varpa ljósi á þær breytingar sem verða á holdafari, hreyfingu, svefni, þreki, andlegri líðan og almennum lifnaðarháttum ungs fólks frá æsku fram á unglingsár og sambandi þessara þátta við ýmsa heilsufarsþætti og námsárangur. Rannsóknin hefur notið forystu Erlings Jóhannssonar, prófessors í íþrótta- og heilsufræði við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, en að henni kemur stór hópur vísindamanna og doktorsnema við Háskóla Íslands í samstarfi við Reykjavíkurborg, Hjartavernd, mennta- og menningarmálaráðuneytið og Lýðheilsustöð Bandaríkjanna.

Sofa aðeins um sex klukkustundir á nóttu

Þrír doktorsnemar eru langt komnir með rannsókn sína innan verkefnisins og eru meðal fyrirlesara á kynningarfundinum á fimmtudag. Þeirra á meðal eru Vaka Rögnvaldsdóttir og Soffía Hrafnkelsdóttir sem verja doktorsritgerðir sínar við Háskóla Íslands í vor. Vaka hefur verið að rannsaka tengsl svefns og hreyfingar við holdafar meðal 15 og 17 ára þátttakenda í rannsókninni. „Ég ákvað að skoða svefn þar sem fjárfest hafði verið í nýjum hreyfimælum sem gefa góða mynd af svefni og hreyfingu yfir sólarhringinn í náttúrulegu umhverfi þeirra sem rannsakaðir eru. Svo heiti ég náttúrulega Vaka,“ segir hún glettin aðspurð um ástæður þessu að hún valdi umrætt viðfangsefni.

Sífellt fleiri vísindamenn beina sjónum sínum að mikilvægi svefns og tengslum hans við heilsu og líðan fólks en Vaka segir það nýnæmi að nýta hreyfimæla í rannsóknum til þess að meta svefn. „Helstu niðurstöður mínar eru að 15 ára ungmenni sofa aðeins um 6,2 klst. á skólanóttum og aðeins lengur um helgar, eða 7,3 klst. Stuttan svefn má rekja til þess hversu seint þau fara að sofa virka daga (00:22) og um helgar (01:58). Þá gefur skólabyrjun snemma morguns heldur ekkert svigrúm til þess að sofa lengur á skóladögum,“ segir Vaka. 

Miðað er við að 15 og 17 ára ungmenni þurfi að minnsta kosti átta tíma svefn á nóttu en fæst þeirra uppfylla það viðmið yfir vikuna, „Aðeins um 23% stúlkna og 20% drengja uppfylla viðmiðin við 15 ára aldur og enn færri þegar litið er til virkra daga, eða 10,7%,“ bætir Vaka við. „Í niðurstöðum kemur einnig fram að óregla á svefnlengd virka daga tengist hærri fituprósentu og hærra hlutfalli á kviðfitu meðal 15 ára ungmennanna.“

Niðurstöður Vöku sýna að þeir sem stunda  íþrótttir og eða heilsurækt sofa ekki endilega lengur en þeir sem stunda þær ekki. „Ungmenni í íþróttum þurfa svefn sem hluta af endurheimt og þeir sem stunda íþróttir virðast ekki sofa lengur en þeir sem ekki stunda íþróttir. Mikilvægt er fyrir íþróttahreyfinguna að vera meðvitaða um æfingatíma ungmenna og að íþróttaiðkun seint að kvöldi geti spillt fyrir svefnlengd,“ segir Vaka m.a. um niðurstöðurnar.

Um 43% þátttakenda stunda íþróttir og heilsurækt a.m.k. sex klukkustundir í viku og fleiri drengir en stúlkur æfa svo mikið. „Áhugavert er þó að stúlkur hreyfa sig meira en drengir um helgar,“ segir Vaka enn fremur. 

Helstu niðurstöður mínar eru að 15 ára ungmenni sofa aðeins um 6,2 klst. á skólanóttum og aðeins lengur um helgar, eða 7,3 klst. Stuttan svefn má rekja til þess hversu seint þau fara að sofa virka daga (00:22) og um helgar (01:58). Þá gefur skólabyrjun snemma morguns heldur ekkert svigrúm til þess að sofa lengur á skóladögum,“ segir Vaka Rögnvaldsóttir doktorsnemi. MYND/Kristinn Ingvarsson

Minni skjátími og meiri hreyfing sýna tengsl við betri andlega líðan

Augu margra hafa á síðustu árum beinst að áhrifum snjalltækja og tölvunotkunar á heilsu og líðan ungmenna. Í fyrsta hluta doktorsverkefnis síns, sem er hluti af rannsókninni Heilsuhegðun ungra Íslendinga, skoðaði Soffía M. Hrafnkelsdóttir tengsl skjátíma og hreyfingar við andlega líðan 15 ára ungmenna. „Mér fannst áhugavert að skoða samspil hegðunar og andlegrar líðanar hjá unglingum,“ segir Soffía aðspurð um ástæður þess að hún hafi valið þetta viðfangsefni. Alls voru tæplega 250 ungmenni í 10. bekk grunnskóla vorið 2015 spurð út í skjánotkun sína og hreyfingu og jafnframt voru lagðar fyrir ýmsar spurningar sem sneru að andlegri heilsu hópsins. „Minni skjátími og tíðari áköf hreyfing tengdust minni líkum á að greina frá einkennum um þunglyndi, kvíða, lágt sjálfsálit og óánægju með lífið. Hópurinn sem sagðist verja minni tíma við skjá og hreyfa sig oftar af ákefð var jafnframt ólíklegastur til að greina frá þessum einkennum um andlega vanlíðan,“ segir Soffía um niðurstöður sínar. Hún bætir við að niðurstöðurnar styðji lýðheilsulegt mikilvægi þess að yfirvöld og foreldrar styðji unglinga í því að minnka skjánotkun og auka hreyfingu sína. 

Soffia Hrafnkels

Soffía Hrafnkelsdóttir rannsakaði tengsl skjátíma og hreyfingar við andlega líðan 15 ára ungmenna. MYND/Kristinn Ingvarsson

Áhrif skólaumhverfis á svefnmynstur

En skyldu verða einhverjar breytingar á svefnvenjum og hreyfingu þegar ungmenninn ná 17 ára aldri? Svo virðist vera samkvæmt rannsókn sem annar doktorsnemi í verkefninu, Rúna Sif Stefánsdóttir, hefur unnið. Í henni kom m.a. í ljós að svefntími unglinga styttist að meðaltali um nærri hálfa klukkustund milli 15 og 17 ára aldurs og á sama tíma dregur töluvert úr hreyfingu á virkum dögum hjá þessum hópi. Enn fremur leiddi rannsóknin þá forvitnilegu niðurstöðu í ljós að nemendur í fjölbrautakerfi sofa lengur á skóladögum en nemendur í bekkjarkerfi. Jafnframt er breytileiki á svefnlengd og fótaferðatíma meiri hjá nemendum í fjölbrautakerfi. Niðurstöður benda einnig til þess að seinkun skólabyrjunar geti aukið svefnlengd ungmenna og svigrúm til svefns.

Dýrmætar upplýsingar fyrir stefnumótendur í samfélaginu

En hvaða þýðingu hefur þessi yfirgripsmikla rannsókn fyrir samfélagið? Erlingur Jóhannsson, stjórnandi rannsóknarinnar, segir alveg ljóst að aukin þekking á þeim breytingum sem verða á atgervi, andlegum þroska, svefni og heilsufarsþáttum ungs fólks frá grunnskólaaldri og fram á fullorðinsár sé afar mikilvæg í nútímaþjóðfélögum. „Þær lýðheilsuupplýsingar sem aflað hefur verið í þessari langtímarannsókn um íslensk ungmenni gefur heilbrigðis- og mennamálayfirvöldum ótvírætt mjög dýrmæta vitneskju. Þannig ættu stjórnvöld að eiga auðveldara með að ákveða til hvaða fyrirbyggjandi aðgerða er nauðsynlegt að grípa til á komandi árum. Í ljósi þessarar þekkingar þarf augljóslega að efla heilbrigðisfræðslu meðal ungs fólks og auka þannig meðvitund, þekkingu og skilning þess á eigin heilsu og þeim þáttum í umhverfinu sem hafa áhrif á velsæld og velferð þess,“ segir hann að endingu.

Aðstandendur rannsóknarinnar hafa nú þegar opnað vefsíðu um verkefnið og helstu niðurstöður þess en sem fyrr segir munu þeir kynna niðurstöðurnar í húsakynnum Menntavísindasviðs Háskóla Íslands í Stakkahlíð fimmtudaginn 27. febrúar. Fundurinn er öllum opinn.

Rannsóknateymið á bak við Heilsuhegðun ungra Íslendinga. Frá vinstri: Soffía Hrafnkelsdóttir, Sigríður Lára Guðmundsdóttir, Erlingur Jóhannsson, Vaka Rögnvaldsdóttir, og Rúna Sif Stefánsdóttir. MYND/Kristinn Ingvarsson