Tímabært að huga að aðgerðum gegn flugeldamengun | Háskóli Íslands Skip to main content

Tímabært að huga að aðgerðum gegn flugeldamengun

25. september 2018
""

Tímabært er að grípa til aðgerða til þess að draga úr flugeldamengun um áramót hér á landi, t.d með strangari reglum um noktun flugelda eða banni við almennri notkun þeirra. Þetta er mat tveggja prófessora við Háskóla Íslands sem hafa síðustu misseri rannsakað flugeldamengun á höfuðborgarsvæðinu og viðhorf almennings og hagsmunaaðila til flugelda.

Að rannsókninni standa Hrund Ólöf Andradóttir, prófessor við Umhverfis- og byggingarverkfræðideild, og Þröstur Þorsteinsson, prófessor í umhverfis- og auðlindafræði. Þau kynntu niðurstöður sínar á opnum fundi í Öskju, náttúrufræðahúsi Háskólans, í liðinni viku.

Í rannsókninni var svifryksmengun á höfuðborgarsvæðinu síðastliðin sl. tólf áramót skoðuð í alþjóðlegu samhengi ásamt áhrifaþáttum. Þá var rýnt í efnasamsetningu flugeldaryks og skoðaðar leiðir til úrbóta. Auk þess voru tekin viðtöl við hagsmunaðila innan stjórnkerfisins, meðal sveitarfélaga, seljenda flugelda og ferðaþjónustu og viðhorf þeirra til flugelda og flugeldasölu könnuð. Jafnframt var viðhorf þjóðarinnar til sama efnis kannað í skoðanakönnun sem unnin var í samstarfi við Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands.

Svifryksmengun tengd fjölmörgum sjúkdómum 
Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin telur að árlega falli 3,8 milljónir manna frá fyrir aldur fram í heiminum af völdum loftmengunar utan dyra og áætlað er að 80 manns deyi hér á landi af þessum völdum á hverju ári. Svifryk er talin mesta ógnin við heilsu manna en þar skipta bæði styrkur þess og kornastærð máli. Einkum er horft á tvær kornastærðir, svifryk sem er minna en tíu míkrómetrar í þvermál og fínt svifryk sem er minna en 2,5 míkrómetrar í þvermál. Til að setja stærð agnanna í samhengi má geta þess að venjulegt mannshár er um 50-70 míkrómetrar í þvermál og fínn fjörusandur um 90 míkrómetrar í þvermál.

Bent hefur verið á að svifryk sem er minna en 10 míkrómetrar í þvermál berist ofan í lungnaberkjurnar og þá getur fína svifrykið, sem er minna en 2,5 míkrómetrar, ferðast djúpt ofan í lungun, niður í lungnablöðrur og þaðan í blóðrásarkerfið og skaðað líffæri. Svifryksmengun hefur verið tengd öndunarfærasjúkdómum og hjarta- og æðasjúkdómum en jafnframt vitglöpum og minni fæðingarþyngd barna. Í ofanálag inniheldur flugeldasvifryk hækkað magn þungmálma sem flokkast sem eiturefni. Það er því mikils að vinna að ná að draga úr magni svifryks af völdum flugelda í andrúmsloftinu.

Mengunin mun meiri en í milljónaborgum
Sem fyrr segir skoðuðu Hrund og Þröstur magn svifryks á höfuðborgarsvæðinu síðastliðin 12 áramót og studdust við gögn úr mælistöðvum bæði í Reykjavík, Kópavogi og Hafnarfirði. Niðurstöður sýna m.a. að dægurgildi svifryks, sem er minna en tíu míkrómetrar í þvermál, hafa  ítrekað farið yfir heilsuverndarmörk á höfuðborgarsvæðinu á nýársdag. Sérstakt áhyggjuefni er gríðarhár styrkur svifryks á griðastöðum í þéttbýli, í miðjum íbúðarhverfum og útivistarsvæðum. Hæsta klukkustundargildi fíns svifryks, sem telst minna en 2,5 míkrómetrar í þvermál, um síðustu áramót mældist t.d. 3000 µg/m3 í Dalsmára í Kópavogi. Þetta er er talið vera Evrópumet í mengun og er langtum meiri mengun en mælst hefur í milljónaborgunum Nýju-Delí og Bejing. Einnig mældist hækkað gildi af Benzo(a)pyren í svifrykinu sl. áramót en það er krabbameinsvaldandi.

Þess má geta að samkvæmt viðmiðunum telst mengun mjög mikil þegar styrkur svifryks, sem  er minna en tíu míkrómetrar í þvermál, verður 300 µg/m3 og er fólki þá ráðlagt að forðast langvarandi útiveru. 

Meirihluti vill strangari reglur um flugeldanotkun
Meðal þess sem skoðanakönnun sem Félagsvísindastofnun vann fyrir þau Hrund og Þröst leiddi í ljós er að 69% þjóðarinnar telja að svifryksmengun af völdum flugelda geti haft skaðleg áhrif á heilsu. 

Enn fremur leiddu viðtöl við fulltrúar umhverfismála hjá ríki og borg, eins og hjá umhverfisráðuneyti, Umhverfisstofnun og Heilbrigðisnefnd Reykjavíkur í ljós að þar á bæ telja menn mengunina á gamlárskvöld óásættanlega. Jafnframt telja þeir hagsmunaaðilar sem rætt var við í rannsókninni að það sé stjórnvalda að setja reglur um flugelda, ekki sveitarfélaga.

Hrund og Þröstur vekja athygli á því að meira en helmingur landsmanna, 57%, vilji strangari reglur um notkun flugelda um áramót og rúmur fjórðungur vilji banna almenna notkun flugelda með öllu. Hvort tveggja gæti komið til greina. Í fyrrnefnda tilvikinu væri hægt að setja skorður á magn innfluttra flugelda, takmarka söluleyfi eða banna auglýsingar. Ef banna ætti almenna flugeldanotkun með öllu væri í staðinn hægt að standa að skipulögðum flugeldasýningum á vegum sveitarfélaga eða umhverfisvænum ljósasýningum. Bann við almennri notkun flugelda sé raunhæfur möguleiki í ljósi þess að meirihluta eða 80% finnist gaman að horfa á flugelda en minnihluta, um 45%, finnist gaman að skjóta. Reynsla annarra landa, eins og Kína, sýni enn fremur að bönn við almennri notkun flugelda og flugeldasýningar á vegum opinberra aðila hafi reynst betur en að setja strangari reglur við notkun flugelda.

Þröstur og Hrund benda á að engar formlegar ákvarðanir hafa verið teknar sem miða að því að draga úr mengun af völdum flugelda en nefnd á vegum umhverfisráðherra skoði nú málið. Telja þau að það sé mikilvægt að ráðast í aðgerðir um næstu áramót til þess að fyrirbyggja annað mengunarslys líkt og um síðustu áramót, eins og þau orða það. Mikilvægt sé að finna lausnir á tekjutapi björgunarsveita og halda í hátíðarstemningu og jóst sé að það þurfi hugarfarsbreytingu hjá bæði þjóðinni og hagsmunaaðilum.

Þess má geta að þau Hrund og Þröstur vinna að tveimur vísindagreinum sem byggjast á niðurstöðum rannsóknanna og ætlaðar eru til birtingar í alþjóðlegum tímaritum.

Þröstur Þorsteinsson og Hrund Andradóttir prófessorar kynna niðurstöður rannsókna sinni á fundi í Öskju í liðinni viku.
Meðal gesta á fundinum var Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra og aðstoðarmaður hans, Sigríður Víðis Jónsdóttir.
Hrund Andradóttir kynnir niðurstöður rannsóknanna
Þröstur, Hrund og Sigurður Magnús Garðarsson, forseti Verkfræði- og náttúruvísindasviðs