Skip to main content
31. janúar 2019

Tíðni alvarlegra stunguáverka ekki aukist frá aldamótum

Tíðni alvarlegra stunguáverka hefur ekki aukist marktækt hér á landi frá aldamótum og stunguáverkar eru tiltölulega sjaldgæfir hér á landi miðað við nágrannalönd. Þetta sýna niðurstöður nýrrar rannsóknar íslenskra vísindamanna á alvarlegum stunguáverkum sem birtist í tímaritinu Scandinavian Journal of Trauma, Resuscitation and Emergency Medicine á dögunum. 

Rannsóknin nær til 73 einstaklinga sem þurftu á innlögn að halda á sjúkrahús eftir áverka með hníf eða sveðju frá 2000 til og með 2015 og voru 70 þeirra meðhöndlaðir á Landspítala en þrír á Sjúkrahúsinu á Akureyri. Auk þessara 73 einstaklinga voru 15 sem létust vegna stunguáverka áður en þeir náðu á sjúkrahús.

Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að alvarlegir stunguáverkar eru tiltölulega sjaldgæfir á Íslandi ef miðað er við aðrar vestrænar þjóðir, ekki síst Bandaríkin, Ástralíu og Bretland. Einnig kom í ljós að tíðni alvarlegra stunguáverka hefur ekki aukist marktækt á þessu 16 ára tímabili, en leiðrétt var fyrir auknum mannfjölda á rannsóknartímabilinu. Svipuðum niðurstöðum hefur verið lýst erlendis en þar, eins og hér á landi, er tilfinningin oft sú að stunguáverkum hafi fjölgað og þá ekki síst vegna vaxandi umfjöllunar í fjölmiðlum.  

Alls voru 90% sjúklinganna í rannsókninni karlar og var meðalaldur tæp 33 ár. Í 96% tilfella var um árás að ræða, oftast á heimili viðkomandi (55%) eða úti á götu (32%) en í 8% tilfella varð áverkinn á skemmtistöðum og 4% urðu á vinnustað. Flestar stungurnar voru á brjósthol (26%) en næst komu stungur í kvið (22%), efri útlimi (22%), háls/andlit (17%) og neðri útlimi (8%). Þriðjungur sjúklinga hafði áverka á fleiri en einu líkamssvæði. 

Allir sjúklingarnir voru metnir með svokölluðu ISS-áverkaskori og taldist fimmtungur þeirra með lífshættulega áverka, þ.e. skor yfir 15, og voru þeir allir lagðir inn á gjörgæslu. Tveir þriðju sjúklinga þurftu á skurðaðgerð að halda, oftast á brjóstholi eða kviðarholi. Aðeins þrír sjúklingar af 73 sem náðu lifandi inn á spítala létust innan 30 daga frá áverkanum (4%), sem telst mjög góður árangur í erlendum samanburði. Þeir sjúklingar sem létust höfðu allir alvarlegar innri blæðingar eftir stunguáverka á brjóst- eða kviðarholi.

Rannsóknin undirstrikar góðan árangur af meðferð mikið slasaðra sjúklinga hér á landi en þótt alvarlegir stunguáverkar séu sem betur fer ekki algengir á Íslandi hafa flestir læknar, sem koma að meðferðinni, lokið alþjóðlega viðurkenndum námskeiðum í meðferð alvarlega slasaðra (Advanced Trauma Life Support) og góðir verkferlar á sjúkrahúsum hvað meðferð varðar. 
Aðstandendur rannsóknarinnar eru allir læknar á Landspítala og var Una Jóhannesdóttir deildarlæknir fyrsti höfundur að greininni sem Brynjólfur Mogensen og Tómas Guðbjartsson, sem báðir eru prófessorar við Læknadeild Háskóla Íslands, stýrðu.
Greinin í heild sinni
Annað ítarefni og myndir sem tengjast efni greinarinnar má finna á vef Læknablaðsins og í tímaritinu Injury.

Una Jóhannesdóttir
Frá skurðaðgerð