Skip to main content
31. mars 2020

Þakkir til starfsfólks og tilkynning til nemenda um námsmat

""

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands sendi meðfylgjandi tilkynningar til starfsfólks og nemenda í dag:

„Kæra samstarfsfólk.

Nú er ný vika hafin með nýjum áskorunum og við aðstæður þar sem við lærum öll eitthvað nýtt á hverjum degi. Ég hef dáðst að seiglu ykkar og ótrúlegum sveigjanleika við að gjörbreyta öllu því vinnulagi sem þið eruð vön til að tryggja að Háskólinn starfi áfram. Allir hafa lagst á eitt. 

Á undraverðan hátt höfum við lagað okkur að nýjum starfsháttum, tekið upp fjarvinnu og fjarfundi í krefjandi kringumstæðum. Hver einasti starfsmaður hefur gefið allt sitt í stuðningi við nemendur og kennara skólans. 

Á einungis tveimur vikum hefur okkur lánast að taka upp stafræna kennslu, ekki einungis í öllum fræðasviðum og deildum, heldur í hverri einustu námsleið skólans. Við megum vera stolt af því hversu lausnamiðaðir kennarar skólans hafa verið og hvernig þeir hafa lokið þessu gríðarlega átaki. 

Eftir mikla vinnu liggja nú einnig fyrir breytt framkvæmd prófa og námsmats í öllum námskeiðum skólans. Þar var líka afar vel að verki staðið hjá ykkur öllum. Síðar í dag mun ég senda bréf til nemenda þar sem ég mun segja stuttlega frá þessari vinnu og biðja nemendur að virða það að framkvæmdin er óhjákvæmilega eitthvað breytileg í námskeiðum ólíkra fræðasviða og deilda. Ég mun einnig kynna aðgerðir sem við erum að vinna í og hafa verið ræddar ítarlega og ítrekað á fundum með fræðasviðsforsetum skólans. Við erum sammála um að þessar breytingar séu sanngjarnar og komi til móts við nemendur á mjög erfiðum tímum, án þess að vikið sé frá þeirri meginlínu okkar að ljúka misserinu á sem eðlilegastan máta. Bréfið til nemenda fylgir hér að neðan. 

Ég hvet ykkur, kæra samstarfsfólk, til að sýna áfram þann magnaða kraft sem hefur skilað okkur þessum árangri á afar stuttum tíma. 

Munum að þetta er tímabundið ástand og sú mikla samstaða sem einkennt hefur allt okkar starf undanfarið mun tryggja okkur sigur í baráttunni fram undan. 

Besta kveðja,
Jón Atli Benediktsson, 
rektor Háskóla Íslands

-----------------------------
Ágætu nemendur.

Háskóli Íslands stefnir ótrauður að því að ljúka þessu misseri á eins eðlilegan hátt og unnt er þrátt fyrir þær aðstæður sem við glímum nú við. Undanfarna daga hafa kennarar unnið hörðum höndum að því að endurskoða framkvæmd prófa og námsmats eftir að ljóst varð að ekki er hægt að hafa lokapróf innan veggja skólans. Þessari vinnu lauk í gær og upplýsingar um útfærslu á námsmati ættu því að hafa borist ykkur eða munu gera það mjög fljótlega. 

Óhjákvæmilegt er að endurskoðað námsmat sé að einhverju leyti breytilegt eftir námskeiðum enda aðstæður ólíkar, t.d. hvað varðar verklegt nám, símat, vægi lokaprófa og eðli námsefnis. Kennarar velja þá leið í námsmati sem best hentar hverju námskeiði innan þess ramma sem Háskóli Íslands hefur sett.

Á meðal þeirra úrræða sem notuð verða eru t.d. heimapróf, rafræn próf í Inspera, verkefni og ritgerðir. Mörg af þessum úrræðum verða framkvæmd á sama tíma og auglýst próf á próftöflu. Ég hvet ykkur, kæru nemendur, til að kynna ykkur endurskoðaðar kennsluáætlanir námskeiða.

Þessu til viðbótar eru eftirfarandi aðgerðir vegna COVID-19:

  • Reglur um tvífall munu ekki gilda vegna vormisseris 2020. 
  • Nemendur sem standast námsmat í námskeiði á vormisseri (ná lágmarkseinkunn) geta leitað til kennslusviðs og sótt um að fá birtri lokaeinkunn breytt í „staðið án einkunnar“. 
  • Sérreglur einstakra deilda um að nemendur þurfi að ná lágmarkseinkunn í lokaprófi námskeiðs þar sem lokapróf er einn af matsþáttum (á móti hlutaprófum, ritgerðum o.s.frv.) munu ekki gilda á vormisseri 2020. Vegið meðaltal allra námsmatsþátta gildir þá sem lokaeinkunn. 
  • Skilafrestur á lokaritgerðum – BS/BA-ritgerðum og meistaraprófsritgerðum – er framlengdur um eina viku.
  • Ekki verður krafist veikindavottorða vegna fjarvista í prófum eða öðru námsmati á vormisseri 2020. Nemendur sendi tilkynningu um veikindi til Nemendaskrár, nemskra@hi.is, með heiti námskeiðs, nafni sínu og kennitölu.
  • Þótt ekki sé hægt að halda próf í húsakynnum HÍ verður tryggt að nemendur geti þreytt þau sjúkra- og endurtökupróf sem reglur HÍ kveða á um vegna vormisseris 2020 og haustmisseris 2019.
  • Frestur til að skrá sig í námskeið á næsta haustmisseri verður framlengdur til 21. apríl nk.

Með framangreindu reynum við eyða óvissu sem getur verið íþyngjandi fyrir nemendur skólans. Ég er þakklátur nemendum og kennurum skólans fyrir þá þolinmæði og þann sveigjanleika sem þið hafið sýnt við þessar erfiðu aðstæður.  

Saman náum við árangri og vinnum sigur í þeirri baráttu sem við nú heyjum. 

Gangi ykkur öllum að óskum.

Með góðri kveðju,
Jón Atli Benediktsson rektor

""