Skip to main content
18. mars 2020

Þakkir frá rektor til nemenda og starfsfólks

Þakkir frá rektor til starfsfólks og nemenda 18. mars 2020:

Kæru nemendur og starfsfólk.

Neyðarstjórn Háskóla Íslands fundaði í morgun á þriðja degi samkomubanns (18. mars 2020) til að fara yfir stöðu mála varðandi COVID-19.

Neyðarstjórnin þakkar kennurum og nemendum fyrir að hafa unnið afrek við að laga sig að gerbreyttum aðstæðum við kennslu og nám. Ítrekað er að Háskóli Íslands mun gera allt sem í hans valdi stendur til að unnt verði að ljúka misserinu með námsmati og prófum á tilsettum tíma.

 Starfsfólk Háskólans hefur lyft grettistaki við flóknar aðstæður til að tryggja að mikilvægt starf skólans haldi áfram. Það ber að þakka sérstaklega.

Við þessar aðstæður er mikilvægt að fólk hugi vel að andlegri og líkamlegri vellíðan en ekki er óeðlilegt að finna til óöryggis og kvíða.

Verum varkár, fylgjum fyrirmælum um samkomubann og leiðbeiningum um hreinlæti. Gleymum þó ekki að halda góðu sambandi og veitum allan þann stuðning sem við getum.

Almennar upplýsingar er að finna á COVID-19 síðu Háskóla Íslands sem er uppfærð reglulega. Einnig minnum við nemendur á að nýta sér netspjallið varðandi alla tiltæka þjónustu.

Starfsfólk sem er í sóttkví er góðfúslega beðið um að tilkynna það til næsta yfirmanns. Yfirmenn upplýsi jafnframt neyðarstjórn með því að senda tölvupóst á neydarstjorn@hi.is. Nemendur eru einnig vinsamlega beðnir að tilkynna sóttkví til neyðarstjórnar.

Saman vinnum við sigra.

Með góðri kveðju,

Jón Atli Benediktsson, rektor

""