Textílgreinin í öflugri sókn | Háskóli Íslands Skip to main content
9. febrúar 2020

Textílgreinin í öflugri sókn

Garn

Rannsóknarstofa í textíl við Menntavísindasvið Háskóla Íslands var stofnuð nýverið.  Hlutverk stofunnar er að auka og efla rannsóknir í textílgreininni og þróun í skólastarfi í samvinnu við öllskólastig. Enn fremur mun rannsóknarstofan standa fyrir ráðstefnum og taka þátt í öðrum viðburðum til að miðla þekkingu á sviði greinarinnar og kynna starfssemi stofunnar. Stofan mun einnig sinna margvíslegum verkefnum sem tengjast meðal annars rannsóknum, útgáfu, skráningu og gagnasöfnun.

Meiri áhugi meðal karlmanna en áður 

Textílmennt er yfirgripsmikil grein sem felur í sér þátt hönnunar og handverks auk þess að fela í sér þjálfun á fjölbreyttum sviðum. „Á fyrsta fundi stofunnar var rædd staða greinarinnar í dag og það helsta sem kom í ljós var að meira kynjajafnræði er í greininni nú en áður, það að bæði kynin eru að sækja í menntun, málefni og viðburði sem tengjast greininni. Einnig var rædd staða greinarinnar í tengslum við Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og er greinin þar augljóslega mikilvæg og sterk,“ segir Ásdís Jóelsdóttir, stofnandi stofunnar og lektor í textíl við Háskóla Íslands. 

Í stjórn rannsóknarstofunnar sitja Ásdís Jóelsdóttir, formaður stjórnar og stofnandi stofunnar, Katrín María Káradóttir, fagstjóri í fatahönnun við Listaháskóla Íslands, Eva María Árnadóttir, aðjunkt í fatahönnun við Listaháskóla Íslands, Soffía M. Magnúsdóttir, fata- og textílkennari við Fjölbrautaskólann í Breiðholti og Sigríður Hjartardóttir, textílkennari við Vatnsendaskóla í Kópavogi.

Slétt og brugðið  Nýtt íðorðasafn í hannyrðum

Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum birti íðorðasafn á um 450 orðum og hugtökum fyrir prjón á vef sínum á dögunum. Markmiðið með íðorðasafninu er að samræma orðanotkun innan textílfagsins meðal annars vegna útgáfu á bókum, uppskriftum og birtingar á netinu og meðal þeirra sem fjalla um sérfræðileg efni. Íðorðanefnd í hannyrðum hefur starfað síðastliðin fimm ár. Nefndina skipa: Ásdís Jóelsdóttir, lektor í textíl við Háskóla Íslands, Guðrún Hannele Henttinen, textílkennari og eigandi verslunarinnar Storksins og Herborg Sigtryggsdóttir, textíl- og vefnaðarkennari.

Það er auðséð að nóg er um að vera innan textílgreinarinnar þessi misserin – grein sem á sér djúpar rætur í menningu íslensku þjóðarinnar.

Ásdís Jóelsdóttir, lektor í textíl við Háskóla Íslands, stofanandi Rannsóknarstofu í textíl.