Skip to main content
25. apríl 2016

Svefn og heilsa íslenskra ungmenna

""

Fyrstu niðurstöður rannsóknarverkefnisins „Heilsuhegðun ungra Íslendinga“ benda til þess að unglingar hér á landi sofi lítið og fari seint í háttinn. Enn fremur kemur í ljós að unglingar eru umtalsvert þyngri og þrekminni en jafnaldrar þeirra voru fyrir röskum áratug.

Rannsóknin, sem unnin er af fræðimönnum við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, er umfangsmikil en þátttakendur eru nemendur í 10. bekk í sex skólum í Reykjavík. Markmið rannsóknarinnar er að skoða stöðu og langtímabreytingar á heilsufari, hreyfingu, þreki, svefni, námsárangri og lifnaðarháttum þessara ungmenna við 15 ára aldur og síðan aftur að tveim árum liðnum.

Brýnt að breyta mynstri og auka fræðslu

„Fjölmargar heilsufarsmælingar voru framkvæmdar, m.a. var notast við hlutlægar hröðunar- og svefnmælingar til að meta hreyfingu og svefn þátttakenda,“ segir Erlingur Jóhannsson, prófessor við Háskóla Íslands, sem leiðir verkefnið. „Þegar svefnvenjur eru skoðaðar þá sýna niðurstöður að aðeins 8% drengja og 13% stúlkna uppfylltu svefnráðleggingar, þ.e. átta tíma svefn, en sex tíma svefn á virkum dögum var algengastur hjá bæði drengjum og stúlkum. Um helgar sofa bæði drengir og stúlkur rúmlega klukkustund lengur. Þá er áberandi hversu seint ungmennin fara í háttinn en drengir fara að jafnaði fyrr að sofa.“ Erlingur segir að forgangsverkefni til að ná fram betri svefnheilsu meðal ungmenna sé að breyta skólatímamynstri þeirra og auka fræðslu i tengslum við áhrif rafrænna miðla á svefn. Þá bendir hann á að bæta megi svefnvenjur ungmenna í samvinnu við foreldra og samfélagið.

Betur má ef duga skal

Mælingar á þreki og holdarfari voru jafnframt framkvæmdar hjá þessum sömu ungmennum en sambærilegar mælingar voru gerðar fyrir 12 árum í rannsóknarverkefninu „Lífsstíll 9 og 15 ára Íslendinga“. „Þegar niðurstöður frá þessum tveim þversniðsrannsóknum eru bornar saman kemur margt mjög áhugavert í ljós. Á þessum 12 árum hefur líkamsþyngdarstuðull (BMI) hækkað um 6% og þyngd 15 ára ungmenna hefur aukist um 7% eða 4 kg. Þrek 15 ára unglinga í dag er einnig lakara en þrek jafnaldra þeirra var fyrir 12 árum,“ segir Erlingur og bætir við að of feitum einstaklingum hafi líka fjölgað í þessum aldurshópi á tímabilinu. Þrátt fyrir aukna heilsuvakningu í samfélaginu og meiri áherslu á fyrirbyggjandi aðgerðir og forvarnir þá er greinilegt að gera þarf enn betur. 

Um verkefnið

Rannsóknarverkefnið „Heilsuhegðun ungra Íslendinga“ er unnið í samstarfi við Skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar, Námsmatsstofnun, Hjartavernd, sex grunnskóla og fleiri aðila.

Fulltrúar Háskóla Íslands í verkefninu eru: Erlingur Jóhannsson prófessor (verkefnisstjóri), Sigurbjörn Árni Arngrímsson prófessor og Sigríður Lára Guðmundsdóttir dósent, Erla Svansdóttir nýdoktor og sérfræðingarnir Sunna Gestsdóttir doktorsnemi og Margrét Indriðadóttir. Doktorsnemar sem vinna við verkefnið eru Elvar Sævarsson, Vaka Rögnvaldsdóttir og Soffía Hrafnkelsdóttir auk meistaranemanna Bjarka Gíslasonar, Berglindar Valdimarsdóttur, Völu Jóhannsdóttur, Steinars Loga Rúnarssonar og Bjarkar Guðmundsdóttur.  

Börn í Háskóla unga fólksins
Börn í Háskóla unga fólksins