Skip to main content
27. maí 2020

Styrkur til rannsóknar á samskiptaerfiðleikum samfélagshópa

""

Gústav Adolf B Sigurbjörnsson, doktorsnemi í heimspeki við Sagnfræði- og heimspekideild Háskóla Íslands, hefur hlotið viðurkenningu úr Heimspekisjóði Brynjólfs Bjarnasonar. Þetta er í annað skipti sem úthlutað er úr sjóðnum og nemur styrkurinn 200.000 þúsund krónum. 

Doktorsverkefni Gústavs ber heitið „Worlds beyond mine – A phenomenological analysis of the epistemology of empathy and communication“. Í verkefninu beinir hann sjónum sínum að eðli samskiptaerfiðleika, sérstaklega þeim sem eiga sér stað milli ólíkra samfélaghópa og því óréttlæti sem af slíku getur hlotist þegar valdastaða þeirra er ójöfn. Verkefninu er ætlað að tengja saman tvö svið heimspekinnar sem ekki hafa verið í nánu samtali áður, annars vegar fyrirbærafræði og hins vegar félagsþekkingarfræði. Hér metur hann svokallað þekkingarfræðilegt óréttlæti (e. epistemic injustice) í ljósi hugmynda fyrirbærafræðinnar um lífheiminn (þ. Lebenswelt) auk þess að horfa til fyrirbærafræðingsins Maurice Merleau-Ponty og greiningar hans á tengslum tjáningar, tungumáls og samkenndar. Þetta tengir Gústav sérstaklega þeirri umræðu sem spratt upp af #MeToo-baráttunni og annarri baráttu jaðarhópa sem gera þurfa grein fyrir upplifun sem sjálf er jaðarsett.

Gústav er með BA-gráðu í heimspeki frá Háskóla Íslands og MA-gráðu frá Kaupmannahafnarháskóla með sérhæfingu í fyrirbærafræði og heimspeki hugans. Hann hefur stundað doktorsnám í heimspeki við Háskóla Íslands undir leiðsögn Björns Þorsteinssonar prófessors frá haustinu 2016.

Um sjóðinn

Heimspekisjóður Brynjólfs Bjarnasonar var stofnaður árið 1990 við Háskóla Íslands af Elínu Brynjólfsdóttur (1928-2001) og eiginmanni hennar Godtfred Vestergaard (1929-2018). Elín Brynjólfsdóttir var dóttir Brynjólfs Bjarnasonar, fyrrverandi menntamálaráðherra og heimspekings og Godtfred var danskur verkfræðingur af íslenskum ættum og forstjóri fyrirtækisins Vestergaard Company A/S.

Brynjólfur Bjarnason fæddist árið 1898 og stundaði sem ungur maður nám í Kaupmannahöfn og Berlín. Heimspekiiðkun og önnur fræðastörf Brynjólfs véku þó fyrir pólitísku starfi fram á efri ár því hann var í framvarðasveit íslenskra sósíalista, sat á Alþingi og gegndi ráðherraembætti. Framlag hans til íslenskrar heimspeki verður seint ofmetið enda má segja að hann hafi unnið brautryðjendastarf í heimspekiiðkun hér á landi. Þegar Brynjólfur hóf að rita um heimspeki á 6. áratug síðustu aldar, var hann nánast einn á landinu að fást við slíkar skriftir. Eftir að kennsla í heimspeki sem sjálfstæðri grein var tekinn upp við Háskóla Íslands upp úr 1970 komst Brynjólfur í ágæt kynni við marga nemendur og kennara við skólann í gegnum sameiginlegt áhugamál. Var hann meðal annars gerður að fyrsta heiðursfélaga Félags áhugamanna um heimspeki. Rit á borð við Forn og ný vandamál (1954), Á mörkum mannlegrar þekkingar (1965) og Lögmál og frelsi (1970) bera þekkingu Brynjólfs og innsýn í sígild vandamál heimspekinnar vitni. Brynjólfur lést árið 1989. Það var ósk Brynjólfs sjálfs að styrkja íslenskan heimspeking til náms, en það voru dóttir hans Elín Brynjólfsdóttir og Gottfred Vestergaard sem stofnuðu sjóðinn sem hefur þetta að markmiði.
 
Stjórn sjóðsins skipa Björn Þorsteinsson, prófessor og formaður stjórnar, Eyjólfur Kjalar Emilsson heimspekingur og Frida Vestergaard, dóttir stofnenda sjóðsins. Vilhjálmur Árnason prófessor tók sæti Björns í dómnefnd vegna úthlutunar að þessu sinni.

Styrktarsjóðir Háskóla Íslands hafa umsjón með sjóðum og gjöfum sem Háskóla Íslands hafa verið ánafnaðar allt frá stofnun hans. Flestir þeirra starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og er þeim ætlað að styðja ýmis verkefni á ákveðnum fræðasviðum til hagsældar fyrir Háskóla Íslands, stúdenta eða starfsfólk.
 

Gústav Adolf B Sigurbjörnsson, doktorsnemi í heimspeki við Sagnfræði- og heimspekideild Háskóla Íslands,