Skip to main content
1. febrúar 2024

Stuðlað að virkum samskiptum og þátttöku fjarnema

Stuðlað að virkum samskiptum og þátttöku fjarnema - á vefsíðu Háskóla Íslands

Hvaða þættir skipta máli þegar kennsla fer fram á tilteknum stað, eins og kennslustofu, og hvernig er hægt að flytja þá þætti yfir í fjarnám? Hvernig á að koma í veg fyrir einangrun nemenda í fjarnámi og hvetja þá til virkni í náminu? Við þessar og fleiri spurningar hafa Sigurbjörg Jóhannesdóttir, verkefnisstjóri  á kennslusviði, og erlent samstarfsfólk hennar í rannsóknarverkefninu PLACEDU fengist að undanförnu. Afrakstur verkefnisins er m.a. kennsluefni á netinu sem kennarar geta nýtt til að bæta fjarkennslu sína og stafræna kennsluhætti.

„Í framhaldi af því að allt nám í heiminum færðist yfir í fjarnám í COVID-19-faraldrinum jukust rannsóknir á fjarnámi og áhrifum faraldursins á kennsluhætti. Í þessu verkefni vildum við leggja okkar að mörkum til þess að greina hvaða áhrif COVID-19 hafði á kennsluhætti og fjarnám í háskólum,“ segir Sigurbjörg sem vann að verkefninu með samstarfsfólki í Litháen, Slóveníu, Belgíu, Grikklandi og á Kýpur sem ýmist starfar við háskóla eða nýsköpunarmiðstöðvar.

rannsoknarhopur

Mynd tekin við heimspekideild Háskólans í Vilnius í nóvember 2023. Á myndinni eru frá vinstri: Simonas Šabanovas, Háskólanum í Vilnius, Litháen; Foteini Papadopoulou, Center for Social Innovation, Kýpur; Auguste Taruskaite, Out of the box, Brussel Belgíu; Nina Vombergar, Háskólanum í Ljubljana, Slóveníu; Žemartas Budrys og Tautvydas Bokmota UAB Theoria, Litháen (verkefnastjórn PLACEDU); Sigurbjörg Jóhannesdóttir, Háskóla Íslands, og Karolina Levanaitė, Háskólanum í Vilnius, Litháen.

Sigurbjörg ákvað að taka þátt í verkefninu eftir að fyrrverandi samstarfskona hennar í verkefninu Net-University benti á hana. „Eftir að hafa rennt yfir lýsingu og markmið verkefnisins þá sá ég að það gæti nýst Háskóla Íslands þar sem það var í takt við stefnu skólans um eflingu fjarnáms og mögulega gætu niðurstöður úr verkefninu nýst við að skilgreina gæðaviðmið fjarnáms við Háskólann,“ segir hún.

Þá segist Sigurbjörg hafa verið sérstaklega spennt fyrir því að verkefninu var ætlað að greina hvað tapaðist þegar nám færðist úr raunheimum yfir í netheima, sérstaklega það sem snýr að félagslegum samskiptum og aukinni áhættu á vanlíðan vegna einangrunar. „Þá átti að búa til námsvettvang fyrir kennara, þar sem þeir gætu fundið aðferðir og verkfæri, sem gætu hjálpað þeim að gera fjarkennsluna sína betri, sérstaklega með tilliti til þessara þátta sem tapast þegar nám færist alfarið yfir á netið,“ segir Sigurbjörg um verkefnið. 

Fylgst með líðan nemenda og kennara á netfundum í rauntíma

Í verkefninu var m.a. ráðist í rannsóknir í háskólum í þátttökulöndunum sex. „Rannsakað var hvaða áskoranir nemendur og kennarar standa frammi fyrir í fjarkennslu og fjarnámi. Við notuðum farsímaapp til að safna upplýsingum um líðan kennara og nemenda á netfundum í rauntíma og tekin voru rýnihópaviðtöl við kennara í fjarnámi. Áhersla var lögð á að skoða hvað kennarar geta gert til að fjarnemendur upplifi sig sem hluta af námssamfélaginu og eigi í virkum samskiptum við bæði kennara og samnemendur. Jafnframt hvaða kennsluaðferðir ýti undir áhuga og virkni nemenda á náminu, valdefli þá og veiti þeim stuðning við stjórn á eigin námi,“ útskýrir Sigurbjörg.

Hún segir enn fremur að lögð hafi verið áhersla á að greina hvernig kennarar þurfa að laga sig að nýjum kennsluháttum og hvernig þeir geti bætt hæfni sína í kennslu í fjarnámi en rannsóknir hafa leitt í ljós aukið álag og streitu meðal kennara vegna nýrra kennsluaðferða og námsmats í fjarkennslu. 

Sex námskeið fyrir kennara um betra fjarnámsumhverfi

Niðurstöður þessara rannsókna urðu svo grunnur að sjálfsnámsvettvangi fyrir kennara sem tengist fjarkennslu. „Ákveðið var að búa til sex sjálfstæð námskeið sem kennarar geta notað til að skapa betra fjarnámsumhverfi fyrir nemendur. Áhersla var lögð á að efla stafræna færni kennara og því var ákveðið að byggja námsefnið á Evrópska hæfniviðmiðarammanum fyrir stafræna hæfni kennara (DigCompEdu),“ segir Sigurbjörg en gervigreind var m.a. notuð til að þróa námskeiðið „Kennsla og nám“. 

Sex namskeid

Námsvettvangur PLACEDU byggir m.a. á sex námskeiðum sem eru ætluð háskólakennurum til sjálfsnáms. Þau eru byggð á Evrópska hæfniviðmiðarammanum fyrir stafræna hæfni kennara (DigCompEdu).

Sigurbjörg undirstrikar að kennarar geti farið í gegnum námskeiðin á eigin hraða og hægt er að nálgast þau á vefsíðu verkefnisins sem er á sex tungumálum: ensku, frönsku, grísku, litháísku, slóvensku og íslensku en síðastnefndi námsvettvangurinn verður tilbúinn um miðjan febrúar. 

„Kennarar geta auk þess tengt í eða birt eigið efni á námsvettvangnum með því að fylla út formið Submit content ásamt því að ná í efni um bestu venjur (e. best practices) og stafræn verkfæri (e. methods and tools),“ útskýrir Sigurbjörg sem hefur að undanförnu haldið á annan tug viðburða í Háskóla Íslands og Háskólanum á Akureyri til að kynna niðurstöður rannsóknarinnar, hvernig gervigreindin var notuð og nýja vettvanginn fyrir starfsfólki háskóla og framhaldsskóla. 

Aðspurð hvernig verkefnið nýtist í frekari þróun fjarnáms innan HÍ, en skólinn leggur vaxandi áherslu á það, bendir Sigurbjörg á að niðurstöður rannsóknarinnar varpi ljósi á hvaða áskorunum kennarar í Háskóla Íslands standa frammi fyrir í fjarnámi. „Niðurstöðurnar má því nota til að bæta gæði fjarkennslu/fjarnáms við Háskóla Íslands svo að upplifun nemenda af náminu verði enn jákvæðari, brottfall minnki og frammistaða þeirri verði betri,“ segir hún.

Namskeid

 Yfirlit námskeiðsins „Kennsla og nám“.

Á námsvettvanginum megi enn fremur finna mikið af gagnlegu efni sem kennarar skólans geti nýtt sér til að bæta fjarnámskennsluna sína. „Líka hugmyndir að kennsluaðferðum til að hvetja nemendur í náminu, auka virkni og samskipti, námsmat og stafræn verkfæri. Allt þetta efni er opið,“ undirstrikar Sigurbjörg að lokum.

Á myndinni eru frá vinstri: Sigurbjörg Jóhannesdóttir, Háskóla Íslands; Simonas Šabanovas og Karolina Levanaitė, Háskólanum í Vilnius, Litháen; Nina Vombergar, Háskólanum í Ljubljana, Slóvaníu; Tautvydas Bokmota, The Critical, Litháen og Thomas Dezelan, Háskólanum í Ljubljana, Slóveníu. Ljósmyndari: Tryggvi Már Gunnarsson.