Skip to main content
2. maí 2023

Stofnun Sæmundar fróða verður Sjálfbærnistofnun HÍ

Stofnun Sæmundar fróða verður Sjálfbærnistofnun HÍ - á vefsíðu Háskóla Íslands

Nafni Stofnunar Sæmundar fróða um sjálfbæra þróun og þverfræðilegar rannsóknir við Háskóla Íslands hefur verið breytt í Sjálfbærnistofnun Háskóla Íslands. Stofnunin vinnur að því að efla samstarf ólíkra greina innan háskólans í sjálfbærnimálum, með stjórnvöldum, sveitarfélögum, stofnunum og félagasamtökum að stefnumótun, að miðlun og þekkingarsköpun í málaflokknum og tekur þátt í alþjóðlegum verkefnum sem snerta sjálfbærni.

Stofnunin hefur verið starfrækt allt frá árinu 2006 og hefur frá upphafi stýrt og tekið þátt í ýmsum rannsóknum og öðru starfi sem tengist sjálfbærni. Að sögn Hafdísar Hönnu Ægisdóttur, forstöðumanns stofnunarinnar, var ákveðið að breyta nafninu þar sem það þykir meira lýsandi fyrir starf stofnunarinnar og í anda annarra stofnana innan Háskóla Íslands, eins og Alþjóðamálastofnunar, Félagsvísindastofnunar, Raunvísindastofnun og Menntavísindastofnunar, svo nokkur dæmi séu tekin. 

Brúarsmiðir innan HÍ og fyrir íslenskt samfélag

Nafnabreytingin er hluti af ítarlegri stefnumótunarvinnu sem ráðist var í í kjölfar ráðningar Hafdísar Hönnu í ársbyrjun 2021 en í þeirri vinnu var jafnframt skerpt á hlutverki og framtíðarsýn stofnunarinnar. „Hlutverk Sjálfbærnistofnunar HÍ er að vera vettvangur rannsókna og þróunar á sviði sjálfbærni. Sjálfbærni er í eðli sínu þverfræðilegt viðfangsefni og við lítum því á okkur sem brúarsmiði og miðlægan vettvang sem höfum góða yfirsýn, tengsl og sérþekkingu sem styður við þverfaglegar rannsóknir, miðlun og ráðgjöf innan og utan háskólans. Þá á ég bæði við að tengja saman fræðafólk og ólík fagsvið innan HÍ en einnig að tengja háskólann enn betur við samfélagið, þar á meðal við Stjórnaráðið, sveitastjórnir, stofnanir, félagasamtök og fyrirtæki. Einnig tökum við þátt í fjölmörgum erlendum samstarfsverkefnum,“ útskýrir Hafdís Hanna.

Stofnunin kom að vinnslu fyrstu sjálfbærniskýrslu Háskóla Íslands á síðasta ári en slík skýrsla verður áfram unnin í nánu samstarfi við ýmsa aðila innan skólans. Sjálfbærni er enda einn af lykilþáttum í stefnu Háskóla Íslands, HÍ26. „Sjálfbærni hefur nú verið kynnt og rædd á tveim síðustu háskólaþingum í tengslum við HÍ26 og er það afar jákvætt og hvetjandi. Við höfum hvatt til þess að stutt verði dyggilega við innleiðingu sjálfbærnimála innan HÍ. Fyrsta skrefið er þróun mælikvarða fyrir kennslu, rannsóknir og rekstur í samstarfi okkar hjá Sjálfbærnistofnun, framkvæmda- og tæknisviði og Aurora-teymi skólans,“ segir Hafdís Hanna.

Hún nefnir jafnframt að sjálfbærniskýrslan veiti mikilvægt yfirlit yfir það góða starf sem unnið er í tengslum við sjálfbærni innan HÍ, hvort sem er í rannsóknum, kennslu, rekstri, nýsköpun eða að frumkvæði stúdenta. „Það yfirlit sem kemur fram í skýrslunni er hægt að nýta til að auka þekkingu og skilning á mikilvægi sjálfbærni, bæði hjá starfsfólki og stúdentum HÍ, auk þess að vera tækifæri til miðlunar út í samfélagið. Í ár hyggjumst við gera skýrsluna bæði á íslensku og ensku þannig að hún ætti að vera aðgengileg fyrir flest,“ segir Hafdís Hanna.

Unnið fyrir forsætisráðuneytið

Auk þessara verkefna vinnur stofnunin nú að úttekt fyrir forsætisráðuneytið á svokölluðum smitáhrifum heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna (e. spillover effect). „Úttektin er mikilvægt innlegg í landsrýnisskýrslu Íslands sem íslensk stjórnvöld skila til Sameinuðu þjóðanna og er hluti af alþjóðlegri eftirfylgni með því hvernig við sem þjóð framfylgjum heimsmarkmiðum SÞ um sjálfbæra þróun,“ segir Hafdís Hanna. 

Enn fremur kemur Sjálfbærnistofnun HÍ að þremur alþjóðlegum verkefnum á ólíkum sviðum sjálfbærni. Þau snerta félagslegan og vistfræðilegan árangur endurheimtar vistkerfa á Íslandi og í Brasilíu, ráðleggingar um náttúrumiðaðar lausnir fyrir stefnumótendur í stjórnsýslu allra norrænu ríkjanna og námskeiðahald í samstarfi við nokkra háskóla á norðurslóðum sem miðar að því að finna nýstárlegar lausnir við áskorunum norðurslóða á umbrotatímum. 

„Síðast en ekki síst leggjum við áherslu á miðlun þekkingar um málefni sem tengjast sjálfbærni og skipuleggjum og tökum reglulega þátt í viðburðum því tengdu. Í þeim viðburðaröðum sem við höfum skipulagt nýlega, m.a. með Norræna húsinu, höfum við lagt áherslu á að efla þverfræðilegt samstarf og samtal milli aðila innan og utan háskólans. Í því samhengi er gaman að nefna að á viðburðum hjá okkur höfum við tengt saman listir og vísindi auk þess að tengja fólk sem starfar á ólíkum vettvangi sem samt sem áður tengist sjálfbærni, s.s. frá Embætti landlæknis, tryggingarfyrirtæki og sveitarstjórnum og rannsakendur við háskóla. Við trúum því að með því að tala og vinna saman að áskorunum samtímans þvert á fræðigreinar og svið samfélagsins séum við betur í stakk búin til að finna lausnir,“ segir Hafdís Hanna. 

HÍ geti verið leiðandi í sjálfbærni

Aðspurð segir Hafdís Hanna að það felist gríðarleg tækifæri fyrir Háskóla Íslands í að verða leiðandi í sjálfbærni, bæði þegar kemur að kennslu, rannsóknum og rekstri skólans. „Sjálfbærnistofnun HÍ er svo sannarlega reiðubúin að vinna að því áfram með öllum sem vilja koma með okkur á sjálfbærnivagninn. Við teljum lykilinn að árangri vera samstarf og samráð og þar getum við hjá Sjálfbærnistofnun HÍ leikið lykilhlutverk sem þverfaglegur vettvangur á sviði sjálfbærni. Ég er afar þakklát fyrir þann meðbyr sem við finnum, bæði innan og utan HÍ, fyrir það starf sem við innum af hendi í sjálfbærnimálum. Ég vil hvetja okkur öll til dáða því saman getum við lyft grettistaki í að gera góðan háskóla enn betri og það er minn draumur að innan skamms verði rík sjálfbærnimenning innan HÍ með árlegu kröftugu sjálfbærniþingi með öflugum skoðanaskiptum og framkvæmdagleði,“ segir Hafdís Hanna að endingu. 
 

Hafdís Hanna Ægisdóttir