Stjórnvöld tryggi aukið fjármagn svo meðaltali Norðurlanda verði náð | Háskóli Íslands Skip to main content
12. febrúar 2020

Stjórnvöld tryggi aukið fjármagn svo meðaltali Norðurlanda verði náð

Á fundi háskólaráðs Háskóla Íslands 6. febrúar sl. var m.a. rætt um fjármál skólans og almennt um fjárveitingar til íslenskra háskóla. Í lok umræðunnar samþykkti háskólaráð einróma neðangreinda ályktun. 

Að mati háskólaráðs er enn langt í land að fjármögnun Háskóla Íslands og annarra hérlendra háskóla standist samanburð við fjármögnun háskóla á hinum Norðurlöndunum. Í ljósi þessa hvetur háskólaráð ríkisstjórn Íslands og Alþingi að endurskoða fimm ára fjármálaáætlun fyrir 2021-2025 og tryggja aukna fjármögnun þannig að meðaltali Norðurlandanna verði náð árið 2025.

„Á aldarafmæli Háskóla Íslands árið 2011 var stofnaður Aldarafmælissjóður Háskóla Íslands. Markmið sjóðsins er að styðja við stefnu Háskóla Íslands um að komast í röð fremstu háskóla í heiminum og að stuðla þannig að samkeppnishæfni Íslands. Ljóst er að Aldarafmælissjóður hefur skipt gríðarlegu máli enda hefur hann verið nýttur markvisst til að innleiða stefnu Háskólans og stuðla að því að hann nái markmiðum sínum. 

Í tengslum við aldarafmælið og stofnun sjóðsins var farið að ræða af alvöru samanburð á fjármögnun Háskóla Íslands og háskólastigsins á Íslandi við fjármögnun háskóla í OECD-ríkjunum og á hinum Norðurlöndunum. Í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar Íslands hefur markið verið sett á að ná fyrst OECD-meðaltalinu (árið 2020) og síðan meðaltali Norðurlanda (árið 2025). Að fjármögnun Háskóla Íslands sé í takt við það sem gerist hjá nágrannaþjóðum okkar er forsenda þess að skólinn geti verið samkeppnishæfur í því alþjóðlega umhverfi sem hann starfar í. 

Mikilvægum áfanga hefur verið náð á þessari vegferð og má nú telja að fjármögnun háskóla á Íslandi sé sambærileg við það sem gerist að meðaltali hjá háskólum innan OECD í samræmi við markmið ríkisstjórnarinnar. 

Eins og að framan greinir er í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar ekki látið þar við sitja heldur kveðið á um að Ísland skuli ná meðaltali fjármögnunar háskóla á Norðurlöndum árið 2025. Gögn frá Háskóla Íslands og úr ársreikningum rannsóknaháskóla á Norðurlöndum árið 2018 sýna hver staða Háskóla Íslands er í norrænum samanburði. Myndin hér að neðan sýnir heildartekjur á ársnema að meðaltali á hinum Norðurlöndunum og hjá Háskóla Íslands.   

Að mati háskólaráðs er enn langt í land að fjármögnun Háskóla Íslands og annarra hérlendra háskóla standist samanburð við fjármögnun háskóla á hinum Norðurlöndunum. Í ljósi þessa hvetur háskólaráð ríkisstjórn Íslands og Alþingi að endurskoða fimm ára fjármálaáætlun fyrir 2021-2025 og tryggja aukna fjármögnun þannig að meðaltali Norðurlandanna verði náð árið 2025.

Ljóst er að fjármögnun Háskóla Íslands stendur enn langt að baki fjármögnun sambærilegra háskóla á hinum Norðurlöndunum. Eigi stefnumarkmið ríkisstjórnarinnar um sambærilega fjármögnun háskóla á Íslandi og á Norðurlöndum að nást árið 2025 er afar brýnt að stíga nú þegar áþreifanleg skref í þá átt og að það komi fram í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar. 

Í ljósi þessa hvetur Háskólaráð Háskóla Íslands ríkisstjórn Íslands og Alþingi að endurskoða fimm ára fjármálaáætlun fyrir 2021-2025 og tryggja aukna fjármögnun þannig að meðaltali Norðurlandanna verði náð árið 2025.“ 

Frá Aðalbyggingu