Skip to main content
20. mars 2020

Stefán ráðinn forseti Félagsvísindasviðs Háskóla Íslands 

Stefán Hrafn Jónsson, prófessor við Félagsfræði-, mannfræði- og þjóðfræðideild, hefur verið ráðinn forseti Félagsvísindasviðs skólans. Hann var annar tveggja umsækjenda um starfið.  

Stefán Hrafn lauk BA-prófi í sálfræði frá Háskóla Íslands árið 1994, meistaraprófi í félagsfræði og lýðfræði árið 1999 frá Pennsylvania State University og doktorsprófi í sömu greinum frá sama skóla árið 2009. Rannsóknir Stefáns hafa einkum beinst að unglingum, lýðfræði, lýðheilsu og félagslegum áhrifaþáttum heilsu.  

Stefán Hrafn hefur fjölbreytta reynslu af rannsóknarstarfi innan og utan háskólasamfélagsins. Hann starfaði á Rannsóknastofnun uppeldis- og menntamála frá 1994 til 1997. Hann vann enn fremur sem aðstoðarmaður prófessora og síðar verkefnisstjóri við Population Research Institute í Bandaríkjunum frá 1997-2002 og var sviðsstjóri rannsókna og staðgengill forstjóra á Lýðheilsustöð frá 2005 til 2011. Stefán var ráðinn lektor við Félagsvísindasvið Háskóla Íslands árið 2011, fékk framgang í starf dósents árið 2013 og í starf prófessors árið 2015. Hann var formaður námsbrautar í félagsfræði 2012-2016 og hefur verið deildarforseti Félagsfræði-, mannfræði- og þjóðfræðideildar frá 2018 ásamt því að vera formaður sjálfsmatshóps deildarinnar 2018-2019. Stefán sat í háskólaráði 2014-2018 og var formaður nefndar mennta- og menningarmálaráðuneytis um æskulýðsrannsóknir 2010-2013. Samhliða störfum sínum hjá Háskóla Íslands var hann sérfræðingur hjá Embætti landlæknis 2011-2018.

„Ég hlakka til að takast á við spennandi og krefjandi verkefni í starfi forseta Félagsvísindasviðs. Á sviðinu starfar afar öflugur hópur sem sinnir kennslu, rannsóknum og stjórnsýslu af alúð og faglegum metnaði. Sviðið menntar í senn vísindafólk framtíðarinnar og fjölbreyttan hóp sem lætur að sér kveða á öllum sviðum atvinnu- og þjóðlífs,“ segir Stefán og bætir við: „Í starfinu felast margar áskoranir. Þar ber fyrst að nefna að halda áfram að efla gæði kennslu og rannsókna en ekki síður að hlúa að Háskóla Íslands sem góðum vinnustað fyrir það öfluga starfsfólk sem þar sinnir fjölbreyttum hlutverkum. Ég tel afar mikilvægt er að auka samvinnu bæði innan sviðsins og ekki síður á milli fræðasviða Háskóla Íslands þannig að starf Félagsvísindasviðs hafi enn frekari áhrif til góðs í íslensku samfélagi. Það gerum við með ýmsum hætti, svo sem með sköpun og miðlun þekkingar, góðri menntun og virku samtali við samfélagið. Framlag háskólasamfélagsins til betra samfélags felur í sér þætti eins og betri rökræður í opinberri umræðu, markvissari ákvarðanatöku stjórnvalda, að halda betur utan um þá sem minna mega sín, betri lagasetningu, betri rekstur fyrirtækja og hagstjórn, ríkara menningarlíf, bætta heilsu, hamingju og velferð landsmanna svo eitthvað sé nefnt.“  

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, segir að starf forseta Félagsvísindasviðs, stærsta fræðasviðs Háskóla Íslands sem hefur mjög fjölþætta starfsemi, sé afar mikilvægt. Forseti sviðsins starfar sem yfirmaður þess í umboði rektors, stýrir daglegri starfsemi sviðsins og er jafnframt akademískur leiðtogi þess. Meginhlutverk forseta er að tryggja eftir því sem kostur er að á fræðasviðinu sé stundað öflugt rannsóknastarf og að nemendum sé veitt eins góð kennsla og framast er unnt. „Stefán Hrafn er afar vel til þess fallinn að stýra Félagsvísindasviði. Hann hefur víðtæka reynslu úr háskóla- og vísindastarfi og hefur sinnt víðtækri stjórnun innan Háskóla Íslands, m.a. sem deildarforseti og fulltrúi í háskólaráði um fjögurra ára skeið. Ég er þess fullviss að hann eigi eftir að leiða samheldinn hóp kennara og nemenda á fræðasviðinu og hlakka til að fá hann í hóp öflugra stjórnenda við Háskóla Íslands.“ 

Stefán Hrafn tekur við starfi forseta Félagsvísindasviðs 1. júlí nk. af Daða Má Kristóferssyni.
 

Stefán Hrafn Jónss