Skip to main content
25. ágúst 2021

Stafrænt samfélag og alþjóðleg borgaravitund á ráðstefnu Aurora

Stafrænt samfélag og alþjóðleg borgaravitund á ráðstefnu Aurora  - á vefsíðu Háskóla Íslands

Þann 26.-27. ágúst býður Aurora nemendum og starfsfólki HÍ á rafræna ráðstefnu þar sem kynntar verða áhugaverðar rannsóknir á sviði stafræns samfélags og alþjóðlegrar borgaravitundar. Gríðarlegar tækniframfarir síðastliðinna ára og aukin hnattræn tengsl hafa víðtæk og djúpstæð áhrif á flest svið samfélagsins og á daglegt líf okkar allra.

Vísindalegar rannsóknir og þverfagleg menntun á þessu sviði eru undirstaða upplýstrar umræðu og stefnumótunar til að bregðast við þeim miklu og öru samfélagslegum breytingum sem við stöndum frammi fyrir í kjölfar aukinnar stafvæðingar og alþjóðavæðingar samfélagsins.

Á ráðstefnunni munu 24 rannsakendur frá aðildaháskólum Aurora veita innsýn í þær fjölbreyttu rannsóknir sem skapa nýja þekkingu á þessu mikilvæga áherslusviði Aurora. Þeirra á meðal er Tryggvi Thayer, kennsluþróunarstjóri Menntavísindasviðs, sem mun fjalla um framtíð menntunar og áhrif tækni á nám og kennslu. Erindið fer fram 26. ágúst klukkan 13:35.

Áhugasamir geta fundir nánari upplýsingar og hlekk til að tengjast á netinu í dagskrá ráðstefnunnar

Aurora leggur áherslu á fjögur meginsvið í samstarfi sínu um kennsluþróun og hagnýtingu rannsókna: Sjálfbærni og loftslagsbreytingar, Stafrænt samfélag og alþjóðleg borgaravitund , Heilsa og vellíðan og Menning: Margbreytileiki og sjálfsmyndir