Skip to main content
3. júní 2022

Stærstu menntaráðstefnu á Norðurlöndum NERA 2022 lokið

Stærstu menntaráðstefnu á Norðurlöndum NERA 2022 lokið - á vefsíðu Háskóla Íslands

Stærstu menntaráðstefnu á Norðurlöndum NERA 2022 lokið
 
Vel heppnaðri þriggja daga langri NERA2022 ráðstefnunni lauk í dag. Tæplega 900 manns sóttu þessa stærstu menntaráðstefnu Norðurlanda en um 700 erindi voru flutt á ráðstefnunni. 
Menntavísindasvið Háskóla Íslands hélt ráðstefnuna í ár í samstarfi við samtökin Nordic Educational Research Association en yfirskrift ráðstefnunnar í ár var Menntun og þátttaka á óvissutímum. 

Þrír aðalfyrirlesarar ráðstefnunnar fluttu fjölbreytt erindi. Þau eru Unn-Doris K. Bæck, prófessor við Arctic University í Tromsø í Noregi flutti erindið Education, togetherness and robust community in precarious times. Dennis Francis, prófessor við University of  Stellenbosch í Suður-Afríku flutti erindið Precarious bodies, space & education. Guy Standing, prófessor við University of London flutti erindið Recovering the Soul of Education.

Líkt og fram kom í opnunarávarpi forseta Menntavísindasviðs, Kolbrúnar Þ. Pálsdóttur er markmið ráðstefnunnar að varpa ljósi hvað hafi breyst og hvar við erum stödd eftir um það bil tvö ár af COVID-faraldri. Hún sagði jafnframt faraldurinn hafa leitt í ljós hversu brothætt við erum, en einnig sýnt að við erum sterk. Skólatakmarkanir og takmarkaður aðgangur að opinberri þjónustu bitnaði vissulega harðast á þeim sem þegar eru jaðarsettir, og því miður væru þau of mörg í okkar annars farsælu norrænum samfélögum. Jafnframt hvatti Kolbrún ráðstefnugesti til að hugsa um mikilvægt hlutverk menntarannsókna í ljósi þeirra miklu alþjóðlegu og staðbundnu áskorana sem samfélög um allan heim standa frammi fyrir. Hún hvatti gesti til að velta fyrir sér skyldum þess fræðafólks og fagfólks sem hafa ákveðið að helga starfsferil sinn menntun og menntarannsóknum, að kanna og varpa ljósi á hvernig samfélög okkar, ef til vill markvisst eða kannski fyrir tilviljun, skipuleggja formlega og óformlega menntun. Við hvern menntarannsakendur eigi að tala við, hlusta á, eiga samstarf við og bindast böndum. 

Opnunar- og lokaviðburður ráðstefnunnar fór fram á Hilton Reykjavík Nordica en málstofur og smærri viðburðir fóru fram í Stakkahlíð og Tækniskólanum. Þess má geta að ráðstefnugestir mættu til kvöldverðar í Silfurbergi í Hörpu þann 2. Júní þar sem óformleg dagskrá fór fram og hljómsveit Unu Stef hélt uppi fjörinu.

Opnunarávarp Kolbrúnar Þ. Pálsdóttur, forseta Menntavísindasviðs.