Skip to main content
25. október 2022

Stærðfræðinemar úr HÍ hlutskarpastir í forritunarkeppni háskólanna

Stærðfræðinemar úr HÍ hlutskarpastir í forritunarkeppni háskólanna - á vefsíðu Háskóla Íslands

Þrír stærðfræðinemar úr Háskóla Íslands urðu hlutskarpastir í íslenska hluta forritunarkeppninnar Nordic Collegiate Programming Contest (NCPC) sem fram fór í Háskólanum í Reykjavík á dögunum. Þeir stefna á þátttöku í evrópskri forritunarkeppni síðar í haust.

Liðið er skipað þeim Arnari Ágústi Kristjánssyni, Kára Rögnvaldssyni og Bjarka Baldurssyni Harksen en þeir sigruðu jafnframt í forritunarkeppni Háskóla Íslands nýverið. Þeir félagar kepptu undir nafninu „f slanga strik“ í NCPC sem lýsa má sem nokkurs konar Norðurlandamóti háskóla í forritun. Þátttakendur í mótinu komu frá háskólum í öllum norrænu ríkjunum fimm auk Eistlands og Litháen og fór keppnin fram á sama tíma í löndunum sjö.

Í keppninni hafði hvert lið yfir einni tölvu að ráða og átti að leysa ellefu stærðfræðilegar og tölvunarfræðilegar þrautir eða dæmi á fimm klukkustundum. Alls tóku yfir 200 lið þátt í keppninni að þessu sinni en hluti þeirra taldist ekki til löglegra þátttakenda þar sem liðsmenn voru of gamlir eða of langt komnir í námi. Árangur liðanna var metinn út frá þeim fjölda þrauta sem þau leystu og þeim tíma sem fór í hverja lausn. 

Þeim Arnari, Kára og Bjarka tókst að leysa sex þrautanna og það skilaði þeim í 16. sæti í keppni löglegra liða og reyndist það langefst íslenskra liða. Liðið Balloon Animals frá Kaupmannahafnarháskóla varð hins vegar hlutskarpast í keppninni en það lauk öllum ellefu þrautunum. Það telst því Norðurlandameistari háskólaliða í forritun. 

Sigurvegurum í hverju landi gefst kostur á að taka þátt í forritunarkeppni háskóla í Norðvestur-Evrópu (North Western European Programming Contest). Sú keppni fer að þessu sinni fram í Delft Hollandi í lok nóvember. Þangað stefna þeir Arnar, Kári og Bjarki ótrauðir en mótið er forkeppni fyrir sjálft heimsmeistaramót háskólanna í forritun.

Háskóli Íslands óskar þeim Arnari, Kára og Bjarka innilega til hamingju með glæsilegan árangur.

Bjarki Baldursson Harksen, Kári Rögnvaldsson og Arnar Ágúst Kristjánsson

Bjarki Baldursson Harksen, Kári Rögnvaldsson og Arnar Ágúst Kristjánsson sigruðu í íslenska hluta forritunarkeppninnar Nordic Collegiate Programming Contest (NCPC) sem fram fór í Háskólanum í Reykjavík á dögunum. MYND/Kristinn Ingvarsson