Skráning hafin í Háskólahlaupið 2019 | Háskóli Íslands Skip to main content
29. ágúst 2019

Skráning hafin í Háskólahlaupið 2019

""

Háskólahlaupið 2019 fer fram fimmtudaginn 12. september kl. 15 í nágrenni háskólasvæðisins. Hlaupið er opið bæði starfsmönnum og stúdentum og hægt er að velja á milli tveggja vegalengda, 3 km og 7 km. 

Þriggja kílómetra hlaupaleiðin liggur m.a. með fram Suðurgötu, út að Reykjavíkurflugvelli og með fram friðlandinu í Vatnsmýri en sjö kílómetra leiðin í kringum Reykjavíkurflugvöll. Á lengri leiðinni verður boðið upp á tímatöku.

3 km hlaupaleið

7 km hlaupaleið

Skráning í Háskólahlaupið fer fram á netskraning.is og er þátttökugjald 2.500 kr. Innifalið í þátttökugjaldi er íþróttabolur merktur Háskólahlaupinu 2019.

Skráningarfrestur er til kl. 10 á hlaupadaginn sjálfan, 12. september.

Skrá mig í hlaupið

Afhending keppnisgagna

Afhending keppnigsgagna (bolur fyrir báðar vegalengdir og númer og tímaflaga fyrir 7 km hlaup),  fer fram í anddyri Aðalbyggingar milli kl. 12 og 14 á hlaupadaginn sjálfan, 12. september.

Aðstaða á hlaupadegi og dagskrá

Þátttakendur geta haft fataskipti í Íþróttahúsi Háskólans við hliðina á Háskólatorgi en athugið að koma þarf með lás fyrir fataskápa ef geyma á föt á staðnum.

Upphitun hefst kl. 14.45 í Skeifunni fyrir framan Aðalbyggingu og verður í höndum nemenda í íþrótta- og heilsufræði við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Hlaupið verður svo ræst stundvíslega kl. 15.

Um Háskólahlaupið

Háskólahlaupið fer nú fram í tólfta sinn með núverandi fyrirkomulagi en þetta er í annað sinn sem efnt er til hlaupsins að hausti.

Vakin er athygli á því að hlaupahópur háskólans hittist tvisvar í viku við íþróttahús skólans á Melunum. Hópurinn leggur af stað kl. 12.10 frá íþróttahúsinu á þriðjudögum og fimmtudögum. Það er tilvalið að slást í þann öfluga hóp en hann er opinn bæði starfsmönnum og stúdentum.

Frá Háskólahlaupinu 2019