Skip to main content
2. september 2019

Skortur á upplýsingum um fosfórbirgðir heimsins ógnar matvælaöryggi

""

Skortur á fullnægjandi upplýsingum um birgðir fosfórs, sem er grundvallarnæringarefni fyrir jurtir, í heiminum og ferðalag efnisins frá vinnslu í gegnum lífríkið ógnar matvælaöryggi. Þetta er niðurstaða nýrrar rannsóknar íslenskra og erlendra vísindamanna sem greint er frá í vísindatímaritinu Ambio: A Journal of the Human Environment. Niðurstöðurnar voru kynntar á ráðstefnunni „Aðlögun að nýjum efnahagsveruleika – hagsæld fyrir 21. öldina“ sem fram fór í Háskóla Íslands 27. ágúst.

Fyrsti höfundur greinarinnar er Eduard Nedelciu, doktorsnemi við Háskóla Íslands og Stokkhólmsháskóla, en auk hans koma Kristín Vala Ragnarsdóttir, prófessor við Jarðvísindadeild Háskóla Íslands, og Ingdrid Sternquist, prófessor emeritus, og Marie Schellens doktorsnemi, báðar við Stokkhólmsháskóla, að greininni.

Forsfór er eitt af helstu næringarefnum jurta og er m.a. nýtt í fosfatáburð við matvælaframleiðslu. Efnið er unninn úr bergi á örfáum stöðum í heiminum, einkum í Marokkó og löndum í kringum Sahara-eyðimörkina. Áætlað er árlega séu um 53 milljónir tonna af fosfatáburði nýtt í matvælaframleiðslu en til þess þarf um 270 milljónir tonna af forsfórbergi.

Miklar áskoranir fram undan í matvælaframleiðslu

Höfundar rannsóknarinnar benda á að samkvæmt áætlunum Sameinuðu þjóðanna muni íbúum jarðar fjölga í níu milljarða fram til 2050 og að eftirspurn eftir fæðu aukist um 60% á næstu 30 árum samkvæmt áætlunum Matvælastofnunar Sameinuðu þjóðanna. Nú þegar sé hátt í milljarður manna vannærður og matarsóun sé vandamál í heiminum og því feli fjölgun mannkyns í sér verulegar áskoranir í matvælaframleiðslu í heiminum. Það kalli á enn meiri fosfórvinnslu og framleiðslu fosfatáburðar. 

Rannsókn vísindamannanna snerist um að kanna hvort og þá hvaða upplýsinga væri hægt að afla um stöðu fosfórbirgða í heiminum. „Með því að varpa ljósi á alla birgðakeðju fosfórs getum við um leið komist að því hvaða umhverfislegi, félagslegi, siðferðilegi og efnahagslegi kostnaður fylgir framleiðslu þess matar sem sækjum í hillur verslana. Þetta getur einnig hjálpað þjóðum heims, sem flestar eru háðar innflutningi á fosfór og áburði, að draga úr óvissu í landbúnaði,“ segir Eduard Nedelciu, doktorsnemi og aðalhöfundur rannsóknarinnar. 

Eduard Nedelciu, doktorsnemi við Háskóla Íslands og Stokkhólmsháskóla, er fyrsti höfundur rannsóknarinnar en auk hans koma Kristín Vala Ragnarsdóttir, prófessor við Jarðvísindadeild Háskóla Íslands, og Ingdrid Sternquist, prófessor emeritus, og Marie Schellens doktorsnemi, báðar við Stokkhólmsháskóla, að greininni.

Allt að 90% fosfórs tapast í birgðakeðju

Rannsóknin leiddi í ljós að að ósamræmi og ógagnsæi í aðferðafræði og hugtakanotkun stendur í vegi fyrir nákvæmu mati á fosfórbirgðum heimsins. Þá benda rannsakendur á að allt að 90% af fosfóri tapist í gegnum birgðakeðju frumefnisins í matvælaframleiðslu en skýra mynd skorti af því hvar tapið eigi sér nákvæmlega stað. Með betri eftirfylgni og rannsóknum megi draga úr þessu tapi í keðjunni. Rannsakendur vekja enn fremur athygli á þeim umhverfislegu og félagslegu hættum sem fylgi fosfórvinnslu, en hún mengi bæði vatnsból og sé hættuleg heilsu manna. Einnig geti útstreymi of mikils fosfórs frá bæði skólpræsum og ræktunarsvæðum í landbúnaði stuðlað að ofauðgun næringarefna í vatni og myndun svokallaðra dauðra svæða í heimshöfunum en þar geti líf ekki þrifist. Þá fari fosfórvinnsla fram í auknum mæli á umdeildum svæðum, eins og vesturhluta Sahara.

Höfundar rannsóknarinnar undirstrika að aðgang að gögnum um birgðakeðju fosfórs skorti og slíkt geti leitt til fosfórskorts í heiminum. Nauðsynlegt sé að almenningur átti sig á stöðunni vegna þess hve miklu máli vinnsla efnisins skipti fyrir matvælaframleiðslu. Með því að öðlast betri yfirsýn yfir fosfórbirgðir heimsins megi jafnframt stuðla að framgangi margra af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. 

Rannsóknin, sem greint er frá í vísindatímaritinu Ambio: A Journal of the Human Environment, er hluti stóru alþjóðlegu rannsóknarverkefni sem nefnist Aðlögun að nýjum efnahagsveruleika (Adaptation to a new Economic Reality - AdaptEcon). Verkefnið miðar að því að að þróa nýtt hagfræðilíkan fyrir heiminn og þjálfa nýja kynslóð vísindamanna í sjálfbærnirannsóknum. Það hlaut 500 milljóna króna styrk frá Marie Curie áætlun Evrópusambandsins og lýtur forystu Kristínar Völu Ragnarsdóttur, prófessors við Háskóla Íslands. Að því koma 12 doktorsnemar auk fjölda vísindamanna. Hópurinn hittist á ráðstefnu í Öskju, náttúrufræðahúsi Háskóla Íslands, þann 27. ágúst sl. þar sem farið var yfir þær niðurstöður sem rannsóknarverkefnið hefur þegar skilað.

Fosfórvinnsla
Aðstandendur rannsóknarverkefnisins AdaptEcon