Skip to main content
25. júní 2020

Skoðar nýjar og skapandi leiðir til íslenskukennslu tvítyngdra barna

Félagið Tungumálatöfrar á Ísafirði heldur úti íslenskunámskeiðum fyrir tvítyngd börn. Á námskeiðunum efla börnin íslenskukunnáttu sína með listsköpun og leik og er námsefnið annars vegar sniðið að börnum af erlendum uppruna og hins vegar að íslenskum börnum búsettum erlendis.

Alexandra Ýr van Erven er nemandi í stjórnmálafræði og ensku við Háskóla Íslands og í sumar stefnir hún á að rannsaka Tungumálatöfra, móta stefnu þess og þróa framtíðarsýn félagsins. „Ég hef mjög mikinn áhuga á menntamálum og finnst öll nýsköpun í menntakerfinu ótrúlega spennandi. Ég heillaðist af Tungumálatöfrum fljótlega eftir að ég kynntist starfseminni enda er þetta mjög fallegt samfélagsverkefni og mig langaði til að leggja mitt af mörkum. Ég hef sterka sýn á menntakerfið okkar og finnst dýrmætt að stuðla að framþróun í þessum geira,“ segir hún.

Aðspurð um markmið rannsóknarinnar segir Alexandra það vera að skapa umhverfi fyrir börn sem tali íslensku á annan máta en við erum almennt vön og veita þeim rými til þess að þroska málvitund sína. Þannig öðlist þau sjálfsöryggi til að nota málið í daglegu lífi.

„Ég hef verið að funda með ýmsum fyrirtækjum og stofnunum sem hafa sýnt verkefninu áhuga til að kanna mögulegt samstarf. Svo nýti ég þessi samtöl til að fá innsýn í hvert framlag Tungumálatöfra er í raun og veru til samfélagsins. Með þessu safna ég mjög dýrmætri þekkingu um hverjir styrkir félagsins eru og næ þannig að móta skýrari sýn um tilveru þess og í hvaða átt við viljum fara,“ segir Alexandra.

Þessa dagana er hún að skipuleggja málþing, sem haldið verður á Ísafirði í haust, í samstarfi við öfluga einstaklinga sem koma að Tungumálatöfrum. Á málþinginu verða flutt erindi, bæði úr fræðasamfélaginu og öðrum geirum. Alexandra reiknar með að nýta sér umræður og niðurstöður málþingsins sem enn frekari grundvöll til stefnumótunar og niðurstaðna í rannsóknarverkefninu.

„Mér finnst þetta spennandi tækfæri til þess að móta námsframboð þar sem megináherslan er ekki á ákveðna útkomu um hæfni heldur ferlið sjálft. Í þessu verkefni er listsköpun nýtt á frumlegan hátt sem meginkennsluaðferð og því tækifæri til að nýta skapandi hugmyndir um það hvert markmið kennslunnar eigi að vera. Í námskeiði sem þessu er markmiðið ekki að börnin öðlist einhverja ákveðna hæfni í málinu heldur um ferli hvers og eins og þá er spurningin hvernig við ætlum að móta kennsluna og námsframboðið til þess að ná því fram. Ég er fullviss um að það sé meira rými fyrir slíkt námsframboð í íslenska skólakerfinu.“

Alexandra Ýr van Erven er nemandi í stjórnmálafræði og ensku við Háskóla Íslands og í sumar stefnir hún á að rannsaka Tungumálatöfra, móta stefnu þess og þróa framtíðarsýn félagsins.