Skoða sjálfbærni-, borgara- og mennskumenntun í nýrri rannsókn | Háskóli Íslands Skip to main content
10. október 2019

Skoða sjálfbærni-, borgara- og mennskumenntun í nýrri rannsókn

Ný rannsókn sem lýtur að sjálfbærni-, borgara- og mennskumenntun hlaut nýverið veglegan styrk frá Oklahomaháskóla. Verkefnið ber heitið Sustainability-, Civic- and Character Education in a Pluralistic Democracy: Examining Existing Tensions and Opportunities for Integration og er það eitt af ellefu undirverkefnum alþjóðlegs rannsóknaverkefnis. Meginmarkmið þess er að styðja við menntarannsóknir sem snúa að sjálfinu, gildum og því að vera borgari í samfélagi.

„Í íslenska hluta verkefnisins verður sjónum beint að sjálfbærni-, borgara- og mennskumenntun í grunn- og framhaldsskólum. Við munum fyrst og fremst kanna viðhorf nemenda á aldrinum 12-18 ára hvað þessa þætti varðar og hvernig vinnunni er háttað innan veggja skólanna. Sviðin þrjú sem um ræðir eru gjarnan stunduð sem aðgreind fræða- og kennslusvið en í verkefninu verður sérstaklega hugað að því hvað þau eigi sameiginlegt og hvernig megi tengja þau betur saman og um leið efla hvert þeirra fyrir sig,“ segja Ólafur Páll Jónsson prófessor og Ragný Þóra Guðjohnsen lektor en þau stýra rannsókninni fyrir hönd Háskóla Íslands.

Auk Ólafs Páls og Ragnýjar koma Karen Jordan doktorsnemi og Sigrún Aðalbjarnardóttir, prófessor emerita, öll við Menntavísindasvið, að rannsókninni. 

Verkefninu er stýrt af Nancy Snow, prófessor við Oklahomaháskóla, og Darcia Narvaez, prófessor við Notre Dame háskóla. Þátttökulönd auk Íslands eru Bandaríkin, Bretland og Ástralía. Um er að ræða þriggja ára verkefni og af heildarstyrk verkefnisins koma nærri 24 milljónir króna í hlut Háskóla Íslands.

Sjá nánar um rannsóknina hér.
 

Rannsóknahópur við Háskóla Íslands skoðar nú sjálfbærni-, borgara- og mennskumenntun hér á landi.  Á myndinni eru frá vinstri talið: Karen Jordan, Ólafur Páll Jónsson, Ragný Þóra Guðjohnsen og Sigrún Aðalbjarnardóttir. MYND/ Kristinn Ingvarsson