Skip to main content
15. febrúar 2018

Skipulagsnefnd háskólaráðs tekur til starfa

Háskólaráð hefur sett á laggirnar skipulagsnefnd sem ætlað er að undirbúa áætlun um heildarskipulag háskólasvæðisins með framtíðaruppbyggingu í huga. Nefndin kom saman til síns fyrsta fundar ásamt rektor Háskóla Íslands í vikunni.

Nefndina skipa þau Hrund Ólöf Andradóttir, prófessor við Umhverfis- og byggingarverkfræðideild sem er  formaður, Steinunn J. Kristjánsdóttir, prófessor við Sagnfræði- og heimspekideild, Stefán Thors, arkitekt og fyrrverandi forstjóri Skipulagsstofnunar og ráðuneytisstjóri, og Ari Guðni Hauksson sagnfræðinemi. Sigríður Sigurðardóttir, sviðsstjóri framkvæmda- og tæknisviðs, starfar með nefndinni ásamt Sigurlaugu I. Lövdahl, skrifstofustjóra framkvæmda- og tæknisviðs, sem er ritari nefndarinnar. Eiríkur Hilmarsson, framkvæmdastjóri Vísindagarða Háskóla Íslands, situr jafnframt fundi nefndarinnar ásamt Magnúsi Diðrik Baldurssyni, skrifstofustjóra rektorsskrifstofu, sem er áheyrnarfulltrúi rektors. Nefndin er skipuð til 30. júní 2020.

Mikil uppbygging hefur verið á háskólasvæðinu síðasta áratug þar sem byggingar undir háskólastarfsemi, stúdentaíbúðir og fyrirtæki hafa verið reistar víða á svæðinu, nú síðast Veröld – hús Vigdísar. Áframhald er á uppbyggingunni næstu misseri því stærstu stúdentagarðar landsins rísa nú á lóð Vísindagarða Háskóla Íslands ásamt Grósku, nýju hugmyndahúsi sem ætlað er að verða suðupottur nýsköpunar og samstarfs háskóla og atvinnulífs. Auk þess hillir undir það að framkvæmdir við Hús íslenskunnar við Suðurgötu hefjist á ný. Þá er unnið að skipulagi framtíðarhúsnæðis fyrir heilbrigðisvísindi í tengslum við byggingu Landspítala og drög lögð að flutningi Menntavísindasviðs úr Stakkahlíð í nýbyggingu á horni Suðurgötu og Hjarðarhaga.  

Skipulagsnefnd háskólaráðs mun starfa á grundvelli samnings sem Háskólinn hefur gert við Reykjavíkurborg og ríkissjóð frá 2014 þar sem m.a. er kveðið á um afmörkun og nýtingu lóða á háskólasvæðinu í samráði borgarinnar og Háskólans. Bent er á í skipunarbréfi nefndarinnar að háskólasvæðið í heild, ásýnd þess og umgjörð, sé viðkvæmt svæði í hjarta borgarinnar sem stjórnendum háskólans og Reykjavíkurborgar sé trúað fyrir á hverjum tíma. „Brýnt er að viðvarandi og fagleg yfirsýn sé um svæðið á vegum rektors og háskólaráðs, skipulag þess, ásýnd, uppbyggingu, nýtingu og viðhald.“ 

Skipulagsnefndinni er ætlað að fara yfir og fjalla um tillögur og hugmyndir sem fram kunna að koma og varða háskólasvæðið, heildarskipulag þess, deiliskipulag, nýbyggingar og viðhald, bílastæði, samgöngur og annað er tengst getur svæðinu. Þá setur hún eftir atvikum fram sínar eigin tillögur til umfjöllunar í háskólaráði. „Nefndin fjallar jafnframt um áætlanir um fjárframlög til einstakra framkvæmda ár hvert og til lengri tíma og um önnur tengd verkefni sem rektor eða háskólaráð kunna að fela henni og undirbýr eftir atvikum tillögur þar um til umfjöllunar og ákvörðunar í háskólaráði,“ segir einnig í skipunarbréfinu. 

Skipun nefndarinnar í takt við stefnu Háskóla Íslands til næstu ára, sem nefnist HÍ21, en þar er m.a. kveðið á um að uppbygging háskólasvæðisins stuðli að samheldnu háskólasvæði og að öll meginstarfsemi Háskólans verði byggð upp á háskólasvæðinu.

 

Skipulagsnefnd ásamt rektor og starfsmönnum nefndarinnar: Frá vinstri: Magnús Diðrik Baldursson, Eiríkur Hilmarsson, Steinunn J. Kristjánsdóttir, Ari Guðni Hauksson, Hrund Ólöf Andradóttir, Stefán Thors, Sigríður Sigurðardóttir og Jón Atli Benediktsson. Á myndina vantar Sigurlaugu I Lövdahl.