Skip to main content
24. ágúst 2020

Skilaboð rektors til starfsfólks og stúdenta í upphafi skólaárs

Skilaboð rektors til starfsfólks og stúdenta í upphafi skólaárs - á vefsíðu Háskóla Íslands

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, sendi meðfylgjandi skilaboð til starfsfólks og stúdenta í dag (24. ágúst 2020):

Til starfsfólks:

„Kæra samstarfsfólk.

Við komum aftur til starfa eftir sumarfrí við óvenjulegar aðstæður. Verum samt minnug þess að þetta er einungis tímabundið og með samstilltu átaki náum við að skapa þann einstaka anda sem einkennir allt starf í Háskóla Íslands. 

Þær takmakanir sem settar hafa verið á starf háskólanna í haust urðu ljósar í síðustu viku og þá lá fyrst fyrir með hvaða hætti skólastarfið yrði. Ég þakka ykkur öllum innilega fyrir að vinna svo hörðum höndum að því að starfið gæti hafist af krafti innan þess ramma sem okkur er settur. 

Háskóli Íslands setur velferð samfélagins okkar, innan og utan veggja skólans, í algjöran forgang. Vegna tíðra breytinga á tilmælum stjórnvalda um sóttvarnir hvet ég ykkur til að skoða reglulega COVID-19 síðu skólans, en þar kemur m.a. fram að eins metra nándarregla gildir núna innan hans og sett hafa verið upp sérstök sóttvarnarhólf þar sem fleiri en 100 einstaklingar eru í sömu byggingunni. Þar kemur líka fram að ef ekki er hægt að framfylgja nándarreglunni skuli nota andlitsgrímu sem hylur munn og nef. Starfsfólk með undirliggjandi sjúkdóma eða í sérstökum áhættuhópum er hvatt til að ráðfæra sig við næstu stjórnendur varðandi vinnufyrirkomulag og mögulega heimavinnu. Ég hvet ykkur öll til að fylgja vel auglýstum reglum sóttvarnaryfirvalda og muna að handþvottur er áhrifarík sóttvörn. 

Vegna COVID-19 verður höfuðþunginn á rafræna kennslu þetta haust en við leggjum líka kapp á að nýta möguleika til staðkennslu. Til að undirbúa okkur fyrir haustið hafa margvísleg skref verið tekin til að styðja enn betur við nemendur og starfsfólk. Fræðasvið hafa tekið á móti nemendum í minni hópum, margs konar kynningarefni hefur verið unnið, m.a. í formi myndbanda til að létta nemendum fyrstu sporin, tækjabúnaður í öllum kennslustofum skólans hefur verið yfirfarinn og uppfærður eins og unnt er og stuðningsefni fyrir rafræna kennslu hefur verið aukið. Hér er fátt eitt talið.

Kæra samstarfsfólk. Ykkur tókst afar vel í vor að vinna mikilvæga sigra þrátt fyrir allskyns hömlur sem heimsfaraldurinn setti okkur. Það reynir á þolrif okkar nú en höldum samt ótrauð inn í haustið með öryggi okkar allra að leiðarljósi og með það fyrir augum að halda uppi því framúrskarandi starfi sem einkennir Háskóla Íslands.

Gangi ykkur öllum vel. 

Jón Atli Benediktsson, rektor.“

Til stúdenta:

„Kæri nemandi við Háskóla Íslands. 

Nú er kennsla hafin af fullum krafti við Háskóla Íslands. Við eðlilegar kringumstæður er háskólanám krefjandi en vegna COVID-19 reynir nú enn meira á okkur en venjulega. Með samstilltu átaki mun okkur samt takast að skapa þann magnaða anda sem einkennir allt mannlíf og starf í Háskóla Íslands. Okkur mun sömuleiðis takast að halda uppi gæðum námsins og það skiptir verulegu máli.

Háskóli Íslands setur velferð samfélagins okkar, innan og utan veggja skólans, í algjöran forgang og hefur gripið til ýmissa aðgerða til að draga úr smithættu eins og þér er kunnugt um. Vegna tíðra breytinga á tilmælum stjórnvalda um sóttvarnir er tilvalið að kynna sér reglulega COVID-19 síðu-skólans en þar kemur m.a. fram að eins metra nándarregla gildir núna innan hans og sett hafa verið upp sérstök sóttvarnahólf þar sem fleiri en 100 einstaklingar eru í sömu byggingunni. Þar kemur líka fram að ef ekki er hægt að framfylgja nándarreglunni skuli nota andlitsgrímu sem hylur munn og nef. Ég hvet þig eindregið til að fylgja vel auglýstum reglum sóttvarnaryfirvalda og muna að handþvottur er áhrifarík sóttvörn. 

Vegna COVID-19 verður höfuðþunginn á rafræna kennslu þetta haust en við leggjum líka kapp á að nýta möguleika til staðkennslu. Þú munt fá nánari upplýsingar á næstu dögum um tilhögun kennslu innan þinnar einingar og deildar og hvet ég þig til að hika ekki við að leita upplýsinga þar.  

Þjónustueiningar okkar á Háskólatorgi standa þér allar opnar, eins og þjónustuborðið, nemendaskrá, náms- og starfsráðgjöf, tölvuþjónusta og skrifstofa alþjóðasamskipta. Það þarf reyndar enginn að gera sér ferð í skólann til að nálgast þjónustueiningarnar því netspjallið okkar er aðgengilegt alls staðar á heimasíðu skólans.  

Öflug upplýsingatækni hefur verið lykill að námsframvindu þinni hér og svo verður áfram. Á síðasta misseri tókum við upp námsumsjónarkerfið Canvas sem breytir miklu um miðlun og aðgang að upplýsingum og hér má finna myndband sem útskýrir notkun þess. Nemendur eru hvattir til að sækja Canvas Student appið og geta skoðað hér svör við algengum spurningum sem upp koma um kerfið. 

Háskólanám kallar á sjálfstæð vinnubrögð og frumkvæði hvers og eins. Meginhlutverk háskóla er að stuðla að skilningi á margflóknum veruleika, efla starfshæfni, þroska rökhugsun og auðga heimsmynd nemenda. Þetta hlutverk tekur Háskóli Íslands mjög alvarlega og leggur metnað í að taka vel á móti öllum nemendum þetta haustið við flóknar aðstæður. Háskólinn vill tryggja þér og öðrum nemendum trausta og viðurkennda menntun sem nýtist vel hvert sem förinni er heitið í framhaldinu. 

Stundum er sagt að seiglan einkenni íslenskt samfélag umfram margt annað og ég er viss um að hún verði meginstyrkur ykkar nemenda við núverandi aðstæður og í raun í öllu námi ykkar hér. 

Verum minnug þess að ástandið vegna COVID-19 er einungis tímabundið.

Ég óska þér velgengni í námi og starfi. 
Jón Atli Benediktsson, rektor. “
 

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands