Skip to main content
9. janúar 2024

Sjálfsbókmenntir til skoðunar í nýrri bók Sigurðar Gylfa

Sjálfsbókmenntir til skoðunar í nýrri bók Sigurðar Gylfa - á vefsíðu Háskóla Íslands

Út er komin bókin Autobiographical Traditions in Egodocuments eftir Sigurð Gylfa Magnússon, prófessor í sagnfræði við Deild heimspeki, sagnfræði og fornleifafræði HÍ, og í útgáfu bókaforlagsins Bloomsbury. Í bókinni notar Sigurður íslenska sögu liðinna alda til að skoða sjálfsbókmenntir (e. egodocuments) í allri sinni dýrð og velta fyrir sér eðli þeirra, aðstæðum sem þær eru upprunnar í og styrkleikum og veikleikum þeirra fyrir fræðilegar rannsóknir. Hann rannsakar sérstaklega hvaða möguleika þessar merkilegu heimildir eins og sjálfsævisögur, endurminningarit, samtalsbækur, dagbækur, bréfasöfn og slíkt bjóða upp á með fulltingi aðferða einsögu (e. microhistory) sem sagnfræðilegs greiningartækis.

Óhætt er að segja að sjálfsbókmenntaflóra heimsins sé á margan hátt mun merkilegri heimildaforði en sagnfræðingar áttuðu sig á lengst af 20. öldinni. Á síðari tímum hafa fjölmargir sagnfræðingar farið að glíma við flókna tilurð þessara heimilda og nýtt þær til að nálgast ný viðfangsefni á áhugaverðan hátt. Meðal þess sem vísindamenn hafa farið að skoða eru áhrif sjálfsævisagna á daglegt líf fólks í allri sinni fjölbreyttu mynd. Eitt af því sem fjallað er um í þessari nýju bók er hvernig sjálfsbókmenntir hafa verið notaðar í söguritum bæði hér á landi og annars staðar í heiminum frá 19. öld og fram til samtímans. Þar kemur meðal annars til umræðu leit hvers einstaklings að sjálfum sér sem gerir margar sjálfsævisögur og aðrar tegundir sjálfsbókmennta að svo frjóum og áhugaverðum sögulegum heimildum sem opna tækifæri til að rannsaka efni sem áður komu ekki til álita. Bókin er 255 blaðsíður að lengd og hún fæst í Bóksölu stúdenta og hjá Heimkaupum.  

Sigurður Gylfi Magnússon kom til starfa við Háskóla Íslands sem fastráðinn starfsmaður árið 2014 eftir að hafa verið sjálfstætt starfandi fræðimaður frá því hann gekk frá prófborði árið 1993 í Bandaríkjunum til ársins 2010, lengst af á því tímabili innan vébanda ReykjavíkurAkademíunnar. Árið 2010 fékk hann tímabundna rannsóknarstöðu við Þjóðminjasafn Íslands sem kennd er við dr. Kristján Eldjárn og gegndi henni til ársloka 2013. Árið 2014 var Sigurður Gylfi ráðinn sem dósent við Sagnfræði- og heimspekideild Háskóla Íslands og árið eftir sem prófessor við sömu deild. Rannsóknir Sigurðar Gylfa hafa einkum beinst að alþýðumenningu, hversdagslífi, sjálfsbókmenntum (e. egodocuments) og sögu tilfinninganna (e. history of emotions), oft með hjálp aðferða einsögunnar (e. microhistory). Sigurður leggur mikla rækt við aðferða- og hugmyndafræði sagnfræðinnar. Hann stýrði öndvegisverkefni Rannís; „Heimsins hnoss: Söfn efnismenningar, menningararfur og merking.“

Sigurður Gylfi Magnússon prófessor með bókina Autobiographical Traditions in Egodocuments.