Sjálfbærni, alþjóðamál, málstefna og vinnurými til umræðu á háskólaþingi
Sjálfbærniáherslur í stefnu Háskóla Íslands, alþjóðleg staða skólans, endurskoðun málstefnu og fyrirkomulag vinnurýma verður til umræðu á háskólaþingi Háskóla Íslands sem fram fer í Hátíðasal skólans miðvikudaginn 26. apríl kl. 13-16. Þingið verður sent út í beinu streymi.
Yfir hundrað manns sækja háskólaþing að þessu sinni en það er samráðsvettvangur háskólasamfélagsins þar sem fram fer umræða um þróun og eflingu Háskóla Íslands. Þingið, sem haldið er tvisvar á hverju skólaári, fjallar um og tekur jafnframt þátt í að móta sameiginlega stefnu Háskóla Íslands. Á þinginu eiga sæti helstu stjórnendur skólans, kjörnir fulltrúar fræðasviða, fulltrúar helstu stofnana háskólans og samstarfsstofnana hans, kennarafélaga og stúdenta auk fulltrúa starfsmanna stjórnsýslu og úr háskólaráði.
Fimm mál eru á dagskrá háskólaþings að þessu sinni. Rektor hefur þingið á að reifa mál sem eru efst á baugi hjá Háskóla Íslands og í framhaldinu tekur við umræða sjálfbærniáherslur í stefnu Háskóla Íslands, HÍ26. Þar munu taka til máls Ólafur Ögmundarson, formaður sjálfbærninefndar og formaður stýrihóps verkefnastofnsins innan stefnu HÍ, Sólrún Sigurðardóttir, verkefnisstjóri hjá framkvæmda- og tæknisviði, og Hafdís Hanna Ægisdóttir, forstöðumaður Sjálfbærnistofnunar Háskóla Íslands.
Að loknum umræðum um sjálfbærnimál verður rætt um stöðu Háskóla Íslands í alþjóðlegu fræðasamfélagi þar sem þau Guðbjörg Linda Rafnsdóttir, aðstoðarrektor vísinda, og Halldór Jónsson, sviðsstjóri vísinda- og nýsköpunarsviðs, ræða styrkleika, veikleika og tækifæri skólans á alþjóðavettvangi.
Að loknu kafffihléi mun Sigríður Sigurjónsdóttir, prófessor við Íslensku- og menningardeild og formaður málnefndar Háskóla Íslands, kynna drög að endurskoðaðri málstefnu Háskóla Íslands og framhaldinu fjallar Hafsteinn Einarsson, lektor við Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunafræðideild og fulltrúi í málnefnd Háskóla Íslands, um þær áskoranir sem íslenskt málsamfélag stendur frammi fyrir samfara hraðri þróun á sviði gervigreindar.
Undir lok háskólaþings munu fara fram umræður um tillögu til ályktunar um fyrirkomulag vinnurýma við Háskóla Íslands en það er Björn Þorsteinsson, prófessor við Heimspeki-, sagnfræði- og fornleifafræðideild, sem mælir fyrir tillögunni.