Samstarfssamningur um starfsþróun í ferðaþjónustu | Háskóli Íslands Skip to main content
11. febrúar 2020

Samstarfssamningur um starfsþróun í ferðaþjónustu

""

Námsbraut í land- og ferðamálafræði við Háskóla Íslands, Samtök ferðaþjónustunnar (SAF), Náms- og starfsráðgjöf Háskóla Íslands og Íslenski ferðaklasinn undirrituðu í gær samstarfssamning um eflingu starfsþróunar og vettvangsnáms í ferðaþjónustu. Undirritunin fór fram í húsnæði Íslenska ferðaklasans. Markmið samstarfsins er að byggja brýr milli háskólamenntunar og atvinnugreinarinnar til að efla færni nemenda, auðvelda yfirfærslu þekkingar og koma á tengslum milli fyrirtækja og framtíðarstarfsmanna í greininni með sjálfbærni og ábyrga ferðaþjónustu að leiðarljósi. 

Samningurinn byggist á samstarfi námsbrautarinnar og SAF sem staðið hefur frá árinu 2015 í tengslum við námskeiðið Starfsþróun í ferðaþjónustu. Hátt í 100 nemendur hafa í gegnum það fengið innsýn í störf og hæfnikröfur fyrirtækja í ferðaþjónustu. María Guðmundsdóttir, fræðslustjóri SAF, segist fagna vaxandi áherslu á starfsþróun í háskólanámi og bendir á að dæmi séu um að nemendur hafi fengið vinnu í gegnum þátttöku í námskeiðinu. „Þetta námskeið verður áfram kjölfesta í samstarfinu en með því að fá Náms- og starfsráðgjöf Háskóla Íslands og Íslenska ferðaklasann formlega að borðinu skapast tækifæri til að taka næstu skref til að styrkja starfsþróun nemenda í ferðamálafræði enn frekar,“ sagði Gunnar Þór Jóhannesson, formaður námsbrautar í land- og ferðamálafræði við Háskóla Íslands og umsjónarkennari námskeiðsins. 

Aðilar samkomulagsins hafa fleiri þróunarverkefni á prjónunum, svo sem að vinna að kynningu á Tengslatorgi Háskóla Íslands meðal fyrirtækja í ferðaþjónustu og efla færni leiðbeinenda sem taka á móti nemendum í vettvangsnámi. Ásta Kristín Sigurjónsdóttir, framkvæmdastjóri Íslenska ferðaklasans, bendir á að mikilvægt sé fyrir atvinnugreinina að vinna með fræðsluaðilum til að styrkja ímynd ferðaþjónustu sem atvinnugreinar sem getur boðið upp á spennandi og gefandi störf til framtíðar.

Bein tengsl við atvinnugreinina

Við sama tækifæri undirrituðu sex fyrirtæki og stofnanir viljayfirlýsingu um samstarf við námsbraut í land- og ferðamálafræði Háskóla Íslands. Það eru Ferðamálastofa, Meet in Reykjavík, Nordic Visitor, Íslandshótel, Bílaleigan Höldur og Katla Travel. Þessir aðilar eru bakhjarlar verkefnisins og hafa skuldbundið sig til þátttöku í námskeiðinu til næstu þriggja ára. „Það að formfesta samstarf við atvinnugreinina með þessum hætti skiptir okkur miklu máli. Með því erum við að skapa þekkingarsamfélag og grundvöll fyrir virkt samtal milli ólíkra aðila sem nýtist öllum til að byggja upp og gera betur,“ sagði Gunnar Þór. Ávinningur fyrirtækja sem taka þátt í verkefninu er margvíslegur, en með þátttökunni sýna þau samfélagslega ábyrgð og taka jafnframt virkan þátt í að efla grundvöll ferðaþjónustu sem felst í vel menntuðu starfsfólki sem hefur færni til að takast á við áskoranir í greininni. 

Ásta Kristín Sigurjónsdóttir, framkvæmdastjóri Íslenska ferðaklasans, María Guðmundsdóttir, fræðslustjóri SAF, María Dóra Björnsdóttir, deildarstjóri Náms- og starfsráðgjafar Háskóla Íslands, og Gunnar Þór Jóhannesson, formaður námsbrautar í land- og ferðamálafræði við Háskóla Íslands, handsala samstarfsamninginn.