Skip to main content
28. apríl 2021

Samstarf við stjórnvöld um netnámskeið um gervigreind

Samstarf við stjórnvöld um netnámskeið um gervigreind - á vefsíðu Háskóla Íslands

Stjórnvöld hafa í samstarfi við Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík opnað vefnámskeið um gervigreind sem er opið öllum almenningi. 

Markmið þess er að gera þekkingu á gervigreind aðgengilega fyrir alla svo fólk finni kraft og tækifæri í nýrri tækni og styrkja starfsmöguleika og starfs- og samkeppnishæfni Íslendinga. Námskeiðið er hluti af aðgerðaráætlun fyrir Ísland í fjórðu iðnbyltingunni og hefur það að leiðarljósi að leggja rækt við þekkingu, uppbyggingu hennar og flæði um allt samfélagið til að sporna gegn skiptingu í hópa þeirra sem eiga eða eiga ekki, kunna eða kunna ekki, skilja eða skilja ekki.

Í námskeiðinu er m.a. farið yfir það hvað gervigreind er og hvernig hún leysir verkefni sem henni eru fengin auk þess sem fjallað er um svokallað vélnám og nágrannaflokkun og heimspekilegar áskoranir tengdar þessari nýju tækni.

Námskeiðið er á íslensku, að finnskri fyrirmynd. Það er í sex hlutum, samanlagt um 30 klukkustundir. Einstaklingar geta tekið námskeiðið þegar þeim hentar, hvort sem er í tölvu eða síma, en það er hannað til að vera aðgengilegt óháð aldri, starfsreynslu eða öðru. 

Ísland verður stafrænna með hverjum degi og því mikilvægt að fólk búi yfir skilningi og færni til að hagnýta nýja tækni en markmið námskeiðsins er meðal annars að stuðla að því.

Ráðuneyti Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra og Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra standa á bak við verkefnið ásamt háskólunum tveimur.

„Ég fagna því mjög að þetta opna gervigreindarnámskeið sé nú komið á vefinn. Mikilvægt er að stuðla að betri grunnþekkingu á gervigreind meðal almennings og leitast við að fólk geti tjáð sig um hana á íslensku. Þetta opna námskeið er góð byrjun fyrir áhugasama á slíkri vegferð. Námskeiðið er blanda af heimspeki um gervigreind og umfjöllum um aðferðir. Aðferðirnar eru kynntar á almennan og aðgengilegan hátt. Ég hef starfað í þessum geira í nokkra áratugi og get hiklaust mælt með námskeiðinu. Ég vil þakka Hafsteini Einarssyni, lektor í tölvunarfræði, fyrir hans mikilvægu aðkomu að verkefninu fyrir hönd Háskóla Íslands,“ segir Jón Atli Benediktsson rektor.

Hér er hægt að sækja námskeiðið