Rómafólk er hálfgert huldufólk á Íslandi | Háskóli Íslands Skip to main content
14. ágúst 2019

Rómafólk er hálfgert huldufólk á Íslandi

""

„Sígaunar og Rómafólk hefur í raun verið fast milli tveggja öfga í augum annarra, annars vegar sem hinn framandi, litríki og frjálsi sígauni og hins vegar sem þjófóttur og betlandi á jaðri samfélagsins. Staðreyndin er hins vegar sú að flest Rómafólk lifir sínu lífi eins og aðrir, það er virkir borgarar, býr á sínum eigin heimilum og er menntað til starfa eins og flest annað fólk.“ Þetta segir Sofiya Zahova, nýdoktor við Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum við Háskóla Íslands, sem unnið hefur að undirbúningi stórrar ráðstefnu um Rómafólk sem fram fer í Háskóla Íslands dagana 15.-17. ágúst. 

Á ráðstefnunni, sem fram fer í Veröld – húsi Vigdísar, verður staða, saga, menning og tunga Rómafólks í brennidepli en um er að ræða stærstu árlegu ráðstefnu í heiminum um Rómafólk og málefni þeirra. Von er á á 140 þátttakendum frá 33 löndum á ráðstefnuna og að henni standa elstu vísindasamtök heims á sviði Rómafræða (e. Romani Studies), Gypsy Lore Society, í samstarfi við Háskóla Íslands og Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum ásamt Reykjavíkurborg. 

Rómafólk, sem margir þekkja fremur undir nafninu sígaunar, er þjóð sem myndar stærsta minnihlutahóp í Evrópu. Stærstur hluti Rómafólks býr í Austur-Evrópu en það hefur ekki síst öðlast frægð fyrir að flakka milli landa í leit að betra lífi. Þjóðin á sitt eigið tungumál, rómönsku en hún er meðal þess sem verður til umfjöllunar á ráðstefnunni.

Eflaust þykir einhverjum óvenjulegt að halda ráðstefnu helgaða Rómafræðum á Íslandi en Sofiya bendir á að innan Háskóla Íslands hafi farið fram töluverðar rannsóknir á sviðinu á síðustu árum, ekki síst fyrir tilstilli alþjóðlegs samstarfs og kennaraskipta. „Nokkrir doktorsnemar og nýdoktorar sinna rannsóknum á sviðinu og Hugvísindasvið og Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur hafa átt frumkvæði að og tekið þátt í nokkrum alþjóðegum verkefnum sem tengjast menningu og sögu Rómafólks. Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur leggur enda áherslu á mikilvægi tungumála til að brúa bilið milli ólíkra menningarheima, ekki síst með tilliti til lítilla tungumála og hópa sem ekki tilheyra einu tilteknu ríki,“ segir Sofiya sem sjálf stýrir nokkrum verkefnum tengdum Rómafólki undir yfirskriftinni Roma in the Centre

Rómafólk í hópi farandverkafólks á Íslandi
Sofiya bendir á að ráðstefnan gefi innlendum fræðimönnum frábært tækifæri til þess að styrkja alþjóðleg tengsl sín á sviði Rómafræða þar sem fremstu fræðimenn í heiminum á þessu sviði eru væntanlegir hingað til lands. „Ísland fer ekki varhluta af þeim breytingum sem orðið hafa í alþjóðlegu samfélagi þar sem verkafólk ferðast um innan Evrópu í leit að vinnu og nýjum tækifærum. Þessar breytingar hafa haft í för með sér að til Íslands hafa komið farandverkamenn frá Austur-Evrópu og í þeirra hópi er Rómafólk frá Rúmeníu, Búlgaríu og Póllandi sem hefur sest hérna að. Íslenskt samfélag þarf á sérfræðiþekkingu að halda í þessum málaflokki og ráðstefnan opnar á frábært tækifæri til þess að öðlast nýja þekkingu, skapa ný tengsl og stuðla að auknu samstarfi tengdu Rómafólki og Rómafræðum,“ segir Sofiya.

Rómafræði eru þverfræðileg í eðli sínu og því verða kynntar rannsóknir sem snerta fjölmörg svið félagsvísinda og hugvísinda á ráðstefnunni eins og lesa má um í ráðstefnudagskránni. „Meðal þess sem fjallað verður um á ráðstefnunni eru örlög Rómafólks í seinni heimsstyrjöldinni og fjöldamorð nasista, ríkulegur bókmenntaarfur Rómafólks á síðustu áratugum auk málsvísindarannsókna sem tengjast tungumáli Rómafólks. Einnig verður fjallað um hvernig Rómafræði geta sótt aðferðafræði, hugtakanotkun og vinnulag í aðrar fræðigreinar eins og frumbyggjafræði, kynjafræði, kynþáttafræði og gyðingarannsóknir,“ segir Sofiya. 

Á ráðstefnunni, sem fram fer í Veröld – húsi Vigdísar, verður staða, saga, menning og tunga Rómafólks í brennidepli en um er að ræða stærstu árlegu ráðstefnu í heiminum um Rómafólk og málefni þeirra. Von er á á 140 þátttakendum frá 33 löndum á ráðstefnuna og að henni standa elstu vísindasamtök heims á sviði Rómafræða (e. Romani Studies), Gypsy Lore Society, í samstarfi við Háskóla Íslands og Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum ásamt Reykjavíkurborg. 

Konur í fararbroddi í bókmenntum Rómafólks
Sofiya mun sjálf flytja erindi á ráðstefnunni en hún hefur lagt áherslu á menningu, bókmenntir og sjálfsmynd Rómafólks í rannsóknum sínum. Sofiya starfaði í um tvo áratugi sem framkvæmdastjóri samtaka sem studdu útgáfu efnis á tungumáli Romafólks og komst þannig í kynni við rithöfunda úr hópi Rómafólks og bókmenntaarf þjóðarinnar og menningu. Í gegnum þessi störf lærði hún jafnframt tungumálið og ákvað á endanum að helga sig rannsóknum tengdum menningu Rómafólks. Hún lauk doktorsprófi á sviði þjóðfræði Suðaustur-Evrópu og varð árið 2016 fyrsti nýdoktorinn sem kom til starfa við Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur. Þar hefur hún síðustu þrjú ár stýrt rannsóknarverkefni þar sem áherslan er á að skoða þróun bókmennta Rómafólks á aþjóðavísu og útbúa gagnagrunn yfir útgáfu á tungumálinu. „Meðal þess sem ég hef komist að í rannsóknum mínum er að þótt bókmenntir á tungumáli Rómafólks eigi sér fremur stutta sögu er þróun þeirra að mörgu leyti svipuð og þróun bókmennta hjá öðrum minnihlutahópum, þær hafa þróast samhliða þjóðarhugmyndinni í Evrópu. Að sama skapi eru fyrstu prentuðu textarnir á máli Rómafólks þjóðsögur og Biblíuþýðingar líkt og hjá ýmsum öðrum Evrópuþjóðum, þar á meðal Íslendingum,“segir hún. Bókmenntahefð Rómafólks sé hins vegar ólík hefð margra annarra þjóða að því leyti að kvenrithöfundar hafi verið frumkvöðlar í ritun um ákveðin efni, t.d. um helförina, og í sumum löndum séu kvenrithöfundar úr hópi Rómafólks jafnvel fleiri en karlar. 

Umræða um Rómafólk þarf að vera á breiðari grunni
Sígaunar og Rómafólk hafa víða verið litin hornauga á Vesturlöndum. Sofiya segir margar og innbyrðis tengdar skýringar á því sem sækja megi bæði í söguna og samtímann. „Litið hefur verið á Rómafólk og sígauna sem hinn dæmigerða „Hinn”, óvelkominn dökkan útlending sem ýmist þurfi að siða eða mennta eða losa sig við en það kom skýrast fram í helförinni þar sem mikill fjöldi Rómafólks var ofsóttur og drepinn. Á öðrum svæðum, svo sem í Austur-Evrópu,  þar sem Rómafólk hefur verið hluti af samfélaginu í margar aldir, er viðhorfið annað. Fyrir fólk frá þessu svæði, eins og mig, hefur sambúð við Rómafólk alltaf verið normið,“ segir hún.

Aðspurð hvort auknar rannsóknir tengdar málefnum Rómafólks hafi breytt viðhorfum á einhvern hátt gagnvart þjóðinni segir Sofiya að réttindabarátta Rómafólks og aukin mannréttindaumræða í Evrópu hafi á síðustu áratugum opnað augu fólks betur fyrir margbreytileika þjóðarinnar og menningu hennar. Rómafólk hafi sannarlega orðið sýnilegra á síðustu áratugum í gegnum fjölmiðla, stjórnmál og aktívisma, en þó ekki endilega á jákvæðan hátt. „Kastljósinu, bæði í almennri og akademískri umræðu, hefur stundum aðeins verið beint að vandamálum tengdum Rómafólki, eins og betli, jaðarsetningu, aðstæðum og menntunarskort. Umræðan um Rómafólk þarf að vera á breiðari grunni og það er einmitt það við munum fást við á ráðstefnunni.“

Engar rannsóknir til á Rómafólki á Íslandi
Aðspurð hvort einhverjar rannsóknir hafi verið gerðar á komum Rómafólks til Íslands og stöðu þess hér segir Sofiya að þeir hópar sem hingað hafi komið hafi verið hálfgert huldufólk. „Mín reynsla er sú að svæði eins og Ísland, þar sem talið er að fátt Rómafólk búi, er í raun frekar órannsakað svæði. Það eru ekki til neinar gamlar rannsóknir á Rómafólki hér á landi en hins vegar eru til ritaðar heimildir um komu hóps til Seyðisfjarðar snemma á 20. öld og þær samrýmast vel ljósmynd sem tekin var af hópi Rómafólks þar á sama tíma. Fyrstu niðurstöður rannsókna minna sýna hins vegar að sögulega séð hefur Ísland verið hluti af þeim norrænu áfangastöðum sem Rómafólk, sem bjó annars staðar á Norðurlöndum, vissi af en kannski voru ekki nægir efnahagslegir hvatar fyrir fólkið til þess að koma hingað. Eða kannski líkaði því ekki veðrið?“ segir Sofiya og brosir.

Sofiya segir enn fremur að bæta þurfi úr þessum skorti á rannsóknum á Rómafólki hér á landi, sérstaklega þegar horft sé til félagslegra og menntunarlegra þarfa Rómafjölskyldna. Verið sé að skoða möguleika á slíkum rannsóknum. „Vonandi getum við á Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur og í Háskóla Íslands ýtt slíkri rannsókn úr vör í samvinnu við Reykjavíkurborg.“

Sofiya Zahova