Skip to main content
27. september 2023

Risastyrkur frá Evrópu til að auka jöfnuð í menntakerfinu

Risastyrkur frá Evrópu til að auka jöfnuð í menntakerfinu - á vefsíðu Háskóla Íslands

„Rannsóknir mínar snúast almennt séð um félagslegt misrétti í menntun og leitina að leiðum til að auka jöfnuð. Þetta er víðtækt efni en ég hef áhuga á að skoða hvernig félagslegur uppruni nemenda ásamt þjóðerni og kyni hefur áhrif á þá menntun sem nemendur fá. Enn fremur hef ég áhuga á að rannsaka hvernig umskiptin verða hjá einstaklingum sem fara úr skóla út á vinnumarkaðinn – eða með öðrum orðum, ég vil rannsaka ferli einstaklinga við að fá vinnu og sjá hvernig það mótast af félagshagfræðilegum bakgrunnsþáttum.“

Þetta segir David Reimer, prófessor í félagsfræði menntunar við Háskóla Íslands, en hann hefur verið gríðarlega afkastamikill í rannsóknum undanfarin ár. David hefur hlotið tvo stóra samkeppnisstyrki til að stunda rannsóknir sínar sem hafa veruleg samfélagsleg áhrif. Menntun er ein mikilvægasta fjárfesting sem eintaklingar geta notið og hún hefur líka bein áhrif á samfélagið í víðtækum skilningi. Það er því svo sannarlega mikilvægt að finna aðferðir til að auka jöfnuð í menntakerfinu enda er þekkingin án nokkurs vafa gjaldmiðill framtíðarinnar. 

Franskur Þjóðverji með mikil íslensk tengsl

Það er sannarlega mikill fengur fyrir Háskóla Íslands að fá David í sínar raðir en hann starfaði áður við Háskólann í Árósum í Danmörku þar sem hann meðal annars nýtti upplýsingatækni og miðlun í rannsóknum sínum til að koma mikilvægum upplýsingum á framfæri til jaðarsettra hópa.

David ólst upp í Þýskalandi og hefur bæði þýskt og franskt ríkisfang þar sem móðir hans er frönsk og faðir hans þýskur. Eftir menntaskóla nam hann félagsfræði við Háskólann í Mannheim og lauk þar doktorsprófi árið 2009 en sama ár hóf hann störf við Árósaháskóla. 

Háskóli Íslands leggur í heildarstefnu sinni HÍ26 áherslu á að ryðja burt hindrunum í starfi þar sem markmiðið er að gera einingum skólans æ einfaldara að vinna saman í þágu stúdenta, rannsókna og samfélags. Segja má að David vinni nákvæmlega samkvæmt þeirri stefnu en prófessorsstaða hans er einmitt þess eðlis að hún er til jafns á Menntasvísindasviði skólans og á Félagsvísindasviði sem kemur sér sérstaklega vel fyrir hans helsta áhugasvið og rannsóknarefni, að draga úr ójöfnuði í menntun. 

Miklu meira frelsi í HÍ en við danska háskóla

„Aðalástæðan fyrir því að ég kom í Háskóla Íslands var reyndar sú að ég fylgdi konu minni, Rósu Magnúsdóttur, sem hóf störf sem prófessor í sagnfræði við HÍ fyrir tveimur árum,“ segir David og brosir en bætir því strax við að honum finnist starfsaðstæður í HÍ mjög aðlaðandi. 

„Sem prófessor hefur maður miklu meira frelsi hér samanborið við svipaða stöðu við danska háskóla. Þar fyrir utan er ójöfnuður í menntun heillandi viðfangsefni á Íslandi. Sem dæmi má nefna að í alþjóðlegum matsrannsóknum eins og PISA-rannsókninni, sem metur árangur 15 ára barna í lestri eða stærðfræði og raungreinum, er tiltölulega lítill ójöfnuður í frammistöðu í prófum eftir félagslegum bakgrunni nemenda. Þetta þýðir að frammistaða nemenda með betri félagshagfræðilegan bakgrunn er miklu nær þeim lægri ef við miðum við lönd eins og heimaland mitt, Þýskaland, svo dæmi sé tekið. Hins vegar, ef horft er til þess hverjir hafa í hyggju að stunda háskólanám, þá virðist félagslegur uppruni nemenda hafa ívið meiri áhrif hér Íslandi en í flestum öðrum löndum heims.“

„Ein af nýjungum þessa verkefnis er að auk þess að prófa inngrip til að draga úr ójöfnuði þegar nemendur fara úr framhaldsskóla í háskóla þá snýr rannsóknin einnig að inngripi til nemenda þegar þeir færast úr grunnskóla yfir í framhaldsskóla – eitthvað sem sjaldan hefur verið gert áður. Verkefnið mun hefjast á næstu vikum og standa yfir í fimm ár,“ segir David. MYND/Kristinn Ingvarsson

Notaði vídeóviðtöl til að hvetja jaðarhópa í háskólanám

Báðir styrkirnir sem David hefur fengið snúast um að draga úr ójöfnuði í menntun. Hann fékk fyrst styrk í Danmörku til að vinna verkefni þar sem rannsakað var sérstaklega hvort unnt væri að hvetja einstaklinga úr hópi sem nýtur lítilla forréttinda til að hefja háskólanám með því að miðla til þeirra tilteknum sérhæfðum upplýsingum. 

„Við sýndum þeim viðtöl í myndböndum við núverandi háskólanema sem sögðu frá reynslu sinni ásamt viðeigandi gögnum um t.d. vinnumarkaðsárangur háskólamenntaðra,“ segir David um þetta verkefni og bætir við: „Það er óhætt að líta þannig á að verkefnið hafi tekist vel. Stutt 20 mínútna íhlutun okkar, í formi viðtalanna í myndböndunum, jók umsóknarhlutfall í háskóla um sex prósent meðal nemenda með bakgrunn úr verkalýðsstétt. Aukningin miðast við nemendur í samanburðarhópnum.“

David segir að í ljósi þessa árangurs hafi hann sótt um og fengið stóran styrk frá Evrópska rannsóknarráðinu (ERC), nærri 300 milljónir króna, þar sem þessi aðferðafræði verður þróuð áfram og beitt í fjórum löndum, Danmörku, Íslandi, Þýskalandi og Ungverjalandi. 

„Ein af nýjungum þessa verkefnis er að auk þess að prófa inngrip til að draga úr ójöfnuði þegar nemendur fara úr framhaldsskóla í háskóla þá snýr rannsóknin einnig að inngripi til nemenda þegar þeir færast úr grunnskóla yfir í framhaldsskóla – eitthvað sem sjaldan hefur verið gert áður. Verkefnið mun hefjast á næstu vikum og standa yfir í fimm ár,“ segir David. 

David ræðir hér um mikilvægi háskóla í samfélaginu.

Hefur mikinn áhuga á að jafna rétt fólks til að fara í háskóla

Að auka jöfnuð er gríðarlega brýn áskorun enda er það einn af lykilþáttunum í heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Í stefnu HÍ er líka kapp lagt á að styðja samfélagið við að takast á við margvíslegar áskoranir með rannsóknum, ekki síst á þeim sviðum sem snerta velferð fólks og jöfnuð.

„Val mitt á þessu viðfangsefni helgast af eigin áhuga á að draga úr félagslegum ójöfnuði almennt sem hófst og þróaðist áfram þegar ég var í menntaskóla í Þýskalandi. Til viðbótar því voru margir kennarar mínir við Háskólann í Mannheim, þar sem ég var í meistara- og doktornámi í félagsfræði, öflugir vísindamenn á þessu sviði. Upphaflega hafði ég meiri áhuga á ferlinu við að fá starf og fyrsta birta greinin mín fjallaði einmitt um launamun kynjanna í Þýskalandi. En í doktorsnáminu mínu í Mannheim beindi ég æ meir sjónum að ójöfnuði í menntakerfinu með sérstaka áherslu á að jafna rétt fólks til að ljúka háskólanámi.“

Þegar David er spurður út í mikilvægi rannsókna almennt svarar hann því til að spurningar af slíkum toga séu býsna stórar til að svara í stuttu máli... en hann svarar samt um hæl: „Ný þekking sem skapast af rannsóknum er nauðsynleg forsenda þess að hægt sé að bjóða upp á vandaða menntun á háskólastigi. Án rannsókna væri erfitt að uppgötva og sjá hvaða aðferðir og kenningar ætti að vera grundvöllur kennslunnar eða hvaða nálgun er úrelt eða einfaldlega röng. Rannsóknir breyta heiminum á margan veg og menntun næstu kynslóða er algerlega háð rannsóknum.“ 

David Reimer, prófessor í félagsfræði menntunar við Háskóla Íslands