Skip to main content
23. nóvember 2022

Rannsóknir Thors á COVID og hjartasjúkdómum á Hringbraut

Rannsóknir Thors á COVID og hjartasjúkdómum á Hringbraut - á vefsíðu Háskóla Íslands

Thor Aspelund, prófessor í líftölfræði við Læknadeild Háskóla Íslands og Miðstöð í lýðheilsuvísindum, sem varð landsfrægur nánast á einni nóttu í kórónuveirufaraldrinum, ræddi rannsóknir sínar og samstarfsfólks í fimmta þættinum af þáttaröðinni Vísindin og við á Hringbraut í vikunni.

Thor hefur helgað sig tölfræði og tölfræðirannsóknum í á þriðja áratug og starfaði m.a. hjá Hjartavernd áður en hann réðst til starfa við Háskóla Íslands. Rannsóknir Thors hafa m.a. snúið að áhrifum áhættuþátta á hjarta- og æðasjúkdóma og sykursýki og hvernig er hægt að nota þá sem forspárþætti í áhættureiknum. Nýjar rannsóknir hans og samstarfsfólks hjá Hjartavernd leiða m.a. í ljós að hjartasjúkdómar eru mun algengari hjá þeim sem litla menntun hafa en hjá þeim sem eru meira menntuð.

Thor hefur líka rannsakað áhrif erfða á ýmsa sjúkdóma og er meðal stofnenda fyrirtækisins Retina Risk (https://www.retinarisk.com/) sem hefur þróað áhættureikni sem metur áhættu fólks, sem er með sykursýki, á að fá sjónskerðandi augnsjúkdóma. Áhættureiknirinn er sá fyrsti sinnar tegundar í heiminum og fyrirtækið hefur m.a. samið við bandarísku sykursýkisamtökin um að gera hANN aðgengilegan almenningi í Bandaríkjunum.

Hvaða áhrif hefur COVID-19 á geðheilsu?

Thor og samstarfsfólk hans gegndi gríðarmikilvægu hlutverki í kórónuveirufaraldrinum þegar þau bjuggu til spálíkan um þróun faraldursins sem nýttist bæði stjórnvöldum, almannavörnum og Landspítalanum í viðbrögðum sínum. Var Thor reglulega kallaður til  af fjölmiðlum til þess að skýra og leggja mat á þróun faraldursins.

Thor og samstarfsfólk, bæði innan lands og utan, hafa enn fremur í gegnum faraldurinn og eftir hann fylgst með því hvað áhrif COVD-19 hefur á andlega heilsu fólks. Þar kemur m.a. í ljós að fólk sem veikst hefur alvarlega af sjúkdómum finnur fyrir depurðareinkennum í allt að ár eftir einkennin. 

Þá tekur Thor þátt í hinni viðamiklu rannsókn Áfallasaga kvenna sem samstarfskonur hans, prófessorarnir Unnur Anna Valdimarsdóttir og Arna Hauksdóttir, stýra. Hún nær til yfir 30 þúsund kvenna á Íslandi og miðar að því að skýra áhrif áfalla á heilsu kvenna.
Thor er enn fremur meðal afkastamestu vísindamanna Háskólans en eftir hann liggja vel á fjórða hundrað vísindagreina.

Í þættinum á Hringbraut er einnig rætt við tvo doktorsnema Thors, þær Ingibjörgu Magnúsdóttur og Önnu Báru Unnarsdóttur, sem í rannsóknum sínum rýna m.a. í geðheilsu fólks sem greinst hefur með COVID-19-sjúkdóminn, langtímaeinkenni þunglyndis og kvíða og glímu fólks við heilaþoku. 

Hægt er að horfa á umfjöllun Hringbrautar um rannsóknir Thors Aspelund og samstarfsfólks á vef sjónvarstöðvarinnar.

Thor Aspelund