Skip to main content
7. september 2023

Rannsakar gæðaviðmið frístundaheimila – óska eftir þátttöku fagfólks 

Rannsakar gæðaviðmið frístundaheimila – óska eftir þátttöku fagfólks  - á vefsíðu Háskóla Íslands

Í dag taka langflest sex til sjö ára gömul börn hér á landi þátt í starfi frístundaheimila sem sveitarfélög reka og bjóða upp á skipulagt frístundastarf að loknum skóladegi. Fáar menntarannsóknir hafa beinst sérstaklega að fagþróun og innra starfi frístundheimili, en um þessar mundir er í gangi rannsókn sem snýst um að safna upplýsingum um viðhorf stjórnenda og starfsfólks frístundaheimila um allt land á því hvernig gangi að innleiða gæðaviðmið sem stjórnvöld settu fram fyrir frístundaheimilin í landinu árið 2018. Ábyrgðaraðili rannsóknarinnar er Steingerður Kristjánsdóttir, aðjúnkt í tómstunda- og félagsmálafræði, en hún starfaði um árabil sem verkefnastjóri barnastarfs hjá Reykjavíkurborg og tók þátt í að móta og innleiða þjónustu frístundaheimilanna fyrir yngstu börn grunnskólans.„Frístundaheimilin hafa fest sig í sessi sem mikilvæg uppeldisstofnun og þar af leiðandi skiptir miklu máli að styðja við gæði í faglegu starfi. Það er unnið á margvíslegan hátt að því að efla þroska, nám og farsæld barna á vettvangi frítímans en starfsfólkið þarf auðvitað dyggan stuðning sveitarfélaga og rekstraraðila“. Steingerður stendur nú ásamt samstarfsfólki úr háskólanum fyrir rafrænni könnun á viðhorfum forstöðumanna frístundaheimila, skólastjórnendum, þar sem við á, og einnig býðst starfsfólki frístundaheimila að taka þátt. Að sögn Steingerðar, hverfast gæðaviðmiðin um fjórar megin stoðir: Börnin og velferð þeirra – Starfshættir og viðfangsefni– Mannauður og faglegt starf – Húsnæði og innviðir. Könnunin er stutt og einföld, þátttakendur eru beðnir að merkja við hve vel eða illa gangi að ná ákveðnum markmiðum. Þá geta þátttakendur komið ábendingum á framfæri í opnum svörum. 
„Það hafa verið góðar undirtektir, en til að auka réttmæti rannsóknar þá skiptir gríðarlega miklu máli að fá fleiri svör inn, bæði af höfuðborgarsvæði og landsbyggðinni“. Steingerður bendir á að könnunin muni standa opin fram til 15. september og er ætluð þeim sem leiða og bera ábyrgð á starfsemi frístundaheimila, s.s. forstöðumönnum, og skólastjórnendum. Einnig er kallað eftir viðhorfum starfsfólks frístundaheimila, s.s. frístundaráðgjöfum og frístundaleiðbeinendum. 
Að hennar mati skiptir reynsla og viðhorf þessara aðila öllu máli þegar kemur að því að varpa ljósi á innleiðingu gæðaviðmiða í þágu barna sem taka þátt í starfi frístundaheimila. „Niðurstöður munu gefa upplýsingar um stöðu mála sem verða nýttar til stefnumótunar og við sem stöndum að könnuninni ætlum að bjóða upp á kynningar fyrir hagsmunaaðila, sveitarfélög, frístundastofnanir og skóla. Ég hvet því forstöðumenn frístundaheimila, skólastjórnendur og starfsfólk frístundaheimila til að taka þátt og leggja þannig sitt af liði.“

Könnunin fer alfarið fram á Netinu og má nálgast hér.

Steingerður Kristjánsdóttir