Skip to main content
8. júní 2018

Rannsakaði upphaf og þróun kommúnistahreyfingarinnar 1918–1968

Skafti Ingimarsson hefur varið doktorsritgerð við Sagnfræði- og heimspekideild Háskóla Íslands sem nefnist Íslenskir kommúnistar og sósíalistar: Flokksstarf, félagsgerð og stjórnmálabarátta 1918-1968. Andmælendur við vörnina voru Rósa Magnúsdóttir, dósent við Árósaháskóla og Sumarliði Ísleifsson, lektor við Sagnfræði- og heimspekideild Háskóla Íslands. Doktorsritgerðin var unnin undir leiðsögn Vals Ingimundarsonar, prófessors í sagnfræði, og aðrir í doktorsnefnd voru Ragnheiður Kristjánsdóttir, dósent í sagnfræði, og Jón Ólafsson, prófessor í heimspeki. Það var Svavar Hrafn Svavarsson, forseti Sagnfræði- og heimspekideildar, sem stjórnaði athöfninni sem fór fram í Hátíðasal í Aðalbyggingu Háskóla Íslands 30. maí síðastliðinn. (Hér má nálgast myndir frá vörninni).

Um rannsóknina

Verkefnið fjallar um upphaf og þróun kommúnistahreyfingarinnar á Íslandi á tímabilinu 1918–1968. Saga hreyfingarinnar er skoðuð í ljósi íslenskrar þjóðfélagsþróunar og alþjóðlegra hugmyndastrauma. Kannað er úr hvaða jarðvegi hreyfingin var sprottin, skoðað hverjir studdu hana og hvers vegna og sýnt hvernig fámennum hópi íslenskra kommúnista tókst að gera flokk sinn að fjöldahreyfingu, ólíkt því sem gerðist í flestum nágrannalöndum. Rannsóknin beinist einkum að skipulagi og daglegu starfi íslenskra kommúnista og sósíalista, ólíkt flestum fyrri rannsóknum, sem leggja megináherslu á tengsl kommúnista og sósíalista við Sovétríkin á millistríðs- og kaldastríðsárunum. Hér vegur þyngst viðamikil lýðfræðileg greining á rúmlega 2900 skráðum félögum í Kommúnistaflokki Íslands (1930–1938) og Sameiningarflokki alþýðu – Sósíalistaflokknum (1938–1968). Greiningin er hin fyrsta sinnar tegundar á félagaskrám íslenskra stjórnmálaflokka og byggir á frumheimildum sem varpa nýju ljósi á samfélagslega stöðu flokksmanna og  félagssamsetningu flokkanna tveggja. Verkefnið er hluti af verkalýðs- og stjórnmálasögu Evrópu, sem hefur útbreiðslu jafnaðarstefnu og kommúnisma á 19. og 20. öld að viðfangsefni, og er ætlað að auka þekkingu á sviði stjórnmála- og félagssögu á Íslandi á 20. öld.

Um höfundinn

Skafti Ingimarsson lauk B.A.-prófi í sagnfræði við Háskóla Íslands árið 2004, prófi í uppeldis- og kennslufræði við Háskólann á Akureyri árið 2004 og M.Litt-prófi í sagnfræði við University of St Andrews (Centre for Russian, Soviet and Central and Eastern European Studies) árið 2007. Meðan á rannsókninni stóð hlaut hann styrk úr háskólasjóði Eimskipafélagsins og úr minningarsjóði Bjarna Benediktssonar, fyrrverandi forsætisráðherra. Skafti var stundakennari á sagnfræðibraut við Háskóla Íslands árin 2008–2009 og 2011–2012. Hann var formaður AkureyrarAkademíunnar árin 2013–2015. Skafti er kennari við Lundarskóla á Akureyri.

Skafti Ingimarsson