Skip to main content
8. júní 2021

Pödduskoðun fyrir alla í Elliðaárdal á miðvikudag

Pödduskoðun fyrir alla í Elliðaárdal á miðvikudag - á vefsíðu Háskóla Íslands

Enn á ný fagna stórir sem smáir. Í vændum er nefnilega skordýraskoðun á vegum Háskóla Íslands og Ferðafélags barnanna í Elliðaárdal miðvikudaginn 9. júní kl. 18. Rýmkun stjórnvalda á samkomuhömlum gerir þetta kleift en viðburðurinn er í röð sem kallast Með fróðleik í fararnesti sem er samstarfsverkefni FÍ og HÍ. Vegna samkomutakmarkana þurfa þátttakendur að skrá sig á heimasíðu Ferðafélags Íslands.

Pödduskoðunin er einn allra vinsælasti viðburðurinn í fróðleiksröðinni þar sem fjölskyldufólk safnast saman við gömlu rafstöðina í Elliðaárdal og fær hjálp við að greina og skoða pöddur í smásjám. Að þessu sinni er því miður ekki hægt að nota smásjárnar vegna smithættu. 

Vísindamenn Háskólans mæta engu að síður með tól og tæki en krakkar og fullorðnir er hvött til að koma með stækkunargler sem gerir þetta vísindaævintýri miklu skemmtilegra.

Skordýr eru „svo falleg!“

Þótt mörgum finnist skordýr afar ógeðfelld þá er Gísli Már Gíslason, leiðsögumaður hjá Ferðafélagi Íslands og prófessor í líffræði við Háskóla Íslands, á allt öðru máli. Gísli Már mun leiða gönguna eins og undanfarin ár og hann veit líka að skordýr eru örlítið skyld manninum þótt við getum nú seint sagt að hrossaflugan sé systir okkar. „Menn og skordýr eiga sameiginlegan forföður í fyrndinni eða fyrir 550 milljónum ára svo skyldleikinn er nú frekar lítill,“ segir hann og hlær en bætir því við að það sé engu að síður margt sem geri skordýr afar heillandi.

„Í skjótu bragði get ég nefnt líkamsbyggingu skordýra, hæfni þeirra til að lifa í þurrlendi, þróun flugs og fjölda tegunda og fjölbreytileikann, sem gerir þau hæfust allra dýra til að lifa í öllum þurrlendisvistkerfum, frá miðbaug að pólum,“ segir þessi gangandi alfræðiorðabók en Gísli Már mun miðla fróðleik til fólks í Elliðaárdalnum miðvikudaginn 8. júní milli kl. 18 og 19:30. 

Gísli segir að mörg skordýr séu auk þess mjög falleg og það útskýri söfnun á skrautlegum skordýrum sem sett voru áður fyrr í ramma til sýnis. „Auk þess eru þetta frábær dýr til að gera tilraunir með vegna skamms lífsferils, flestra aðeins eitt ár eða skemmra.“

„Án skordýra værum við ekki á jörðinni því svo er líf okkar háð þeim. Þau eru einnig sorpeyðingartæki okkar, fjarlægja og éta plöntur og dýr sem drepast á skömmum tíma. Skordýr eru mikilvæg til alls konar rannsókna og síðast en ekki síst eru þau framtíðarprótein til manneldis. Býflugur safna líka sykri sem verður að hunangi í maga þeirra sem þær gubba síðan í hólf í búunum, sem er útbýtt til lirfanna sem fæða. Við borðum þetta líka,“ segir Gísli Már. MYND/Kristinn Ingvarsson

Lúsmýið er komið til að vera

Fjölmargar tegundir skodýra hafa bæst við fánu Íslands á undanförnum árum og það kann vel að vera að nýir landnemar verði uppgötvaðir í Elliðaárdalnum á miðvikudag. Á tímum loftslagsbreytinga hefur náttúran tekið ýmsum breytingum og ýmis ný skordýr eiga betri möguleika á að þrífast hér en framan af síðustu öld.

„Almennt má segja að tegundir sem eru í loftslagi hlýrra en var á Íslandi um miðja 20. öldina hafi komið og e.t.v. hafi kulsæknar tegundir horfið þó að við vitum það ekki,“ segir Gísli Már.

„Útbreiðsla tegunda á Íslandi hefur einnig færst til og tegundir eru að færa sig norðar í landið. Margir kannast við asparglyttu, sem er bjalla sem herjar á aspir og víðitegundir, og líka birkikembu, en lirfur þess fiðrildis herja á birki og fleiri tegundir runnaplantna. Allt eru þetta nýjar tegundir. Aðrar tegundir, eins og ertuygla hefur aukið útbreiðslu sína og sækir nú norðar í landið.“

Gísli Már segir að líklega hafi um 300 til 400 nýjar tegundir numið hér land á seinustu 30 árum.

„Mörg þeirra eru félagsskordýr. Þetta eru alskonar tegundir sem tengjast innflutningi plantna eða hafa borist með vindum frá Evrópu og fundið sér búsvæði á Íslandi. Má þar nefna geitungategundir og humlur, þó að algengustu tegundir geitunga hafi verið komnar nokkuð fyrr, eða fyrir 1980. Einnig vatnaskordýr, t.d. ein vorflugutegund og hið fræga lúsmý.“

Lúsmýið er tegund sem enginn elskar enda bítur hún fólk og margir verða illa fyrir barðinu á henni. Þótt við höfum fengið fjölda nýrra tegunda á síðustu árum og áratugum höfum við verið blessunarlega laus við sumt það sem angrar mjög nágrannaþjóðir okkar.

„Þar nefni ég fyrst og fremst moskítoflugur, en það eru um 30 til 40 tegundir þeirra á Norðurlöndum og Bretlandi,“ segir Gísli Már en bætir svo við. „Þær munu samt einhvern tímann hafa tækifæri til að setjast hér að.“

Hann segir að við séum líka heppin að hafa ekki kleggja hér. „Kleggi, sem er ein sársaukamesta tvívængjan sem bítur spendýr, er heldur ekki hér blessunarlega en hún er algeng á Norðurlöndum og í Evrópu.“

Skordýr eru gríðarlega mikilvæg öllu lífi

Burtséð frá öllu öðru þá eru skordýr gríðarlega mikilvæg í náttúrunni. Frjóvgun allra blómplantna er t.d. gerð af skordýrum og þar með frjóvgun margra nytjaplantna og ávaxta.

„Án skordýra værum við ekki á jörðinni því svo er líf okkar háð þeim. Þau eru einnig sorpeyðingartæki okkar, fjarlægja og éta plöntur og dýr sem drepast á skömmum tíma. Skordýr eru mikilvæg til alls konar rannsókna og síðast en ekki síst eru þau framtíðarprótein til manneldis. Býflugur safna líka sykri sem verður að hunangi í maga þeirra sem þær gubba síðan í hólf í búunum, sem er útbýtt til lirfanna sem fæða. Við borðum þetta líka.“

Gísli Már lofar fjöri og fræðum í árvissri skordýraskoðun í Elliðaárdal, miðvikudaginn 8. júní. Mæting er kl. 18 við gömlu rafstöðina við Elliðaár. Hann hvetur fólk til að taka með stækkunargler sem er ómissandi þarfaþing við skordýraskoðun. Ekki er verra að vera í vaðstígvélum.

Ef þú vilt sjá pöddur í návígi þá er þetta tækifærið sem þú mátt alls ekki missa af.