Ótal námsleiðir og viðburðir í Háskóla Íslands á Háskóladaginn | Háskóli Íslands Skip to main content
26. febrúar 2020

Ótal námsleiðir og viðburðir í Háskóla Íslands á Háskóladaginn

""

Um fjögur hundruð námsleiðir í grunn- og framhaldsnámi, skoðunarferð um nýjustu stúdentagarðana, tónlist og bardagakennsla, jarðskjálftahermir og hönnunarkeppni byggingarverkfræðinema ásamt Vísindahvísli um allt milli himins og jarðar er meðal þess sem bíður gesta sem heimsækja Háskóla Íslands á Háskóladaginn, laugardaginn 29. febrúar, milli klukkan 12 og 16. 

Háskóladagurinn er í senn frábært tækifæri til að kynna sér fjölbreytt námsframboð Háskólans og upplifa ótal viðburði, kynningar og uppákomur sem sýna vísindi og nýsköpun í litríku og lifandi ljósi.

Háskóli Íslands býður upp á um 400 námsleiðir í grunn- og framhaldsnámi og fulltrúar þeirra úr hópi kennara og nemenda taka vel á móti gestum víða á háskólasvæðinu og svara spurningum um allt milli himins og jarðar – eða því sem næst. Einnig fer fram kynning á margþættri og öflugri starfsemi og þjónustu Háskólans og þá geta gestir skoðað rannsóknastofur, tæki, búnað og húsakynni.

Hér er hægt að finna allar námsleiðir sem kynntar verða á háskólasvæðinu

Námskynningar á vegum einstakra fræðasviða Háskóla Íslands verða á eftirtöldum stöðum:

Félagsvísindasvið: Háskólatorg, 2. hæð
Heilbrigðisvísindasvið: Háskólatorg, 2. hæð
Hugvísindasvið: Aðalbygging, 2 hæð
Menntavísindasvið: Háskólatorg, 2. hæð
Verkfræði- og náttúruvísindasvið: Askja

Háskóladagurinn er í senn frábært tækifæri til að kynna sér fjölbreytt námsframboð Háskólans og upplifa ótal viðburði, kynningar og uppákomur sem sýna vísindi og nýsköpun í litríku og lifandi ljósi. Flestar byggingar skólans verða opnar og geta gestir kynnt sér rannsóknastofur, tæki, búnað og húsakynni ásamt 400 námsleiðum.

Vísindahvísl og veglegir viðburðir

Eins og alltaf á Háskóladaginn í Háskóla Íslands má finna fjölbreytta dagskrá í húsum skólans. Í Aðalbyggingu ráða listirnar og hugvísindin ríkjum en þar verður hægt að hlýða á spunaverk á skólahljóðfæri og Háskólakórinn, læra grundvallaratriði í Tai Chi, taka þátt í ljóðagjörningi og kynna sér fjölbreyttar fornleifar. Í Öskju geta gestir gætt sér að grilluðum pylsum, skoðað skrítnar skepnur á rannsóknastofum, kallað fram jarðskjálfta, flogið um heiminn á höndunum og fylgst með hönnunarkeppni byggingarverkfræðinema. Á Háskólatorgi verður hægt að kynna sér margháttaða þjónustu og félagslíf innan skólans, kíkja í Bóksölu stúdenta og Stúdentakjallarann og þá verður einnig farið í skoðunarferð frá Háskólatorgi í Mýrargarð, nýjustu stúdentagarðana á háskólasvæðinu, kl. 14.

Enn fremur verður í fyrsta sinn boðið upp á svokallað Vísindahvísl í Odda. Þar munu starfsmenn og stúdentar m.a. fjalla um jarðhræringarnar á Reykjanesi, falsfréttir, hryðjuverkaógn á Íslandi, þjóðfræði þorrans, efnafræðina í eldhúsinu og forsetakosningar í Bandaríkjunum í örfyrirlestrum en einnig verður þar fjallað um leiðina í rétta námið og nýjar og spennandi námsleiðir við skólann. Nánar um Vísindahvíslið.

Á Háskóladaginn verður líka opið í Vísindasmiðju Háskóla Íslands í Háskólabíói, en þar er allri fjölskyldunni boðið að upplifa vísindin með lifandi hætti, uppgötva og leika sér af hjartans lyst. Þar eru tæki, tól, tilraunir, þrautir og óvæntar uppgötvanir fyrir alla aldurshópa. 

Aðgangur er ókeypis á alla viðburði á opnu húsi Háskóla Íslands.

Auk Háskóla Íslands munu Háskólinn á Akureyri, Háskólinn á Hólum og Landbúnaðarháskóli Íslands verða með með námskynningu á háskólasvæðinu, nánar tiltekið á 1. hæð Háskólatorgs. Endurmenntun Háskóla Íslands og Háskólinn á Bifröst verða þar einnig ásamt Keili sem kynnir sína landsþekktu háskólabrú. 
Háskólinn í Reykjavík er með námskynningu í eigin húsakynnum við Öskjuhlíð og Listaháskóli Íslands kynnir sínar námsleiðir í eigin húsakynnum á Laugarnesvegi.
Boðið er upp á ókeypis strætóferðir á milli skóla.

Nánari upplýsingar um dagskrá Háskóladagsins í Háskóla Íslands eru á vef dagsins.

Frá Háskóladeginum 2019