Öflug starfsþróun eflir menntakerfið fyrir alla | Háskóli Íslands Skip to main content
2. september 2021

Öflug starfsþróun eflir menntakerfið fyrir alla

Öflug starfsþróun eflir menntakerfið fyrir alla - á vefsíðu Háskóla Íslands

„Það sem einkennir farsæla og árangursríka starfsþróun er að hún er beintengd daglegu starfi kennara og starfsfólks með börnum. Hún verður að vera skipulögð í kringum raunveruleg viðfangsefni starfsins og fela í sér samtal jafningja um breytta starfshætti. Þessa umgjörð reynum við að skapa í Menntafléttunni,“ segir Oddný Sturludóttir, verkefnisstjóri Menntafléttunnar. Tæplega eitt þúsund kennarar, starfsfólk af vettvangi frítímans, stuðningsfulltrúar, stjórnendur og annað starfsfólk skóla hafa skráð sig á starfsþróunarnámskeið á vegum verkefnisins.

Menntafléttan er viðamikið starfsþróunarverkefni í menntakerfinu sem hófst með fjórum námskeiðum síðasta vetur. Alls hafa 225 þátttakendur lokið námskeiðum og í haust hefjast tuttugu námskeið til viðbótar. Leitað var til sérfræðinga, framúrskarandi kennara og fræðafólks til að móta námsefni Menntafléttunnar sem byggist á nýjustu þekkingu og rannsóknum á sviði menntunar.

Margföldunaráhrif innan skólasamfélagsins

Rauði þráður Menntafléttunar er að ígrunda og þróa bestu starfshætti hverju sinni og styrkja þannig námssamfélög kennara um land allt. Að auki er sérstök áhersla á menntun til sjálfbærni og menntun fyrir alla.

Aðsóknin ein og sér segir þó ekki alla söguna. Væntingar standa til þess að hver einasti þátttakandi hafi framhaldsáhrif innan síns skólasamfélags. „Þátttakendur námskeiðanna eru svokallaðir leiðtogar sem vinna áfram á vettvangi með viðfangsefni námskeiðanna í litlum hópi samstarfsfólks. Menntafléttan styður þannig og eflir námssamfélög á vettvangi og nær í raun langt út fyrir þann hóp þátttakenda sem eru í námskeiðunum hverju sinni,“ lýsir Oddný en stuðst er við hugmyndafræði leiðtoganáms í Menntafléttunni og er hugmyndin að hluta til að sænskri fyrirmynd.

Frábærar viðtökur á landsbyggðinni

64% grunnskóla landsins og 44% leikskóla eiga fulltrúa á námskeiðum Menntafléttunnar. Þá eru 61% þátttakenda búsettir utan höfuðborgarsvæðisins. Oddný segir þessa góðu þátttöku landsbyggðarinnar vera mikið fagnaðarefni. „Verkefninu hefur verið tekið opnum örmum um land allt og er sérstaklega gaman að sjá hve margir fámennir jafnt sem fjölmennir skólar eiga leiðtoga á Menntafléttunni. Námskeiðin eru öll kennd í fjarnámi og byggjast fyrst og fremst á því að efla samfélög kennara og starfsfólks, hvar sem þau eru staðsett.“

Námskeiðin eru gjaldfrjáls og hugsuð fyrir kennara, starfsfólk og stjórnendur í leik-, grunn- og framhaldsskólum, listaskólum og frístundastarfi. Aðspurð um hvaða þekkingu er mest verið að sækjast eftir svarar Oddný að vinsælustu námskeiðin séu óbundin aldri nemenda og í raun námsgreinum. „Þetta eru til dæmis námskeiðin Leiðsagnarnám í hvetjandi námsumhverfi og Lestrarsamfélagið: Áhugahvöt og áhrifavaldar. Þá er afar góð þátttaka í forystunámskeiðinu okkar en skólastjórar leikskóla, grunnskóla og skólameistarar framhaldsskóla sitja það námskeið saman. Leikskólakennarar og starfsfólk hafa sótt mest í námskeið sem tengjast málörvun, bæði með sögum og söng og í gegnum samtal og samræður. Annað vinsælt námskeið fyrir bæði kennara og starfsfólk af vettvangi frítímans heitir Vellíðan, seigla og sjálfsmynd en það er heilt yfir mjög góð þátttaka í öllum námskeiðum.“

Heildarframlag mennta- og menningarmálaráðuneytis til verkefnisins nemur 131 milljón kr. á tímabilinu 2020-2022. Ljóst er að viðtökurnar hafa verið vonum framar. Er verkefnið komið til að vera? „Það vonum við svo sannarlega, viðtökurnar gefa til kynna að íslenskir kennarar, stjórnendur og starfsfólk í menntakerfinu fagna þessum möguleika til starfsþróunar. Við erum full tilhlökkunar fyrir vetrinum og gerum okkar besta til að standa undir þeim væntingum sem til okkar eru gerðar,“ segir Oddný að endingu.

Um Menntafléttuna

Menntafléttan er samstarfsverkefni Menntavísindasviðs Háskóla Íslands, Háskólans á Akureyri og Kennarasambands Íslands. Mennta- og menningarmálaráðuneytið styrkir Menntafléttuna um þróun og kennslu um 40 námskeiða sem eru kennurum og starfsfólki í menntakerfinu að kostnaðarlausu. Viðfangsefni námskeiða snerta fjölbreytt svið náms, kennslu, sjálfbærrar þróunar, vellíðunar, frístundastarfs og forystu.

Vefur Menntamiðju

„Það sem einkennir farsæla og árangursríka starfsþróun er að hún er beintengd daglegu starfi kennara og starfsfólks með börnum. Hún verður að vera skipulögð í kringum raunveruleg viðfangsefni starfsins og fela í sér samtal jafningja um breytta starfshætti. Þessa umgjörð reynum við að skapa í Menntafléttunni,“ segir Oddný Sturludóttir, verkefnisstjóri Menntafléttunnar. Tæplega eitt þúsund kennarar, starfsfólk af vettvangi frítímans, stuðningsfulltrúar, stjórnendur og annað starfsfólk skóla hafa skráð sig á s