Skip to main content
18. desember 2020

Nýtt námskeið í leikskólakennarafræðum fyrir nemendur af erlendum uppruna

Nýtt námskeið í leikskólakennarafræðum fyrir nemendur af erlendum uppruna  - á vefsíðu Háskóla Íslands

Samtal um fagið – leikskóli og fjölmenning er nýtt námskeið sem er hannað fyrir háskólanema af erlendum uppruna sem stunda nám í leikskólakennarafræði við Háskóla Íslands. Námskeiðið er liður í aðgerðaáætlun Háskólans sem snýst um að styrkja leikskólakennaranám og leikskólastarf í fjölmenningarsamfélagi. Þá er þetta fyrsta námskeið sinnar tegundar innan skólans sem gagngert er ætlað að styðja við nemendur af erlendum uppruna í ákveðinni námsgrein.  

Fyrirkomulagið er með þeim hætti að nemendur mæta tvisvar í mánuði yfir önnina, 90 mínútur í senn. Námið fer fram í formi umræðu og verkefnavinnu í staðbundnum tímum og í námsumsjónarkerfinu Canvas. Áhersla er á sjálfstæða vinnu, ábyrgð og þátttöku nemenda. Viðfangsefni námskeiðsins eru meðal annars aðalnámskrá leikskóla, menningarnæmi, málörvun og menntun fyrir öll. Boðið verður upp á aðstoð við ritun verkefna og lestur fræðigreina. 

„Í leikskólum Reykjavíkurborgar eru um 18% barna af erlendum uppruna og í nokkrum skólum er hlutfallið hærra. Hópur leikskólastarfsmanna með annað móðurmál en íslensku hefur vaxið gríðarlega undanfarin ár samhliða auknum fólksflutningum hingað til lands. Það er því afar brýnt að leikskólastarf í nútímasamfélagi endurspegli fjölbreytileika mannlífsins,“ segir Kristín Karlsdóttur, umsjónarmaður námskeiðsins og bætir við að framlag barna af erlendum uppruna og foreldra þeirra auðgar daglegt starf leikskólanna með ýmsu móti og skapar tækifæri til að kynnast annarri menningu og tungumálum. 

Námskeiðið er til fimm eininga og er það einnig opið öðrum nemendum sem vilja styrkja sig í faglegri umræðu um skólastarf. Fjórir erlendir starfsmenn kenna námskeiðið, þau Artem Ingmar Benediktsson, Susan Rafik Hama, Renata Emilsson Pesková og Anna Katarzyna Wozniczka en öll hafa þau feiknamikla reynslu á sviði fjölmenningar og kennslufræða. 

Nánari lýsingu á námskeiðinu er að finna í kennsluskrá. Opið er fyrir endurskoðun skráninga í Uglu til 21. janúar 2021 en sama dag er fyrsta kennslustund námskeiðsins. 

Samtal um fagið – leikskóli og fjölmenning er nýtt námskeið sem er hannað fyrir háskólanema af erlendum uppruna sem stunda nám í leikskólakennarafræði við Háskóla Íslands. Námskeiðið er liður í aðgerðaáætlun Háskólans sem snýst um að styrkja leikskólakennaranám og leikskólastarf í fjölmenningarsamfélagi.