Skip to main content
5. apríl 2023

Nýtt meistaranám í viðskiptafræði á ensku

Nýtt meistaranám í viðskiptafræði á ensku - á vefsíðu Háskóla Íslands

Í stefnu Háskóla Íslands, HÍ26, er sérstök áhersla á að þróa alþjóðleg námskeið m.a. fyrir innlenda og erlenda nemendur til að auðvelda flæði þeirra og fræðafólks. Í sömu stefnu er jafnframt tilgreint að Háskólinn sé opinn og alþjóðlegur. Ný námsleið á meistarastigi þar sem boðið er alfarið upp á viðskiptafræði á ensku rímar afar vel við þessa þætti í stefnunni. Forstöðumaður námsleiðarinnar, Inga Minelgaite, prófessor við Viðskiptafræðideild, segir að línan sé þróuð til að mæta breytingum í íslensku samfélagi en námið henti t.d. í flestum tilvikum einkar vel ört stækkandi hópi Íslendinga af erlendum uppruna. Þá sé námið jafnframt hugsað sem öflugur valkostur fyrir erlenda nemendur í viðskiptafræði sem vilji setjast á skólabekk á Íslandi.   

„Við erum þannig að að mæta þörfum eins og þær eru núna og í nánustu framtíð. Með námi á ensku erum við einnig að tengja okkur betur við alþjóðleg samstarf, ekki síst á sviði viðskipta, en enskan er þar lykiltunga,“ segir Inga sem er prófessor í verkefnastjórnun við HÍ. 

Námið getur nýst mjög mörgum

Námið verður strax boðið næsta haust og er því hægt að sækja um það til 15. apríl næstkomandi. 

Inga segir að nýja leiðin opni námsmöguleika á meistarastigi fyrir fjölmarga sem ekki gátu áður sest á skólabekk sökum tungumálaþröskulda. Hún segir að fjöldi einstaklinga sem búi hér og hafi lokið grunnnámi erlendis geti leitað eftir því að fá það nám sitt metið og fengið inngöngu í námsleiðina að loknu matinu. Þá sé fjöldi einstaklinga með menntun á öðrum sviðum en í viðskiptafræði en vilji hugsanlega bæta við sig þekkingu þar til að styrkja sig á sviði nýsköpunar eða til að stofna sprotafyrirtæki.

„Svo er reyndar fjöldi Íslendinga sem hefur menntast og búið erlendis, jafnvel í mörg ár, og hefur tileinkað sér hugtök á erlendum málsvæðum. Þeir tala mjög góða íslensku en hafa t.d. útskrifast úr viðskiptanámi í ensku erlendis. Þessir einstkalingar geta þannig kosið að halda áfram námi í ensku þótt þeir flytji hingað heim,“ segir Inga. 

Hún bætir því að í svona námi séu gjarnan einstaklingar frá fjölmörgum þjóðlöndum og meninngarsamfélögum sem skapi ný tækifæri fyrir nemendur og samfélagið okkar því þarna séu þróuð tengslanet til langframa og ný þekking myndist á hverjum degi sem geti fætt af sér viðskiptahugmyndir sem þróast oft yfir í sprotafyrirtæki. 

„Það má heldur ekki gleyma því að línan er 90 ECTS einingar og tekur aðeins eitt ár. Þetta er því rakið tækifæri fyrir þá sem geta ekki skuldbundið sig til tveggja ára náms sem er venjulega tilhögunin á meistaranámi.“

Áhersla alþjóðasviðskipti og verkefnastjórnun

Tvær megináherslur eru í þessari nýju námslínu að Ingu sögn, umhverfi alþjóðaviðskipta og verkefnastjórnun.

„Við sjáum merki um mikilvægi alþjóðaviðskipta alls staðar í umhverfi okkar. Ef við bara horfum til hversu mikið Íslendingar flytja út af varningi og þjónustu og sömuleiðis hvað mikið kemur inn af því sama þá sjáum við hvað heimurinn er samofinn viðskiptalega. Því munu nemendur læra  m.a. um alþjóðleg viðskipti, samkeppnishæfni þjóða og augum er líka beint að fjölbreytni í stjórnun. Þá er rík áhersla á stjórnun verkefna.Við lifum á öld verkefnavæðingar þar sem verkefnin verða sífellt fleiri og flóknari. Í þessu umhverfi á sér stað alþjóðlegt samstarf á grunni verkefnanna. Þetta krefst þess að stjórnendur búi yfir sértækri þekkingu til að vera skilvirkari og ná æ flóknari markmiðum. Þess vegna munu nemendur meðal annars læra um alþjóðleg verkefni, verkefnasöfn, árangur og eftirlit með verkefnum.“

Mjög mikilvægt fyrir HÍ að bjóða nám á ensku

Inga segir að nýja námslínan rími við gríðarlega margt í starfi og stefnu Háskóla Íslands. Þaning sé hún í takti við stefnu skólans um að vera alþjóðlegur og opinn, hún mæti markmiðum um alþjóðatengsl, miði að framförum, fjölbreytileika og ýti undir nýsköpun. „Námið er líka í takti við samstarfsverkefni innan Aurora-netsins sem HÍ leiðir núna þar sem fjölbreytni og alþjóðlegt samstarf er í forgangi.“ 

Inga segir að HÍ sé einstaklega mikilvægur partur af íslensku samfélagi þar sem ný þekking og tækifæri skapist og þeim sé miðlað áfram. HÍ veiti í formi prófgráða nokkurs konar farseðil inn í alþjóðlegt umhverfi og það sé vissulega styrkur í alþjóðlegu umhverfi að hafi menntað sig á máli sem þar sé talað. Inga segir að námið byggist á greiningu þarfa sem hafi átt sér stað í íslensku samfélagi sem hafi m.a. falist í samskiptum við fjölbreyttan hóp hagsmunaaðila á borð við sendiráð, fyrirtæki og allskyns samtök sem hafi staðfest þörfina fyrir námi af þessum toga. 

„Einnig má ekki gleyma því að námsleiðir á ensku hér opna nemendum okkar og nemendum erlendra háskóla enn frekari tækifæri til að nýta sér skiptinám. Erasmus-áætlunin, eitt allra farsælasta verkefni ESB, hefur veitt íslenskum námsmönnum fjölmörg tækifæri til að taka hluta af námi sínu erlendis og hingað hafa komið nemendur erlendis frá í sama tilgangi. Með þessari breyting bætum við enn frekar möguleika erlendra nemenda að taka námslínur hér á tungumáli sem er þeim tamt.“ 

Inga Minelgaite