Skip to main content
2. júní 2023

Nýjar sviðsmyndir af vinnurýmum kynntar á misserisþingi Menntavísindasviðs 

Nýjar sviðsmyndir af vinnurýmum kynntar á misserisþingi Menntavísindasviðs  - á vefsíðu Háskóla Íslands

Misserisþing Menntavísindasviðs þar sem nýjar sviðsmyndir af vinnurýmum í Sögu voru kynntar, kynningarfundur um hönnun náms- og kennslurýma 8. maí síðastliðinn og sameining Bókasafns Menntavísindasviðs HÍ og Landsbókasafns Íslands-Háskólabókasafns í nýrri frétt um flutning Menntavísindasviðs í Sögu.

Misserisþing Menntavísindasviðs fór fram í Öskju þann 31. maí sl. Fundarstjórar voru Berglind Rós Magnúsdóttir, prófessor og Jakob Frímann Þorsteinsson aðjúnkt við Menntavísindasvið. Meginviðfangsefni þingsins var flutningur sviðsins í Sögu með áherslu á vinnurými starfsfólks. Þá var kær samstarfskona á sviðinu, Svanborg R. Jónsdóttir kvödd en hún lauk nýverið störfum á sviðinu. Kolbrún Þ. Pálsdóttir, forseti sviðsins, hélt ávarp og ræddi nýja sviðsmynd og aukið rými í Sögu​, sjálfsmat rannsókna og aðgerðaráætlun​. Hún minnti á að rannsóknir og þekkingarleit séu kjarni alls háskólastarfs og eigi að endurspeglast í námi og kennslu og allri starfsemi sviðsins.​ Dagbjört Ósk Jóhannsdóttir, forseti sviðsráðs, ávarpaði fundinn og ítrekaði mikilvægi þess að tekið verði mið af þörfum nemenda í Sögu hvað varðar náms- og kennslurými. Kristján Garðarsson arkitekt kynnti uppfærðar teikningar af í Sögu og í kjölfarið fóru fram umræður. Þá fór fram hópavinna þar sem ræddar voru nýjar sviðsmyndir af vinnurýmum í Sögu og hvaða viðmið ætti að hafa til hliðsjónar við skipulag og úthlutun rýma. Afurð hópavinnu á misserisþinginu fer í nánari vinnslu á vegum starfshóps um flutning í Sögu. Á þinginu var því fagnað að mikilvægur áfangi hefur náðst þar sem raunhæfar lausnir eru í sjónmáli um vinnurými. Í lok þings var boðið upp á léttar veitingar og Auður Jónsdóttir, sem var leynigestur, sló á létta strengi enda ber að fagna öllum vörðum í því umfangsmikla ferli sem undirbúningur flutninga sviðsins í Sögu er. 

Hönnun náms- og kennslurýma kynnt 8. maí 

Starfsfólki Menntavísindasviðs var boðið til kynningarfundar mánudaginn 8. maí þar sem drög að hönnun náms- og kennslurýma auk fjölnotarýma í Sögu voru kynnt. Markmiðið var að skoða og ræða drög að 0.,1., 2., 3., og 8. hæð og gefa starfsfólki kost á að setja fram ábendingar. Forseti sviðsins, Kolbrún Þ. Pálsdóttir, ávarpaði fundargesti í upphafi og fór yfir framtíðarsýn og megingildi sem höfð eru að leiðarljósi við flutninginn í Sögu. Svavar Jósefsson, rekstrarstjóri sviðsins, sagði nokkur orð um þarfagreiningar og forsendur hönnunar. Eyjólfur Brynjar Eyjólfsson, forstöðumaður Nýsköpunar og menntasamfélags, og Torfi Hjartarson, lektor í kennslufræði og upplýsingatækni, kynntu afrakstur vinnuhóps um STEAM í Sögu, samlegðaráhrif og ávinning fyrir Menntavísindasvið. Kristján Garðarsson, arkitekt hjá Andrúm kynnti þá tillögur að hönnun náms- og kennslurýma auk fjölnotarýma á 0.-3. hæð og 8. hæð í Sögu. Að því loknu áttu sér stað pallborðsumræður þar sem tóku þátt Kristján Garðarsson arkitekt, Þórdís Gísladóttir, deildarforseti HÍT, Hanna Ólafsdóttir, lektor í FAG, Svava Pétursdóttir, lektor í KM, Torfi Hjartarson, lektor í FAG og Berglind Rós Magnúsdóttir, deildarforseti MM. Fjöldi góðra spurninga og ábendinga bárust úr sal. Auk þess gafst starfsfólki og starfseiningum sviðsins kostur á að senda ábendingar að fundinum loknum. Ýmsar ábendingar bárust sem unnið var úr fyrir uppfærða kynningu á náms- og kennslurýmum á misserisþingi Menntavísindasviðs þann 31. maí. 

Sameining Bókasafns Menntavísindasviðs HÍ og Landsbókasafns Íslands-Háskólabókasafns 

Á fundi háskólaráðs þann 1. júní 2023  var samþykkt framlögð tillaga um sameiningu Bókasafns Menntavísindasviðs HÍ og Landsbókasafns Íslands - Háskólabókasafns. Áætlað er að af sameiningunni verði þann 1. júlí 2024 samhliða flutningum Menntavísindasviðs í Sögu. Tillagan var lögð fram af starfshópi til að undirbúa sameininguna sem rektor og landsbókavörður ákváðu að skipa á fundi 4. mars 2022. Starfshópinn skipuðu f.h. HÍ Gunnhildur Björnsdóttir, forstöðumaður bókasafns Menntavísindasviðs, Svavar Jósefsson, rekstrarstjóri MVS, Áslaug B. Eggertsdóttir, Menntasmiðju MVS, Guðmundur R. Jónsson, framkvæmdastjóri miðlægrar stjórnsýslu HÍ, og Halldór Jónsson sviðsstjóri og f.h. Landsbókasafns - Háskólabókasafns Ingibjörg Steinunn Sverrisdóttir landsbókavörður, Guðrún Tryggvadóttir sviðsstjóri og Edda Björgvinsdóttir fjármálastjóri. 

Myndir: Kristinn Ingvarsson

Sviðsþing Menntavísindasvið 31. maí
Sviðsþing Menntavísindasvið 31. maí
Sviðsþing Menntavísindasvið 31. maí
Sviðsþing Menntavísindasvið 31. maí
Sviðsþing Menntavísindasvið 31. maí
Sviðsþing Menntavísindasvið 31. maí
Sviðsþing Menntavísindasvið 31. maí