Skip to main content
18. febrúar 2020

Nýir tónar og gamlir á Háskólatónleikum     

Blóðberg flytur nýja og gamla tónlist á háskólatónleikum í kapellunni í Aðalbyggingu þann 19. febrúar. Frumflutt verður nýtt verk, Tangó, eftir Harald V. Sveinbjörnsson. Einnig verður flutt tónlist eftir Girolamo Frescobaldi, Dario Castello og Isaac Albéniz.

Blóðberg skipa Helga Aðalheiður Jónsdóttir, blokkflauta, Svanur Vilbergsson, gítar og Kristín Lárusdóttir, selló/víóla da gamba.

Helga Aðalheiður Jónsdóttir hóf tónlistarnám sitt ung. Fljótt lá leiðin í Tónlistarskóla Kópavogs þar sem Kristín Stefánsdóttir var aðalkennari hennar. Þá hóf hún nám við Tónlistarskólann í Reykjavík og þaðan lauk hún blokkflautukennara- og burtfararprófi. Helga sótti framhaldsmenntun sína í Schola Cantorum Baseliensis í Sviss og til Camillu Söderberg. Hún hefur sótt ýmis barokknámskeið austan hafs sem vestan og notið þar leiðsagnar Marion Verbruggen, Walter van Hauwe og Nancy Daly o.fl. 

Helga hefur starfað sem blokkflautukennari um árabil, kennt m.a. við Listaháskóla Íslands, Tónmenntaskóla Reykjavíkur og Tónlistarskóla Kópavogs en lengst af við Tónlistarskóla Reykjanesbæjar. Hún kennir nú við Tónlistarskóla Hafnarfjarðar. Hún kemur reglulega fram á tónleikum, er félagi í kammerhljómsveitinni ReykjavíkBarokk, í kammerhópnum Custos og Blokkflautuhópnum. Á tónleikunum í dag stígur Helga á stokk með nýjustu sveit sinni, Blóðbergi. Hún leikur hér á flautur frá Bodil Diesen, Bruno Reinhard, Adrian Brown og Yamaha.

Kristín Lárusdóttir lauk námi á selló frá Tónlistarskólanum í Reykjavík. Hún var við framhaldsnám í sellóleik og sellókennslufræðum í Finnlandi á árunum 1999-2004 en árið 2004-2005 við tónlistarháskólann Trinity College of Music í London. Þar var klassískt selló aðalviðfangsefni hennar en að auki stundaði hún nám við barokkdeildina þar sem bæði barokkselló og víola da gamba voru hljóðfæri hennar. Hún hefur lokið ýmsum áföngum í djasstónlist frá FÍH og Trinity College of Music. Einnig hefur hún numið hljómsveitarstjórnun.

Kristín lauk framhaldsprófi í raftónlist vorið 2013 frá Tónlistarskólanum í Kópavogi. Hún hefur gefið út tvo einleiksdiska, Hefring og Himinglæva. Hún leikur þar á selló eigin tónsmíðar; útsetningarnar eru líka hennar. Kristín hefur sótt námskeið í raftónlist hjá Xavier Jacques, Mike Vamp og einkatíma hjá Sjoerd van der Sanden veturinn 2015-2016. Kristín er félagi í kammerhópunum Fimm í Tangó, ReykjavíkBarokk, Íslenskum strengjum og Blóðbergí.

Svanur Vilbergsson hefur haldið einleikstónleika víða um heim, m.a. í Bandaríkjunum, Hollandi, á Spáni, í Englandi, Belgíu og á Írlandi. Á meðal nýlegra verkefna eru tónleikar á Inishowen International Guitar Festival á Írlandi, Semersooq gítarhátíðinni á Grænlandi, Sommer-Melbu hátíðinni í Noregi og Reykjavík Classics tónleikaröðinni í Eldborgarsal Hörpu en hann varð fyrstur klassískra gítarleikara til að leika einleik í þeim sal. Hann hefur komið fram í sjónvarpi í Bandaríkjunum og á Spáni og var valinn fyrir Íslands hönd til þátttöku í norsk-íslenska menningarverkefninu Golfstraumnum. Spænska tónskáldið Mateu Malondra Flaquer tileinkaði honum verk fyrir einleiksgítar og í febrúar 2014 frumflutti hann ásamt Kammersveit Reykjavíkur gítarkonsertinn Halcyon Days eftir Oliver Kentish; verkið var tileinkað Svani. 

Árið 2011 kom út fyrsti einleiksdiskur Svans, Four Works, og var honum verið einkar vel tekið. Svanur er einn listrænna stjórnenda og stofnenda alþjóðlegu gítarhátíðarinnar Midnight Sun Guitar Festival og er félagi í Íslenska gítartríóinu sem hefur sérhæft sig í flutningi á íslenskri samtímatónlist. Svanur kennir meðal annars klassískan gítarleik við Tónlistarskólann í Reykjavík og Listaháskóla Íslands.

Haraldur Vignir Sveinbjörnsson lauk burtfararprófi í píanóleik frá Tónlistarskóla Kópavogs árið 1997, tónsmíðanámi frá tónfræðibraut Tónlistarskólans í Reykjavík árið 2001 og meistaraprófi í tónsmíðum frá Tónlistarháskólanum í Malmö árið 2004. Haraldur hefur komið víða við í tónlistarlífinu og samið allt frá framsækinni rokktónlist til hefðbundinna tónsmíða.

Tónleikarnir hefjast kl. 12.30. Enginn aðgangseyrir er að tónleikunum og öll velkomin.

 

Blóðberg skipa Helga Aðalheiður Jónsdóttir, blokkflauta, Svanur Vilbergsson, gítar og Kristín Lárusdóttir, selló/víóla da gamba.