Skip to main content
28. janúar 2020

Nýir samstarfsskólar HÍ í Mexíkó og Singapúr

Nú hafa Universidad Nacional Autónoma de México (UNAM) og National University of Singapore (NUS) bæst í hóp yfir fjögurhundruð samstarfsskóla Háskóla Íslands. Nemendum HÍ gefst kostur á að fara í skiptinám við skólana á næsta skólaári en umsóknarfrestur um skiptinám rennur út 3. febrúar n.k.

Universidad Nacional Autónoma de México (UNAM) er fyrsti samstarfsskóli HÍ í Mexíkó og er efstur á lista yfir bestu háskóla landsins. Yfir 350 þúsund nemendur stunda nám við UNAM en hann er stærsti háskólinn í Rómönsku Ameríku. Samstarfið er einkum á sviði viðskiptafræði og hagfræði og geta nemendur á öllum námsstigum sótt um skiptinám við skólann. Boðið er upp á námskeið á spænsku og fjölda námskeiða á ensku.

Nemendum HÍ gefst frábært tækifæri til að stunda hluta af  náminu við virtan háskóla í einni af mest spennandi stórborgum heims. Aðal háskólasvæðið í Mexíkóborg er skráð á heimsminjaskrá UNESCO og þar eru almenningsgarðar og risaveggmyndir eftir nokkra af frægustu listamönnum Mexíkó, þar á meðal Diego Rivera. 

National University of Singapore (NUS) er í 25. sæti á Times Higher Education (THE) listanum og er jafnan talin einn af fimm bestu háskólum Asíu. Samningurinn við NUS nær til fimm fræðasviða innan skólans, hugvísinda, félagsvísinda, verkfræði, raunvísinda, tölvunarfræði og umhverfisvísinda. Nemendur í grunnnámi við HÍ geta sótt um að fara í skiptinám til NUS. Yfir 40 þúsund nemendur stunda nám við NUS í sautján deildum. Skólinn er í miðborg Singapúr. 

Opið er fyrir umsóknir um skiptinám við yfir 400 samstarfsskóla Háskóla Íslands um allan heim. Árlega nýta sér fjölmargir að taka hluta af námi sínu erlendis og fá skiptinámið metið inn í námsferilinn við HÍ. Frestur til að sækja um skiptinám skólaárið 2020-2021 er 3. febrúar.

Frekari upplýsingar um skiptinám

Unam
Nus