Nýir fulltrúar kjörnir í háskólaráð | Háskóli Íslands Skip to main content
5. júní 2020

Nýir fulltrúar kjörnir í háskólaráð

Frá fundi háskólaráðs

Háskólaþing Háskóla Íslands valdi í dag sex fulltrúa háskólasamfélagsins úr röðum akademískra starfsmanna skólans til setu í háskólaráði til næstu tveggja ára.

Auglýst var eftir framboðum og ábendingum um fulltrúa í háskólaráð á dögunum og bárust sex framboð. Allir frambjóðendur uppfylltu skilyrði reglna Háskóla Íslands um framboð og fór kosningin fram með rafrænum hætti í ljósi samfélagsaðstæðna.

Atkvæðisrétt höfðu rektor, forsetar fræðasviða, deildarforsetar, fulltrúar kjörnir af fræðasviðum, fulltrúar stéttarfélaga starfsmanna og stjórnsýslu ásamt fulltrúum tengdra stofnana og samstarfsstofnana. Fulltrúar stúdenta höfðu ekki atkvæðisrétt í þessari kosningu þar sem þeir kjósa sína tvo fulltrúa í háskólaráði í sérstakri kosningu. Með atkvæðisrétt fóru samtals 56 þingfulltrúar og atkvæði greiddi 51 og kjörsókn því 90%.

Niðurstöður kosninganna urðu þær að Ólafur Pétur Pálsson, prófessor við Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild á Verkfræði- og náttúruvísindasviði, Ingibjörg Gunnarsdóttir, prófessor við Matvæla- og næringarfræðideild á Heilbrigðisvísindasviði, og Jón Ólafsson, prófessor við Íslensku- og menningardeild og Mála- og menningardeild á Hugvísindasviði, hlutu flest atkvæði og verða því aðalmenn í háskólaráði. Freydís Jóna Freysteinsdóttir, dósent við Félagsráðgjafardeild á Félagsvísindasviði, Ragna Kemp Haraldsdóttir, lektor við Félagsfræði-, mannfræði- og þjóðfræðideild á Félagsvísindasviði, og Þórir Jónsson Hraundal, lektor við Mála- og menningardeild á Hugvísindasviði verða varamenn þeirra í ráðinu.

Fulltrúarnir taka sæti í háskólaráði frá og með 1. júlí næstkomandi og sitja í ráðinu til loka júnímánaðar 2022.

Ólafur Pétur Pálsson, Ingibjörg Gunnarsdóttir og Jón Ólafsson