Skip to main content
11. nóvember 2020

Ný bók um menningararf og menningareignir

Ný bók um menningararf og menningareignir - á vefsíðu Háskóla Íslands

Í síðustu viku gaf Cambridge-háskólaforlagið út bók um menningararf og menningareignir eftir þá Valdimar Tr. Hafstein, prófessor í þjóðfræði við Háskóla Íslands, og Martin Skrydstrup, dósent við Copenhagen Business School. Bókin heitir Patrimonialities: Heritage vs. Property.

„Í bókinni rannsökum við m.a. handritamálið milli Íslands og Danmerkur, skil á menningarminjum til Grænlands, kröfur Grikkja um skil á styttunum úr Meyjarhofinu frá British Museum, kröfur skoskra sjálfstæðissinna til Lewis-taflmannanna, verndun leikhúshefða í Kerala-héraði á Indlandi, Vimbuza-lækninga í Malaví og alþýðulista á Jemaa el-Fna markaðstorginu í Marrakess ... tja, bara svo nokkuð sé nefnt,“ segir Valdimar. 

„Bókin er framlag til þverfaglegs samtals milli þjóðfræðinga, mannfræðinga, safnafræðinga, fornleifafræðinga, listfræðinga og lögfræðinga og byggist á áralöngum rannsóknum hvors okkar um sig, því Martin hefur beint sjónum að skilum á menningareignum en ég að verndun á menningararfi á alþjóðavísu, átökunum í kringum þetta, úrræðum, orðræðu, sérfræðingum og stofnanakerfi. Nú erum við búnir að leggja þetta í púkk. Um leið og við byrjuðum þá áttuðum við okkur á hvað samanburðurinn leiðir margt nýtt í ljós og gefur okkur alveg nýja vinkla á gömul viðfangsefni.“ 

Samstarfið hefur verið ótrúlega gefandi, segir Valdimar, en þeir Martin kynntust fyrir 18 árum í finnskum sumarskóla fyrir doktorsnema þegar þeir voru báðir við nám í Bandaríkjunum. Þeir áttuðu sig strax á því hve rannsóknarsvið þeirra rímuðu vel saman þótt annar væri að læra til þjóðfræðings og hinn til mannfræðings. „Handritið að bókinni gekk svo oft á milli okkar að ef frá eru taldar nokkrar blaðsíður þá get ég alls ekki með góðu móti greint á milli hans orða og minna eigin,“ segir Valdimar. 

Valdimar og Martin hafa áður birt saman tvær greinar um skyld efni en önnur þeirra varð kveikjan að þessari bók: „Ritstjórar frá Cambridge-háskólaforlaginu settu sig í samband við okkur og buðu okkur að þróa röksemdafærsluna á bókarformi, sem var skemmtileg áskorun og frábært tækifæri til að dýpka bæði okkar samstarf og þessar pælingar. Bókin hleypir af stað nýrri ritröð forlagsins um gagnrýnin menningararfsfræði (e. Critical Heritage Studies) og það má lýsa henni sem langri ritgerð en hún er rétt rúmar 100 blaðsíður að lengd,“ bætir Valdimar við.

Handritamálið sett í stærra samhengi

„Menningareignir, menningararfur, menningarskil og menningarnám eru sjóðheit efni þessa dagana, ekki bara í vísindaritum heldur um samfélagið allt og um allan heim. Nú síðast í fyrra endurreisti jú Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra kröfur til íslenskra handrita í dönskum söfnum en við tökum handritamálið einmitt fyrir í bókinni, þar á meðal nýjasta útspilið, og setjum í stærra samhengi. Þar má nefna að í hitteðfyrra gaf Emmanuel Macron, forseti Frakklands, út kjarnmikla og rökstudda yfirlýsingu fyrir hönd franskra stjórnvalda, sem hefur hrist upp í öllum safnaheiminum, um að hefja beri stórfelld skil á minjum af evrópskum söfnum til Afríku: 95% menningarminja frá Afríku er að finna utan álfunnar á meðan 60% af íbúum Afríku eru undir tvítugu; þegar þetta er lagt saman blasir við stórkostlegt menningarrof, minnisglöp, firring og þaðan af verra. Kröfur til menningareigna kalla fram nýlendutengsl, heimsvaldastefnu og arðrán í nafni listmarkaða, menningarstofnana og vísinda. Sums staðar blæðir enn úr sárunum sem þetta hefur skilið eftir, annars staðar nota popúlistar þetta til að berja sér á brjóst, skerpa skilin á milli okkar og hinna, hræra í tilfinningum kjósenda og afla sér fylgis. Raunar getur þetta vel farið saman. Það er mikilvægt að átta sig á því hvað þarna er á ferðinni.“ 

„Menningareignir, menningararfur, menningarskil og menningarnám eru sjóðheit efni þessa dagana, ekki bara í vísindaritum heldur um samfélagið allt og um allan heim. Nú síðast í fyrra endurreisti jú Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra kröfur til íslenskra handrita í dönskum söfnum en við tökum handritamálið einmitt fyrir í bókinni, þar á meðal nýjasta útspilið, og setjum í stærra samhengi,“ segir Valdimar Tr. Hafstein.

Skýr munur á menningareignum og menningararfi

Með vísan í dæmi frá Evrópu, Ameríku, Afríku, Asíu og úr Kyrrahafinu halda Valdimar og Martin því fram í bókinni að skýr munur sé á því að nálgast hluti og hefðir sem menningareignir annars vegar og sem menningararf hins vegar. Kröfur um skil á menningareignum eru, sýna þeir fram á, fullveldisyfirlýsing sem byggir undir sjálfstæðisbaráttu og dregur skýr mörk milli þjóða og samfélaga með vísan í lög, sáttmála, samninga og hið alþjóðlega ríkjakerfi sem mótaðist á 20. öld. Verndun menningararfs er aftur á móti umbótatækni sem reynir að vekja fólk til ábyrgðar, breyta sjónarhorni þess, móta sjálfmyndir og binda það sterkum böndum um leið og hún flækir það í tengslakerfum sem byggja á sérfræðiþekkingu og stjórnsýslu. 

Stofnanakerfi og orðræða menningareignar mótaðist í kjölfar síðari heimsstyrjaldarinnar um leið og Sameinuðu þjóðirnar og sem andsvar við gegndarlausri eyðileggingu og ránum á menningarminjum og listaverkum. Orðræða og stofnanir menningararfsins eru yngri og mótuðust að stærstum hluta á síðasta aldarfjórðungi 20. aldar og í byrjun þeirrar 21. eftir endalok nýlendutímans og hlúa að samvinnu um verndun og varðveislu. Einstök tilvik (þ.á m. handritamálið) flakka að vísu fram og til baka milli krafna sem vísa í lög og rétt í nafni menningareigna annars vegar og ágreinings og lausna sem vísa í siðferði og varðveislu undir merkjum menningararfs hins vegar en Valdimar og Martin halda því fram að engu að síður og einmitt þess vegna skipti máli að gera greinarmun á menningareignum og menningararfi enda lýsi skilningur á þessum greinarmun upp hvað er að gerast hverju sinni. 

„Bókin er fyrst og fremst skrifuð sem framlag til gagnrýninna fræða eða fræðilegrar gagnrýni en okkur hefur þegar borist til eyrna að það eigi að nota hana í kennslu við einhverja háskóla í Bandaríkjunum og í Evrópu á næsta ári. En um leið finnst okkur bókin líka gefa tilefni til að skerpa á umræðunni um verndun menningararfs og skil menningareigna sem getur verið dálítið ruglingsleg og moðkennd og stundum beinlínis villandi þar sem skarpari skilningur getur að okkar mati hjálpað til að tálga niður kjaftæðið og að leita skapandi lausna á raunverulegum og flóknum viðfangsefnum á menningarsviðinu.“
Bókin er á meðal fleiri en 30.000 rafbóka í Cambridge Core safninu sem Landsbókasafnið er áskrifandi að og geta áhugasamir nálgast bókina þar í gegn eða tryggt sér eintak frá útgefanda hér.

Valdimar Tr. Hafstein og kápan