Neyðarsvörun 112 kennd í Háskóla Íslands | Háskóli Íslands Skip to main content
28. júní 2021

Neyðarsvörun 112 kennd í Háskóla Íslands

Neyðarsvörun 112 kennd í Háskóla Íslands - á vefsíðu Háskóla Íslands

Háskóli Íslands og Neyðarlínan hafa gert með sér samstarfssamning með það að markmiði að efla rannsóknir og kennslu í neyðarsvörun. Samkvæmt samningnum verður haldið námskeið í „Neyðarsvörun 112“ á vormisserum 2022 og 2023. Námskeiðið verður valkvætt í grunnnámi í Félagsráðgjafardeild á Félagsvísindasviði skólans sem annast framkvæmd samningsins af hálfu háskólans og ber faglega ábyrgð á verkefninu.

Þáttur háskólans í þessu verkefni er að leggja til kennsluhúsnæði og umsjónarkennara en Neyðarlínan kostar kennslu kennara á námskeiðinu ásamt því að veita tíma í starfsþjálfun og hlustun. Umsjónarkennari verður Ragnheiður Hergeirsdóttir aðjunkt og kennari Neyðarlínunnar verður Hjördís Garðarsdóttir.

Ásamt framangreindu námskeiðahaldi er áformað að skoða möguleika á að sækja styrki til rannsókna sem lúta að neyðarsvörun hérlendis. Einnig munu Neyðarlínan og Félagsráðgjafardeild skilgreina meistaraverkefni fyrir nema í starfsréttindanámi sem lúta m.a. að rannsóknum á líðan og starfsskilyrðum starfsfólks Neyðarlínunar og upplifun notenda á þjónustu hennar. Loks kveður samningurinn á um að aðilar muni leita leiða til að efla vísindarannsóknir og vísindamiðlun á sviði neyðarsvörunar með því að afla rannsóknarstyrkja og fá til landsins erlenda sérfræðinga á þessu sviði.

Umsjón framangreindra verkefna verður á hendi prófessoranna Guðnýjar Bjarkar Eydal og Steinunnar Hrafnsdóttir og Tómasar Gíslasonar, aðstoðarframkvæmdastjóra Neyðarlínunnar.

Samningurinn gildir til haustsins 2023 og verður þá tekinn til endurskoðunar.

Frá undirritun samstarfssamningsins í Háskóla Íslands. Sitjandi eru þeir Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, og Þórhallur Ólafsson, framkvæmdastjóri Neyðarlínunnar, og standani þau Guðný Björk Eydal, prófessor við Félagsráðgjafardeild, og Tómas Gíslason, aðstoðarframkvæmdastjóri Neyðarlínunnar.