Skip to main content
16. desember 2019

Nefúðalyf gegn flogum tekið til sölu

""

Fyrsta nefúðalyfið sem notað er sem bráðameðferð við flogaveiki og byggist á rannsóknum Sveinbjörns Gizurarsonar, prófessors við Lyfjafræðideild Háskóla Íslands, hefur verið tekið til formlegrar sölu í Bandaríkjunum. 

Lyfið sem um ræðir nefnist Nayzilam. Það er hugsað til bráðameðhöndlunar við svokölluðum bráðaflogum eða raðflogum og reiknað er með að það auki mjög lífsgæði þeirra sem glíma við flogaveiki. Fólk getur ýmist tekið það inn sjálft þegar það finnur fyrir einkunnum floga eða aðrir gefið því lyfið. 

Flogaveikilyfið á rætur sínar að rekja til rannsókna Sveinbjörns og samstarfsfélaga sem hófust fyrir um 30 árum við Lyfjafræðideild Háskóla Íslands. Koma þess á markað undirstrikar mikilvægi grunnrannsókna við háskóla sem oft reynast tímafrekar en á grundvelli þeirrar þekkingar sem þær skapa verða til ný verkefni og nýjar lausnir. 

Um eitt og hálft ár er síðan Bandaríska lyfjaeftirlitið (FDS) tók umsókn um skráningu lyfsins til flýtimeðferðar. Eftirlitið samþykkti svo að heimila sölu á því á vormánuðum á þessu ári. Eftir undirbúningsvinnu vestra kom lyfið loks á markað nú í desember en sem fyrr segir er þetta fyrsta nefúðalyfið við þessum sjúkdómi. Reikna má með að það muni nýtast milljónum manna um heim allan á næstu árum. 

Fjölmörg lyfjaþróunarfyrirtæki hafa komið að klínískum tilraunum á lyfinu á undanförnum árum en hugverkaréttur vegna þess var snemma varinn með einkaleyfi. Hátæknifyrirtækið Hananja ehf. og Háskóli Íslands gerðu á endanum nytjaleyfissamning við lyfjafyrirtækið UCB um framleiðslu, markaðssetningu og sölu Nayzilam sem er fyrsta varan sem kemst á alþjóðlegan markað sem hefur farið í gegnum Hugverkanefnd Háskóla Íslands og Landspítala. 

Nánari upplýsingar um lyfið

Sveinbjörn Gizurarson