Skip to main content
7. mars 2019

Myndarlegur máltæknistyrkur til Þýðingaseturs

Þýðingasetur Háskóla Íslands hefur í samvinnu við Dublin City University, Landsbókasafnið í Noregi og Háskólann í Zagreb í Króatíu fengið myndarlegan styrk frá Sjóði fyrir samtengda Evrópu (Connecting Europe Facility), en það er sjóður sem ætlað er að styðja hagvöxt, atvinnu og samkeppnishæfi með markvissum fjárfestingum í innviðum. Innan þessarar áætlunar tekur Ísland þátt í verkefnum á sviði upplýsinga og samskiptatækni (ICT).

Verkefnið felst í að afla umfangsmikilla gagna úr fyrirliggjandi gagnagrunnum sem nýta má til stafrænnar vinnslu í þýðingum og við gerð máltæknilegra hjálpargagna. Gauti Kristmannsson, prófessor í þýðingafræði og forstöðumaður Þýðingaseturs, segir verkefnið stórt að umfangi og því sé ætlað að drífa áfram máltæknivæðingu „smærri“ evrópskra tungumála eins og íslensku, norsku, króatísku og írsku. Styrkurinn er alls rúmar 155 milljónir króna. Samstarfsaðilar Þýðingaseturs í verkefninu hér á landi eru Árnastofnun, Þýðingamiðstöð utanríkisráðuneytisins og þýðingastofan Skopos.

Gauti Kristmannsson, forstöðumaður Þýðingaseturs.