Skip to main content
19. ágúst 2022

Móttaka nýnema VoN: Spennt fyrir komandi vetri

Móttaka nýnema VoN: Spennt fyrir komandi vetri - á vefsíðu Háskóla Íslands

Móttaka fyrir nýnema á Verkfræði- og náttúruvísindasviði Háskóla Íslands fór fram 18. og 19. ágúst.

Á fimmtudeginum 18. ágúst mættu nýnemar í stóra salinn í Háskólabíó, þar sem Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, og Sigurður Magnús Garðarsson sviðsforseti tóku á móti þeim, ásamt Brynhildi R. Þorbjarnardóttur, forseta Sviðsráðs VoN og fulltrúa í Stúdentaráði, og Telmu Rut Bjargardóttur, fulltrúa í Sviðsráði VoN. Eftir móttökuna í Háskólabíó hittu nemendur kennara í námsbrautum og fengu nánari kynningu á náminu sem framundan er í vetur.

Á föstudeginum mættu nýnemar svo á kynningar frá Nemendaþjónustu VoN, Náms- og starfsráðgjöf HÍ og Alþjóðasviðs HÍ. Að kynningunum loknum tóku nemendafélög innan sviðsins við nýnemum. Boðið var upp á grillaðar pylsur hádeginu í sannkölluðu sumarveðri og eftir hádegið hélt dagskrá áfram undir styrkri stjórn nemendafélaga sviðsins. Aðspurð á kynningu hjá Náms- og starfsráðgjöf HÍ sögðust flest vera spennt fyrir náminu á komandi vetri.

Verkfræði- og náttúruvísindasvið þakkar öllum sem mættu á móttökuna og óskar öllum nýnemum velfarnaðar í náminu í vetur.

Myndir tók Kristinn Ingvarsson, ljósmyndari Háskóla Íslands.