Skip to main content
12. apríl 2021

Mótast mökunarköll landsela við Ísland af ógnum í umhverfi?

Mótast mökunarköll landsela við Ísland af ógnum í umhverfi? - á vefsíðu Háskóla Íslands

Landselsbrimlar við Íslandsstrendur virðast gefa frá sér lengri og lægri hljóð á fengitíma en landselir við Danmörku og Svíþjóð og það gæti markast að mögulegri ógn í umhverfi þeirra. Þetta er meðal þess sem fram kemur í niðurstöðum nýrrar rannsóknar vísindamanna við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Húsavík, Selasetur Íslands, Hafrannsóknastofnun, Syddansk Universitet og Árósaháskóla í Danmörku. Greint er frá niðurstöðunum í grein í nýjasta hefti vísindaritsins JASA Express Letters.

Landselur er algengasta selategundin við Ísland og önnur tveggja tegunda sem kæpa hér við land. Stærstu látur tegundarinnar eru á norðvesturhluta landsins og Suðurlandi en hana má þó finna allt í kringum landið. Tegundina er einnig að finna annars staðar við norðanvert Atlantshaf og norðarlega í Kyrrahafi svo dæmi séu tekin. 

Lítið er vitað um mökunarhegðun tegundarinnar þar sem mökun fer fram í sjó en þó er vitað að á fengitímanum nýtir tegundin mökunarköll sem talin eru koma fyrst og fremst frá brimlum. Markmið rannsóknarinnar var að bera saman mökunarköll landsela hér við land við köll landsela við Danmörku og Svíþjóð ásamt því hvort ógn sem stafaði frá öðrum rándýrum hefði áhrif á köllin. 

Bent er á í greininni að íslenski landselsstofninn hafi ákveðna erfðafræðilega sérstöðu. Þá búi hann við meiri rándýrahættu í umhverfi sínu en tegundasystkin t.d. í Danmörku og Svíþjóð, bæði af völdum háhyrninga og útsela. Því mætti telja líklegt að köll landsela mörkuðust af því að draga úr hættu á því að verða fyrir barðinu á þessum tveimur tegundum.

Til þess að varpa ljósi á málið nýttu vísindamennirnir neðansjávarupptökubúnað til að fylgjast með köllum landsela á áætluðum fengitíma á tveimur stöðum (Heggstaðanesi og Illugastöðum á Vatnsnesi) á Norðvesturlandi, en á Norðurlandi vestra má finna nærri tíunda hluta alls landselastofnsins við Ísland. Köllin voru svo borin saman við köll landsela á tveimur stöðum við vesturströnd Jótlands í Danmörku og í Kalmarsund við austurströnd Svíþjóðar.

Til að mæla köll landsela nýta vísindamenn sérstakan neðansjávarupptökubúnað sem látinn er liggja í sjónum nærri látrum tegundarinnar í tiltekinn tíma. Mælingar hér á landi fóru fram á tveimur stöðum (Heggstaðanesi og Illugastöðum á Vatnsnesi) á Norðvesturlandi, en á Norðurlandi vestra má finna nærri tíunda hluta alls landselastofnsins við Ísland.

Köll íslenskra landsela lengri og lægri

Vísindamennirnir námu aðeins köll landsela við Heggstaðanes en ekki Illugastaði og þá eingöngu snemma á því tímabili sem upptökur fóru fram. Til samanburðar varð vart við köll landsela allan fengitímann og á ýmsum stöðum þar sem mælingar fóru fram í Danmörku. Samanburður á upptökunum leiddi einnig í ljós að köll landsela við Ísland voru lengri og lægri en köll tegundasystkina við Danmörku og Svíþjóð. Þá sýna fyrri rannsóknir frá bæði Skotlandi og vesturströnd Norður-Ameríku að landselir láta alla jafna vel í sér heyra á fengitímanum og af þessu draga vísindamennirnir m.a. þá ályktun, að teknu tilliti til ýmissa annarra þátta, að íslenskir landselir láti minna í sér heyra en aðrir stofnar tegundarinnar á þessu tímabili. 

Vísindamennirnir benda enn fremur á að lægri og lengri köll íslenskra landsela vitni hugsanlega um aðlögun þeirra að aðstæðum hér við land sem eru ólíkar aðstæðum við Danmörku og Svíþjóð. Hér sé mun meira af mögulegum rándýrum í sjónum, eins og háhyrningar og útselir. Með lengri og lægri köllum freisti landselsbrimlar hér við land þess hugsanlega í senn að ná eyrum urta á fengitímanum en um leið að draga úr hættunni á því að verða fyrir árásum háhyrninga eða útsela.

Vísindamennirnir hyggjast halda rannsókninni áfram til þess að afla frekari þekkingar á þessu sviði. Rannsóknir á mökunaratferli, m.a. hljóðsamskiptum, landsela eru mikilvægar því þær stuðla að aukinni þekkingu á t.d. tímasetningu mökunartímabils og staðsetningu mikilvægra mökunarsvæða. Slík þekking er mikilvægur hlekkur í stjórnun og verndun íslenska landselsstofnsins til framtíðar.

Rannsóknin byggist m.a. á meistaraverkefni Helen Rössler við líffræðideild Syddansk Universitet í Danmörku sem hún vann undir leiðsögn Marianne H. Rasmussen, forstöðumanns Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Húsavík, Magnus Wahlberg, lektors við Syddansk Universitet, og Söndru M. Granquist, atferlisvistfræðings við Hafrannsóknastofnun og deildarstjóra líffræðideildar Selaseturs Íslands á  Hvammstanga.

Vísindagreinina má finna á vef JASA Express Letters.

Landselir á Norðvesturlandi
Helen Rössler við líffræðideild Syddansk Universitet í Danmörku að störfum með upptökubúnaðinn