Skip to main content
13. febrúar 2018

Mikilvægt að vinna með fátækari þjóðum

""

„Háskóli Íslands tekur þátt í fjölbreyttu háskólasamstarfi víða um heim en mest við háskóla í nágrannalöndum okkar og hátekjuríkjum innan OECD. Minna fer fyrir samstarfi við háskóla í fátækum löndum, til dæmis í Afríku sunnan Sahara eins og í þessu tilviki. Það er því jákvætt fyrir Háskóla Íslands að Aladje Baldé, rektor Jean Piaget háskólans í Bissá, komi hingað og kynnist starfi Háskólans og fái samtímis tækifæri til að segja frá háskólastarfi í heimalandinu.“

Þetta segir Geir Gunnlaugsson, prófessor í hnattrænni heilsu við Háskóla Íslands, sem tók ásamt fleirum á móti á Aladje Baldé á dögunum þegar hann heimsótti Háskóla Íslands til að kynnast starfinu hér. Heimsóknin var liður í samstarfi skólanna sem hefur verið sérstaklega styrkt af Evrópusambandinu. Rætur þessa samstarfs liggja í rannsókn um heilsu og líðan unglinga í Gíneu-Bissá en að því koma Geir Gunnlaugsson ásamt Jónínu Einarsdóttur, prófessor í mannfræði við Háskóla Íslands.

Fjölbreytt samstarf mikilvægt

„Fyrir Jean Piaget háskólann í Bissá, ekki síður en Háskóla Íslands, er mikilvægt að vera í fjölbreyttu samstarfi við háskóla sem víðast um heim. Þetta er nýr háskóli í litlu og einu fátækasta ríki heims þar sem framtíð þess byggist m.a. á því að geta boðið upp á góða háskólamenntun. Að fá tækifæri að kynnast starfi, starfsmönnum og nemendum Háskóla Íslands styrkir því skólann í þessu uppbyggingarstarfi sínu,“ segir Geir um heimsókn rektorsins til Íslands. „Það er einnig mikilvægt fyrir Jean Piaget háskólann að kynnast háskóla á Norðurlöndum sem býður upp á fjölbreytt nám sem hefur tekið áratugi að byggja upp.“

Geir Gunnlaugsson er fyrrverandi landlæknir Íslendinga og þekkir vel til mikilvægi þess að styðja við þróunarstarf, ekki hvað síst á sviði heilbrigðismála í löndunum sunnan Sahara. Hann hefur starfað sem læknir og við rannsóknir í Gíneu-Bissá frá árinu 1982, meðal annars í verkefnum tengdum kólerufaröldrum og uppbyggingu heilsugæslu á landsbyggðinni. „Slík uppbygging er mikilvæg til að bæta heilsu og líðan landsmanna en einnig til að takast á við erfiðar áskoranir eins og til dæmis þá ógn sem landinu stafaði af Ebólufaraldrinum í Vestur-Afríku,” segir Geir.

Einungis sex háskólamenntaðir í öllu landinu

Að sögn Geirs hitti rektorinn frá Bíssá fjölda starfsmanna við Háskóla Íslands í ferð sinni hingað, m.a. Jón Atla Benediktsson rektor og Guðbjörgu Lindu Rafnsdóttur, aðstoðarrektor vísinda. Hann átti auk þess fund með sviðsforsetunum Daða Má Kristóferssyni frá Félagsvísindasviði og Ingu Þórsdóttur frá Heilbrigðisvísindasviði. „Hann átti einnig fundi með samstarfsfólki við Rannsóknir og greiningu hjá Háskólanum í Reykjavík og sérfræðingum á þróunarsamvinnuskrifstofu utanríkisráðuneytisins, Embætti landlæknis og í veirufræði á Landspítalanum.“

Geir segir að Aladje Baldé hefði sagt frá uppbyggingu háskólanáms í heimalandi sínu á opnum fundi í Háskóla Íslands „og þá sérstaklega frá starfi Jean Piaget háskólans í Gíneu-Bissá en einnig í öðrum portúgölsku mælandi löndum í Afríku auk Portúgals og Brasilíu. Hann vakti meðal annars athygli á þeirri staðreynd að við sjálfstæði Gíneu-Bissá voru sex háskólamenntaðir menn í landinu,“ segir Geir. „Síðan 1990 hefur í vaxandi mæli verið hægt að stunda háskólanám í landinu og þar eru nú um 6000 háskólanemar, þar af um 1700 í Jean Piaget háskólanum.“

Miklir möguleikar í samstarfi

Geir segir að Háskóli Íslands geti gegnum starfsmanna- og nemendaskipti lagt sitt að mörkum til að efla háskólastarf í Bissá. „Það felst meðal annars í því að skipuleggja og vinna rannsóknir í landinu í samstarfi við heimamenn til að afla þekkingar um málefni sem brenna á landsmönnum, til dæmis heilsu og vellíðan ungmenna eins og í núverandi samstarfi skólanna. Einnig geta kennarar Háskólans lagt sitt af mörkum til kennslu og stuðlað að því að skapa möguleika fyrir unga og efnilega Bissá-gíneana að stunda háskólanám hér á landi. Að loknu námi snúa þeir síðan aftur til heimalands sína með nýja þekkingu og stofna síðan sjálfir til frekara samstarfs við Íslendinga, til dæmis í viðskiptum, atvinnulífi og háskólastarfi. Samstarf af þessum toga auðgar því háskólastarf á Íslandi samtímis sem það styrkir innviði í Bissá og leggur grunn að félags- og efnahagslegri velferð í landinu.“

Frá heimsókn Aladje Baldé, rektors Jean Piaget háskólans í Bissá
Frá háskólakennslu í Gíneu-Bissá
Frá miðborg Bissá